GRÁTKÓRAR GEFA FYRIR GJALDTÖKUMARKIÐ

GRATKORINN -I

Stundum hættir Íslendingum til að gerast vælugjarnir. Og nákvæmlega því verðum við vitni að nú því þessa dagana er grátið hástöfum út af vegakerfi landsins.
Fjölmiðlar leiða hvern sveitarstjórnarmannninn og ferðaþjónustufrömuðinn á fætur öðrum fram til að brynna músum opinberlega. Á Alþingi er líka mikið grátið frammi fyrir þjóðinni og á milli ekkasoganna er okkur sagt að vegakerfið sé  í rúst.   
Ástandi veganna hefur verið jafnað við hamfaravettvang! Og fjölmiðlamenn spyrja hvort ferðamenn hafi verið varaðir við áður en þeir keyptu farmiða til Íslands!!

Grætur sig í svefn

Undir allt þetta tekur samgönguráðherra, og segist hann sjálfur gráta sig í svefn á hverju kvöldi út af því hve hægt gangi að búa hér til margbrauta samgöngukerfi. Þess vegna sé hann að láta skoða gjaldtökuhugmyndir sínar. Hann á enn eftir að upplýsa okkur um það hverjir hafi fengið það verkefni. Fróðlegt væri að fá það fram í dagsljósið. Það skyldi þó aldrei vera Viðskiptaráð? Spyr sá sem ekki veit - en er engu að síður orðinn ýmsu vanur þegar hægrimennskan er annars vegar.

Á merkjamáli Mammons

Fjárfestar og pólitískir stuðningsmenn þeirra skilja merkjamál ríkisstjórnarinnar; að nú sé mál til komið að þeir taki undir enda ryðjast þeir nú fram til að fagna ótrúlegri hugkvæmni samgönguráðherra, að leggja til málanna þá frumlegu hugsun að taka af okkur sérstakt gjald fyrir að aka um vegi landsins. Þarna sé fundið fé, hvílík hugkvæmni!
Ekki að undra að verktakar hugsi nú margir gott til glóðarinnar og að fjárfestar telji sig eygja greiða leið ofan í vasa landsmanna. Þannig ráða þeir réttilega í merkjamál ríkisstjórnarinnar.

Forstjóri og ráðherra vilja einkavæða alþjóðaflugvöllinn

Sama er uppi á teningnum í fluginu. Fráfarandi formaður Samtaka atvinnulífsins og forstjóri Icelandair,  sagði í vikunni að það væri "galið" ef ríkið tæki áhættu af stækkun Leifssöðvar, það yrðu einkaaðilar að gera! Undir þetta tók ferðamálaráðherrann. Með öðrum orðum, prívatfjárfestar ættu að eignast þessa gullkvörn og grunnstoð í samgöngukerfi landsmanna. En hver halda þau, forstjórinn og ráðherrann, að kæmi til með að borga brúsann ef framkvæmdaaðilar á alþjóðaflugvelli Íslendinga yrðu gjaldþrota eða hyrfu frá borði?  

Ærin verkefni

En að lokum þessi spurning: Er ég að gefa í skyn að ég telji vegakerfið vera í góðu lagi? Nei, ég er ekki að segja að ég telji svo vera. Þar sem enn eru malarvegir  á hringveginum þarf að sjálfsögðu að malbika og hringvegurinn þyrfti helst allur að verða tveir plús einn. Byrja þyrfti á því að breikka vegina á gatnmótum þar sem hætta steðjar að. Almennt þarf að mínu mati að beina sjónum að almennu viðhaldi og vegabótum til að útrýma hættulegum stöðum. Þetta er vissulega ærið verkefni en hefur setið á hakanum vegna þess að risaframkvæmdir hafa fengið forgang.
Síðan þarf að láta Vegagerðinni í té nokkur hundruð milljónir til að bæta bílastæðin við vinsæla staði og koma þar upp góðri salernisaðstöðu. 

Allt yfirstíganlegt en ....

Þetta er allt yfirstíganlegt án þess að ráðist verði í sérstaka gjaldtöku. Skyldi hið grátgjarna fólk aldrei hafa ekið um fjölfarna sveitavegi á Bretlandi eða í Frakklandi - vegi þar sem umferðarþungi er engu minni en á íslensku þjóðvegunum. Engum dettur í hug að líkja þeim við vettvang hamfara.

... Þerrið tárin

Gleymum því ekki að á bak við þessar hugmyndir leynist alltaf aðili sem bíður þess að gera út á pyngjur landsmanna. Verum því á verði, en fyrir alla muni, þerrið tárin og hættið að gefa boltann fyrir gjaldtökumarkið.

Fréttabréf