Fara í efni

RÖDD ÚR TYRKNESKU FANGELSI: VONIN SAMEINAR

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 10.02.17.
Stöðugt berast fregnir af nýjum fangelsunum í Tyrklandi, þar á meðal fangelsunum kjörinna fulltrúa, bæjarstjóra og þingmanna, úr röðum Kúrda.
Sjálfur hef ég á þingi Evrópuráðsins kynnst þingmönnum sem nú sitja á bak við lás og slá. Í fæstum tilvikum hafa sakir verið bornar á hendur þeim annað en að þeir hafi tengsl við ólöglega hópa og séu þar með sjálfir ógn við öryggi ríkisins.
Svona hefur fasisminn yfirleitt hagað sér, skilgreinir öll andófsöfl sem hryðjuverkasamtök og síðan í framhaldinu að öll samskipti við þau séu saknæm. Þetta opnar stjórnvöldum leið til að fangelsa nánast að geðþótta.

Valdi fangelsaðan þingmann af handahófi

Ég ákvað að velja einn fangelsaðan þingmann Kúrda, nánast af handahófi og grennslast fyrir um sögu hans og hvaða ástæður væri gefnar fyrir því að hann hefði verið sviptur frelsi.
Fyrir valinu varð maður að nafni Ferhat Encü. Hann er fæddur árið 1985 í Sirnakhéraði í austanverðu Tyrklandi og er því þrjátíu og tveggja ára. Hann nam námaverkfræði og lagði stund á hana þar til hann var kosinn á tyrkneska þingið í júní 2015.  
Á árunum 2013 til 2015 var þíða í samskiptum tyrkneskra yfirvalda í Ankara og Kúrda, sem barist höfðu  fyrir lýðréttindum, ekki síst sjálfstjórn í menningarlegum efnum, meðal annars að fá að tala tungumál sitt. Almennt var því trúað að Erdogen, æðstráðanda í Tyrklandi annars vegar, og forystu Kúrda hins vegar, væri alvara í því að ná samkomulagi um friðsamlega lausn á átaka- og deilumálum sínum.

Skýlaus mannréttindabrot segir Amnesty International

Þegar Kúrdar hinsvegar náðu verulega góðum árangri í þingkosningum í júní 2015 og Erdogan missti þingmeirihluta sinn, varð viðsnúningur af hans hálfu og ofbeldið hófst að nýju.
Í skýrslum Amnesty International er talað um mjög alvarleg mannréttindabrot af hálfu tyrkneska hersins og staðhæft er í skýrslum Evrópuráðsins að um hálf milljón Kúrda í austurhéruðum Tyrklands séu á vergangi eftir langvinnt hernaðarofbeldi og útgöngubann í heilum héruðum og borgum, sem takmarkað hafi aðgang að drykkjarvatni og vistum með skelfilegum afleiðingum.

Viljum ná tali af Öcalan

Þessu fæ ég að einhverju leyti að kynnast í næstu viku, gangi öll áform eftir um að ég heimsæki helstu byggðir Kúrda  í Tyrklandi. Þar verð ég í tólf manna sendinefnd sem formlega fer þess á leit við tyrknesk yfirvöld að ná tali af Öcalan, leiðtoga Kúrda, sem haldið hefur verið í fangelsi síðan 1999, lengstum í einangrun, á eynni Imrali í Marmarahafinu.

Fjölskyldan stráfelld í loftárás

Til að skilja hlutskipti Ferhat Encü, þarf að hverfa nokkur ár til baka, rétt áður en tími þíðunnar hófst. Hinn 28. desember árið 2011 gerði tyrkneski herinn loftárás á hóp fólks í fjallahéruðunum sem liggja að Írak. Í valnum lágu tæpir fjórir tugir manna, flestir unglingar. Flest hinna myrtu voru skyldmenni Ferhat Encü, þar af ung systkini hans og frændsystkini.
En hver var skýringin á loftárásinni? Jú, að þarna hafi smyglarar verið staðnir að verki. Ég spurðist fyrir um þetta hjá fólki frá þessum slóðum. Svarið var á þá lund að þarna í fjallahéruðunum sé skilningur á þýðingu landamæra takmarkaður.  Fólk úr einu þorpi hafi um aldir verslað við fólk úr öðrum þorpum, óháð landamærum. Landslögum samkvæmt hafi eflaust verið um smygl að ræða en varla til að myrða alla hlutaðeigandi!
Að sögn voru lík unglinganna svo illa brunnin eftir eldregnið úr sprengjuvélum tyrkneska hersins að þau voru illþekkjanleg!

Knúinn áfram af harmi og ástríðu fyrir réttlæti

Sorgin sagði til sín og réttlætiskennd hins unga manns varð þess valdandi að hann vildi að rannsókn færi fram á fjöldamorðinu. Hann fór að láta til sín taka í stjórnmálum og var kjörinn á þing 2015.
Þegar hann var á flugvellinum í Istanbul á leið úr landi 4. nóvember sl. á leið til Brüssel , voru tekin af honum ferðaskilríki og í kjölfarið var hann hnepptur í fangelsi. Ákæra í mörgum liðum var síðan gefin út þar sem, að því er ég kemst næst, krafist var dauðadóms.

Skilaboð úr tyrknesku fangelsi ...

Úr fangelsinu hafa borist skilaboð frá Ferhat Encü á þessa leið: Við stöndum í strangri baráttu, þúsundir hafa fallið. Við verðum að standa gegn ofbeldinu og kveða það niður. Það er hægt og það mun takast með samstöðu okkar gegn fasismanum. Þegar við finnum fyrir henni kviknar vonin og hún sameinar okkur!

... og skilaboð frá Íslandi

Þetta er ekki í síðasta skipti sem ég skrifa um Ferhat Encü. Ég er staðráðinn í því að fylgjast með framvindu hans mála og ber ég þá von í brjósti að síðar eigi ég eftir að færa af honum góðar fréttir. Það mun þó ekki gerast nema valdhafar í Tyrklandi finni að fylgst er með þeim og að samstöðu við frelsisbaráttu Kúrda sé að finna víða um heim, þar á meðal á Íslandi.