ER ÞAÐ AÐ TAKAST SEM THATCHER TÓKST EKKI?

MBL - LogoBirtist í helgarblaði Morgunblaðsins 18/19.03.17.

Margaret Thatcher, járnfrúin breska, fyrrum forsætisáðherra Bretlands, vissi hvað hún vildi. Hún vildi kapítalismanum vel. Svo vel vildi hún honum að helst átti að gera alla að  kapítalistum, hvort sem þeir yrðu stórir eða smáir, allir skyldu verða kapítalistar. Umfangið skipti ekki öllu máli heldur hugarfarið. Búa yrði þannig um hnúta að allir öðluðust hlutdeild í hagkerfi markaðshyggjunnar.

Þetta mætti til dæms gera í gegnum hlutabréf. Ef allur almenningur ætti hlutabréf, mætti ætla að þorri manna yrði  vakinn og sofinn yfir hlutabréfavísitölum og síðan náttúrlega í eilífri vörn fyrir markaðstorgið; að gangverk þess yrði ekki truflað. Allir skyldu eiga hagsmuna að gæta. Prívat og persónulega. Þannig yrði pólitískri varðstöðu komið á laggirnar fyrir þjóðfélag markaðshyggju.  

Andspænis hugsun Thatchers stóðu síðan kommar og kratar og sögðu að þjóðfélagsþróunin ætti ekki að stjórnast af duttlungum á torgi markaðarins, von um prívat gróða, heldur af sameiginlegri hagsæld okkar allra. Þeir sem lengst gengu í þessa átt og vildu ekki fyrir nokkurn mun að prívathagsmunir réðu för, vildu jafnvel allan atvinnurekstur í samfélagseign og þess vegna koma okkur öllum í leiguhúsnæði, því eignir gætu villt okkur sýn.

Síðan var pólitískur akur þarna á milli þar sem talað var fyrir blöndu af þessu tvennu. Prívat eign á heimili, farartæki, bújörð  og fyrirtæki væri góð og eftirsóknarverð en allt í hófi þó. Hóflegar eignir gætu þannig myndað umgjörð öryggis. Það væri jafn gott og braskið væri illt.

Frá því er skemmst að segja að Margaret Thatcher tókst ekki ætlunarverk sitt fremur en sameignarsinnum eins og við þekkjum af sögunni. Annars vegar skorti einstaklingana fjármuni eða hreinlega áhuga til að halda milljónum saman út á hlutabréfamarkaðinn og síðan gagnvart hinu viðhorfinu, var alltaf til fólk sem ekkert vildi frekar en að eiga og þess vegna helst græða líka og gaf lítið fyrir samfélag.

En í hugum þorra manna varð millivegurinn eftirsóknarverðastur, vegur hófsemdanna. En þótt ætla mætti að sá vegur yrði auðrataður þá hefur hann ekki reynst vera það. Í aðdraganda bankahrunsins hafði Thatchervæðing Íslands verið reynd, með alls kyns hlutabréfaafslætti og ívilnunum og að sjálfsögðu bónusum til þeirra sem væru virkilega dugandi í eiginhagsmunapotinu.

Svo hrundi allt. Og menn andvörpuðu, lofuðu bót og betrun, út á við og innra með sér. En svo er þetta núna skollið á að nýju. Sérfræðingar eru kallaðir til landsins til að segja okkur hvað markaðurinn vilji í raforkumálum og ferðaiðnaði, en samfélagið er orðið afgangsstærð. Og lýðræðið líka. Fáir þora að virkja það gegn öfgum markaðstorgsins.

Skýrasta birtingarformið á þessu hugarfari er sennilega airbnb kerfið, bráðsnjallt húsaleigukerfi fyrir þá sem vilja skipta á íbúðum sínum um stundarkorn, á meðan aðrir sjá þetta sem nútíma útgáfu á bed and breakfast þeirra Bretanna, þar sem fólk, oft á efri árum, leigir út gistingu til ferðamanna.

Það er hins vegar allt annað sem Íslendingar eru upplifa þessa dagana. Fólk flytur unnvörpum út úr íbúðum sínum til að braska með þær. Prísarnir hafa ekkert lengur með sanngirni að gera, enda segir markaðurinn til um hvað þú kemst upp með og þar með hvað er rétt og hvað er rangt.

Braskið  er orðinn faraldur. Skyldi airbnb ef til vill vera að takast það sem Thatcher tókst ekki?
Spyr sá sem ekki veit.

Fréttabréf