Fara í efni

„NÚTÍMAMAÐURINN LÆTUR EKKI BLEKKJAST AF AUGLÝSINGUM!"

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01/02.04.17.
Ralph Nader kemur alltaf upp í huga minn þegar sannleiksgildi auglýsinga er annars vegar. Ég leyfi mér að efast um að hann myndi skrifa upp á fullyrðingu fyrirsagnarinnar.

Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar kom Ralph Nader eins og hvirfilbylur inn í bandaríska þjóðamálaumræðu með útgáfu bókar sinnar Óöruggur á hvaða hraða sem er (Unsafe at any speed). Þessi bók var ákæra á hendur bílaiðnaðinum í Detroit. Í bókinni var því haldið fram að framleiðendur legðu meira upp úr útliti bifreiða en öryggi þeirra, sýndarveruleika en veruleikanum sjálfum og í samræmi við það væru þær kynntar í auglýsingum.

Skömmu eftir útgáfu bókarinnar tóku ný alríkislög gildi í Bandaríkjunum um öryggi bifreiða og er lagasetningin rakin til bókarinnar og þeirrar umræðu sem Ralph Nader vakti með skrifum sínum og fyrirlestrum um blekkingar í auglýsingum.

Ralph Nader beindi sjónum sínum víðar og sífellt fjölgaði þeim sem vildu setja auglýsendum stólinn fyrir dyrnar. Ég minnist fyrirlesturs frá þessum tíma sem hafði mikil áhrif á mig og varð þess valdandi að ég hef alla tíð talið neytendasamtök gegna lykilhlutverki sem varnarsamtök fyrir sannleikann.

Slík samtök fóru semsé mikinn á þessum árum vestanhafs og stefndu óhikað framleiðendum fyrir dómastóla ef þeir voguðu sér að setja fram fullyrðingar um vöru sína og þjónustu sem ekki voru sannleikanum samkvæmar.

En hver eru hugrenningatengslin við Ralph Nader? Þau eru til komin vegna viðtals sem ég hlýddi nýlega á í útvarpi. Fyrir svörum var talsmaður auglýsingaiðnaðarins. Honum vafðist ekki tunga um tönn enda viss í sinni sök. Tvennt stóð upp úr.

Bann við áfengisauglýsingum á Íslandi væri hlægileg tímaskekkja og svo að skilja að þeir sem héldu slíkri tímaskekkju fram væru nánast hlægilegir sjálfir. Við lifðum í landamæralausum, alþjóðlegum heimi þar sem tækni fjölmiðlunar virti engin landamæri. Þetta yrðu menn að skilja! Hitt atriðið sneri að auglýsingum almennt. Það þyrfti ekki að hafa áhyggjur af ágengni auglýsinga, nútímamaðurinn léti ekki blekkjast af auglýsingum!

Hvoru tveggja er ég ósammála og kalla ég Ralph Nader og neytendafrömuði heimsins mér til vitnis.

Heimur auglýsenda er vissulega alþjóðlegur en heimur baráttufólks fyrir siðlegum auglýsingum og skorðum við auglýsingum er það líka. Þess vegna er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin að hvetja Íslendinga til dáða, að gefast ekki upp fyrir ágengum fíkniiðnaði hvort sem er í dreifingarmáta áfengis eða takmörkunum á auglýsingum um vín og tóbak.

Í mínum huga eru auglýsingar hvorki góðar né slæmar sem slíkar. Upplýsandi auglýsingar eru góðar en blekkingar slæmar. Hvað varðar meint ónæmi „nútímamannsins"  fyrir blekkingum þá hefur talsmaðurinn ákafi þó eitt sér til málsbóta. Flestar sjónvarps og útvarpsauglýsingar, hvort sem þær eru frá bönkum, tryggingafyrirtækjum eða kaffiframleiðendum, segja neytandanum lítið sem ekkert um vöruna. Menn gera sér gjarnan leik að því geta sér til um hvað sé verið að auglýsa áður en það er upplýst í blálokin. Auglýsingar á ljósvakanum eru því í bland samkvæmisleikir.

Markmið ímyndarauglýsinga nú sem fyrr er að skapa jákvæð hughrif, hvort sem er til bifreiðarinnar, kaffipokans eða bankans. Til sanns vegar má hins vegar færa að slíkar auglýsingar án innihalds, segi ekki ósatt.

En þær blekkja.