Fara í efni

„NÝJAR NÁLGANIR" Í SAMGÖNGUMÁLUM?

Prinsinn 2
Prinsinn 2

Allt fram á 19. öld var Evrópa sundurskorin með vegatálmum og tollhliðum á ám og skurðum þar sem vegfarendur og sjófarendur voru krafðir um gjöld til að geta komist leiðar sinnar.

Þetta kom upp í hugann þegar formaður fjárlaganefndar kom fram í Sjónvarpi í kvöld. Fyrst til að býsnast  örlítið yfir samflokksmanni sínum, samgönguráðherranum, fyrir niðurskurð til samgöngumála en síðan til að taka undir með honum um að ráðið væri að seilast ofan í vasa okkar vegfarenda til að fjármagna vegabæturnar sem ríkisstjórn þeirra félaga ætlar að svíkja okkur um. Skildi ég ekki annað á Haraldi Benediktssyni en að hinar „nýju nálganir", sem hann nefndi svo, væru vegatollar.

Óneitanlega er það svolítið spaugilegt þegar þeir félagar tala um „nýjar nálganir" í þessu samhengi eins og formaður fjárlaganefndar gerði með tilvísan í vegatollaáform Jóns Gunnarssonar, því í reynd sækja þeir fyrirmyndir sínar um fjáröflunaraðferðir aftur í aldir.

Það sem ekki er hins vegar spaugilegt er að þessum mönnum er alvara með gjaldtökuásælni sinni. Hún mun ná fram að ganga ef ekki verður hressilega mótmælt.

Alvarlegast er, að nú býðst þeim tækni til skattlagningar án þess að við vitum af. Hún gengur úr á það að litlum tölvukubbi er komið fyrir í bílum okkar og svo slá rukkararnir inn hve mikið þeir vilja hafa af okkur hverju sinni. Því meira sem skorið er niður við ríkisstjórnarborðið þeim mun hærra stilla þeir gjaldmælinn hjá okkur.

Að þessu leyti má vissulega til sanns vegar færa að nálgun þeirra félaga sé ný af nálinni.

En niðurstaða mín er þessi: Það á ekki að minnka gjaldfrjálsa Ísland.

Það á að stækka það og hafna gjaldtökuáformum þeirra félaga.