Fara í efni

FRÓÐLEGIR FYRIRLESTRAR Á IÐNÓFUNDI

Áfengi - spíri
Áfengi - spíri

Opni fundurinn í Iðnó í gær þar sem fjallað var um hvernig dreifingarmáti á áfengi hefði áhrif á neyslu þess, var mjög góður. Fyrirlesararnir, Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur og Hlynur Davíð Löve, læknir, nálguðust viðfangsefni sitt frá mismunandi sjónarhólum.

Áfengi - HildigunnurVið erum ekki eyland!

Annars vegar fór Hildigunnur yfir sögu þessara mála og þótti mér upplýsandi að heyra hve víða í heiminum reynt hefur verið að hamla gegn ágengni markaðsaflanna hvað áfengið varðar og hve víða sú umræða sem nú á sér stað hér á landi hefur farið fram í öðrum löndum þar sem verslunarhagsmunir og lýðheilsuhagsmunir hafa tekist á. Í þeim skilningi erum við ekki eyland.


Sláandi upplýsingar

Áfengi HlynurHlynur Davíð Löve setti fram staðreyndir sem sýndu á hvern hátt aukin neysla áfengis hefði áhrif á áfengistengda sjúkdóma með tilheyrandi afleiðingum fyrir heilsufar þjóðanna og lífslíkur. Munurinn á milli samanburðarsvæðanna var sláandi. Síðar mun ég gera erindunum betri skil.

Í bundnu máli og óbundnu

Ólafur Ólafsson, (fyrrverandi) landlæknir, kom með örstutta en áhrifaríka athugasemd á fundinum. Hann hvatti menn til að hugleiða hugtakið frelsi sem stundum slæddist inn í þessa umræðu. Hvenær skerðum við frelsi fólks og hvað er til þess fallið að auka frelsið, spurði Ólafur. Það væri þarft að máta þessar hugleiðingar inn í umræðuna um áfengisfrumvarpið sem liggur fyrir Alþingi, sagði hann og velktist enginn í vafa um hvert álit Ólafs var á því frumvarpi.
Níels Árni Lund flutti bráðsnjallt kvæði um glímuna við Bakkus og Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráherra hafði uppi varnaðarorð. Sama gerði Gunnar Alexander Ólafsson sem mikið hefur skrifað um heilbrigðismál af þekkingu og viti.

Vitnað í Sunnu Söru!

Ekki gafst mikill tími til umræðu enda ekki tilgangur fundarins, miklu frekar að upplýsa og með því móti örva til umræðu að honum loknum.
Ljóst er að fylgst verður náið með því hvernig einstakir þingmenn taka á málinu og var vakin  athygli á því að á Alþingi eru sérstakir talsmenn barna - einn fyrir hvern stjórnmálaflokk - sem hljóti að þurfa að axla ábyrgð sem slíkir. Haft var á orði að talsmenn barna hefðu greinilega ekki verið til staðar í sjónvarpsþætti Gísla Marteins Baldurssonar frá  kvöldinu áður þar sem börn voru notuð í umfjöllun sem var greinilega hugsuð sem háð á hendur þeim sem andmæltu títt umræddu áfengisfrumvarpi. Var af þessu tilefni vitnað í lesendabréf frá Sunnu Söru sem birtist á þessari síðu, sjá hér.
Áfengi - salur 4 
Áfengi 99