Fara í efni

BJARNA BOÐIÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í Morgunblaðinu 17.03.17.
Í viðtali í Morgunblaðinu 4. mars síðastliðinn segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, að áfengsfrumvarpið sem nú er til umræðu á Alþingi sé vissulega ekkert smámál eins og stundum sé látið í veðri vaka. Það snúist um það hvort mikilvægt sé „að ríkið sjái um þessa tegund smásöluverslunar ..." og forsætisráðherra svarar sjálfum sér að bragði og segist telja „að við getum fært þessa verslun í hendur einkaaðila og búið þannig með lögum og reglum að starfseminni að gætt sé að sjónarmiðum sem þarf að gæta að þegar áfengi er annars vegar."

Tekur hagsmunatengda afstöðu

Þetta er mjög skýrt. Fosætisráðherra stillir sér upp með tilteknum hagsmunum og þá gegn öðrum. Hann vill að verslunin sé ekki hjá ríkinu heldur einkaaðilum ef hægt er að koma því við.
Nú er það svo að við sem erum andvíg því að meina ríkinu að annast smásöludreifingu á áfengi höfum fært rök fyrir því að þetta form sé í samræmi við aðra hagsmuni,  þá hagsmuni sem tengjast lýðheilsu, enda í samræmi við ábendingar og áskoranir heilbrigðisstétta, Alþjóðaheilbrigðsstofnunarinnar, Embættis landlæknis, foreldrasamtaka, ungmennasamtaka og annarra samtaka sem beita sér gegn áfengisneyslu og annarri vímuefnanotkun. Markaðsvæðingunni andmæla þessir aðilar allir hástöfum. Einu aðilarnir sem eru henni fylgjandi virðast vera verslunaraðilar sem sjá hagnaðarvon, væntanlega hinir sömu og forsætisráðherra vill færa áfengissöluna í hendur, eins og hann orðar það í framangreindu viðtali. Enginn deilir um að þarna er um gríðarlega peningahagsmuni að ræða.

Forverar forsætisráðherra sýndu varkárni

Ég leyfi mér að vekja athygli Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, á því að forverar hans í formennsku Sjálfstæðisflokksins sem jafnframt hafa gegnt embætti forsætisráðherra, á undanförnum áratugum, hafa ekki viljað hleypa ágengri markaðshyggju í áfengismálum uppá dekk eins og hann virðist reiðubúinn að gera. Frumvörp um afnám ÁTVR hafa nefnilega oft komið fram áður, en aldrei verið veittur sambærilegur stuðningur og nú gerist af hálfu forystu Sjálfstæðisflokksins.
Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að ekki séu allir flokksmenn Bjarna sáttir við þessa stefnubreytingu enda hafði varkárni forvera hans, hygg ég, ekki með það að gera að þeir hafi ekki viljað veg markaðsaflanna mikinn. Allt of mikinn, fyrir minn smekk! En þarna var að finna varnagla og varkárni af félagslegri og lýðheilsurót. Ég þykist vita að margir flokksfélagar þeirra voru sama sinnis.

Fundurinn í Valhöll

Ég minnist fundar sem mér var boðið á í salarkynnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll, haustið 2014 til að taka þar þátt í umræðum um framvarp Vilhjálms Árnasonar sem þá var nýkomið fram, sama efnis og núverandi frumvarp Teits Björns Einarssonar. Ásamt mér mætti Ari Matthíasson, Þjóðleikhússtjóri, þáverandi starfsmaður SÁÁ, og andmæltum við frumvarpinu en til varnar var flutningsmaður ásamt Pavel Bartoszek, núverandi þingmanni Viðreisnar. Hver talaði með sínu nefi að sjálfsögðu en síðan voru athugasemdir úr sal.
Fyrir og eftir fundinn gafst okkur færi á að ræða við marga fundarmenn. Eflaust voru stuðningsmenn flutningsmanna fleiri á fundinum en andstæðingar, en þó er ég ekki viss, því á þessum fundi, að ekki sé minnst á viðbrögð eftir hann, sannfærðist ég um að andstaðan gegn þessum lagabreytingum er mjög hörð af hálfu margra hægri manna enda ætti þetta mál ekki að vera flokkspólitískt.

Á ekki hlusta á þá sem best hafa kynnt sér málin?

Stjórnmálamenn segjast iðulega vilja vera faglegir og saglegir, hlusta á rök og ábendingar þeirra sem rannskað hafa álitamál sem uppi eru. Það er vissulega gert þegar lýðheilsustefna er mótuð - og samþykkt.
Slík stefna, byggð á ítarlegum rannsóknum, var samþykkt á síðasta kjörtímabili, meðal annars af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins! Heilbrigðisyfirvöld hafa á það bent að umrætt frumvarp stríði gegn þessari stefnu.
Er þar komið að tilefni þessa opna bréfs til forsætisráðherra, að bjóða honum til fundar, sem fyrst og fremst á að vera upplýsandi.
Fundurinn er hádegisfundur, haldinn í Iðnó í Reykjavík, þar sem einfaldlega er spurt: Hver á að selja áfengi: hvað segja ransóknir?
Til þess að svara spurningunni hafa verið fengnir færustu sérfæðingar. Fundurinn verður stuttur en vonandi markviss. Ekki trúi ég öðru en forsætisráðherra vilji kynna sér niðurstöður rannsókna færustu sérfræðinga áður en málið er til lykta leitt á Alþingi. 
Vonandi sjáumst við á laugardag klukkan tólf!
Ögmundur Jónasson,
höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráherra