Fara í efni

BJARNI SPYR OG ER SPURÐUR

BB forsætis II
BB forsætis II

Forsætisráðherra landsins hefur brotið blað í stjórnmálasögunni. Hann er fyrstur forsætisráðherra að tala opinskátt fyrir því að heilbrigðisþjónusta landsins verði nýtt af fjármálafólki til að sækja þangað hagnað. Þetta hefur hann ítrekað sagt nú síðustu daga í fjölmiðlum og nú síðast á Alþingi í dag. Framganga fyrri forsætisráðherra landsins hefur oft orkað tvímælis þegar einkavæðing er annars vegar en yfir þessa línu hafa þeir ekki stigið, að gefa því siðferðilega ágætiseinkunn að fjárfesta í veikindum fólks og gera sér það að féþúfu - á kostnað ríkissjóðs í þokkabót.  

Forsætisráðherra spyr og er svarað

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, spyr hvort nokkrum manni finnist undarlegt að hægt sé að græða á tannlækningum sem atvinnurekstri. Því er til að svara að það finnst sennilega þorra landsmanna, sem helst vildu að tannlækningar heyrðu alfarið undir heilbrigðsþjónstuna og eigi að vera háð sömu lögmálum og hún.
Þá spyr Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, hvort nokkrum manni þyki undarlegt að sala á læknislyfjum sé gróðavænlegur atvinnuvegur. Því er til að svara að helst vildi þorri landsmanna að lyfjagjöf til sjúks fólks væri ókeypis, greidd úr ríkissjóði  og ekki gróðavegur.
Enn spyr forsætisráðherra hvort það sé ekki gamaldags að líta svo á að ekki megi græða á heilbrigðisþjónustu. Því er til að svara að þessu er þorri landsmanna algerlega andvígur eins og margoft hefur komið fram í skoðanakönnunum.

Forsætisráðherra spurður

En nú skal forsætisráðherra þjóðarinnar spurður:
Finnst Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, eðlilegt að braskarar taki tugi og hundruð milljóna til sín eins og fyrri eigendur Klíníkurinnar gerðu í skjóli þess að forsætisráðherrann og pólitískir félagar hans myndu sjá til þess að Klínikin verði gerð að gullgerðarvél á kostnað ríkissjóðs?
Hvort finnst Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra, hann fremur vera gæslumaður almannahagsmuna eða fólks sem nýtir sér pólitískar tengingar til að hagnast á kostnað almennings?
Sjálfum finnst mér svarið augljóst. Því miður fyrir Bjarna Benediktsson og því miður fyrir þjóðina.