Fara í efni

HVER Á AÐ SELJA ÁFENGI: HVAÐ SEGJA RANNSÓKNIR?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í Morgunblaðinu 23.03.17.
Fyrir fáeinum dögum var haldinn fróðlegur upplýsingafundur í Iðnó í Reykjavík sem tengist umdeildu frumvarpi sem nú er í meðförum Alþingis um að færa smásöludreifinguna á áfengi til einkaaðila. Á fundinum var fjallað um hvernig dreifingarmáti á áfengi hefði áhrif á neyslu þess. Fyrirlesararnir tveir á fundinum, Hildigunnur Ólafsdóttir, afbrotafræðingur og Hlynur Davíð Löve, læknir, nálguðust viðfangsefni sitt frá mismunandi sjónarhólum. Útgangspunktur beggja var hins vegar sama spurningin: Hver á að selja áfengi, hvað segja rannsóknir? Niðurstöðurnar voru afgerandi: Fráleitt er að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi.

Sölumátinn hefur afgerandi þýðingu

Hildigunnur Ólafsdóttir hefur einna besta yfirsýn yfir viðfangsefnið hér á landi því hún hefur sinnt rannsóknum á þessu sviði í langan tíma og birt viðmikið efni á sviði áfengisrannsókna og afbrotafræði, bæði hérlendis og erlendis.
Í máli hennar kom fram að þótt áfengiseinkasala hafi verið við lýði í mörgum löndum hafi fá ríki gjörbreytt áfengissölu sinni með því að einkavæða hana. Sum hafi hins vegar breytt sölufyrirkomulagi á einstökum flokkum áfengis eins og víni, bjór, áfengisgosi eða sterkum drykkjum. Flestar rannsóknir á breytingu á sölu léttra vína væru frá Bandaríkjunum  eftir að sala á  léttum vínum var færð frá níu fylkiseinkasölum í matvöruverslanir á árunum 1970-1985. Niðurstöður sýndu að sölustöðum léttra vína fjölgaði og vínsala jókst. Í rannsóknum væri iðulega horft til breytinga á sölu bjórs í Finnlandi og Svíþjóð. Þegar bjórsala var leyfð í matvöruverslunum í Finnlandi árið 1969 hafi áfengisneysla aukist í öllum aldursflokkum og áfengistengd vandamál að sama skapi.

Svíar og millisterki bjórinn

Tilraun til að selja millisterkan bjór í matvöruverslunum í Svíþjóð (1965-1977) hafi verið hætt aðallega vegna aukinnar unglingadrykkju. Þá kom fram í fyrirlestrinum að Washington ríki í Bandaríkjunum hafi einkavætt sölu á sterku áfengi árið 2012 í kjölfar almennrar atkvæðagreiðslu um málið. Í könnunum tveimur árum síðar þegar íbúarnir hafi verið spurðir hvort þeir væru enn sama sinnis hafi viðhorfin verið gerbreytt. Í ljós hafi komið að tillagan um afnám einkasölunnar hefði verið felld ef atkvæði væru greidd aftur.
Hildigunnur Ólafsdóttir sagði að þær rannsóknir sem hún vísaði til í fyrirlestrinum væru hluti af þeirri þekkingu sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin styddist við þegar hún hvetti þjóðir, sem hafa ríkisrekna áfengissölu, til að halda sig við það fyrirkomulag.

Verslunarhagsmunir gegn lýðheilsuhagsmunum.

Þetta kemur heim og saman við upplýsingar sem ég hafði aflað mér um markaðsvæðinguna í Washington ríki en í mín eyru hafði verið staðhæft að hún hafi verið sett á dagskrá vegna þrýstings frá risaverslunarkeðjum á borð við Costco.
Upp í hugann kemur að á síðasta kjörtímabili, þegar afnám einkasölunnar var á dagskrá, fundu menn einmitt fyrir þrýstingi frá Costco en sem kunnugt er hefur verslunarkeðjan boðað landnám hér á landi og sýndi þegar árið 2014 sérstakan áhuga á að fá að flytja inn hrátt kjöt og áfengi.
Íslenskar verslunarkeðjur eru sem kunnugt er við þetta sama heygarðshorn og eru áfjáðar að fá áfengi í sínar hillur enda ábatinn í sjónmáli mikill.
Verslunarhagsmunirnir standa þannig gegn þeim lýðheilsuhagsmunum sem teflt er fram af hálfu heilbrigðisstétta og heilbrigðisyfirvalda með Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, WHO, í fararbroddi. Auk heilbrigðisyfirvalda og heilbrigðisstétta hafa æskulýðs- og foreldrasamtök lagst eindregið gegn frumvarpinu.

Áhrif á sjúkdóma og lífslíkur

Hlynur Davíð Löve, læknir, gerði í erindi sínu grein fyrir rannsóknum á algengi, nýgengi og dánartíðni áfengistengdra sjúkdóma og lífslíkur í samanburðarlöndunum, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi.
Vék hann að  löggjöf í hverju landi og hver áhrif regluverkið hefði á sölu og neyslu áfengis og síðar tíðni áfengistengdra sjúkdóma og andlát af þeirra völdum. 
Hvað varðar aðgengi að áfengi reyndust lög og regluverk minnst takmarkandi í Danmörku en mest hér á landi. Sala og neysla áfengis mældist langmest í Danmörku en minnst á Íslandi og var það rakið til aðgengis og dreifingarmáta. 

Því meira drukkið þeim mun styttra líf

Þá var nýgengi og algengi flestra þeirra sjúkdóma sem tengja má beint við áfengisneyslu hæst í Danmörku, en lægst á Íslandi og lífslíkur reyndust mestar á Íslandi, næst mestar í Svíþjóð en minnstar í Danmörku. Augljóst þykir að Dönum mun ekki takst að bæta sinn hlut án þess að draga úr áfengisneyslu, svo augljóst sé orsakasamhengið.
Flestar rannsóknir sem skoðaðar voru, að sögn Hlyns Davíðs, þar með taldar rannsóknir Svía á sunnudagsopnun Systembolaget og sölu á miðsterkum og sterkum bjór í matvöruverslunum, hafi sýnt fram á að aukið aðgengi að áfengi, verðlækkun og breytingar á áfengiskaupaaldri hafi leitt til aukinnar sölu og neyslu áfengis sem að lokum hafi haft í för með sér aukna tíðni áfengistengdra sjúkdóma og dauðsföll af þeirra völdum að ógleymdum skaða af félagslegum toga og kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið og samfélagið í heild.
Í ´máli Hlyns Davíð kom fram að til hliðsjónar hefði hann haft rannsóknir hvaðanæva að úr heiminum og hefðu þær allar bent til þess að aukið aðgengi og slökun á regluverki leiddi til aukins áfengistengds skaða.

Talsmenn barna á Alþingi og WHO

Á fundinum var vísað til þess að stjórnmálaflokkar á Alþingi hafi tilnefnt sérstaklega einn þingmann hver, ásamt varamanni, til að gerast sérstakir talsmenn barna. Vildu menn vita hvaða afstöðu þessir þingmenn tækju til þessa frumvarps í ljósi þess að foreldrasamtök og æskulýðssamtök hafi tekið mjög eindregna afstöðu gegn því. Þá var vakin athygli á því að heilbrigðisráðherra Óttar Proppé hefði á Alþingi vitnað í erindi sem honum hefði borist frá Alþjóðaheilbrigðsstofnuninni, WHO. Vildu menn vita hvað kæmi fram af hálfu þessarar stofnunar Sameinuðu Þjóðanna um málareksturinn á Alþingi og hver viðbrögð heilbrigðisráðherra Íslands væru.
Þessu var ekki unnt að svara á fundinum en fjölmiðlar mega vita að áhugi er á því að þessar upplýsingar verði kallaðar fram.