Fara í efni

UMFJÖLLUN SJÚKRALIÐANS Á ERINDI TIL OKKAR!

Kristín sjúkraliði 2
Kristín sjúkraliði 2

Af tilefni þeirrar umræðu sem nú fer fram í þjóðfélaginu um heimaaðstoð við aldraða birti ég hér að neðan samantekt Sjúkraliðans, blaðs Sjúkraliðafélags Íslands, frá því í júní í fyrra, um umræðu sem fram fór á málþingi sem Evrópusamband sjúkraliða hafði þá nýlega staðið fyrir. Umræðan var mjög fróðleg og á að mínu mati tvímælalaust erindi inn í umræðuna sem nú fer í hönd um þetta mikilvæga málefni hér á landi.
Áherslan á málþinginu var á skipulag þjónustunnar, tilraunum til einkavæðingar og aukinni áherslu hvers kyns sjálfboðaliðastarf en í því væru ýmsar hættur fólgnar, ekki síst ef ríki og sveitarfélög þættust þar með laus allra mála:

Árleg fagráðstefna Evrópusambands sjúkraliða - EPN - var haldin á Íslandi að þessu sinni, 31. maí síðastliðinn, en þar var fjallað um sjálfboðaliðastörf í heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum og framtíðarsýnina einkarekstur eða ríkisrekstur í heilbrigðiskefinu.

Ráðstefnuna sóttu 140 fulltrúar sjúkraliða frá 6 löndum, þeirra á meðal um 60 íslenskir sjúkraliðar. Heyra mátti á ráðstefnugestum að hún hefði heppnast afar vel og lýstu margir erlendu gestanna ánægju með ráðstefnuhaldið og skipulag þess af hálfu Sjúkraliðafélags Íslands.

Í upphafi dags bauð Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, gesti velkomna og þá sérstaklega þá sem voru komnir um langan veg erlendis frá. Þá afhenti hún Ögmundi Jónassyni, fyrrum formanni BSRB og heilbrigðisráherra, fundarstjórnina, en hann hafði verið fenginn til að stýra ráðstefnunni og taka saman helstu efnisþætti í lok ráðstefnudags.

Ráðstefnan var skipulögð með það í huga að sem flestir gætu tekið þátt í umræðu að loknum erindum, borið fram spurningar eða sett fram eigin sjónarmið. Talsverðar umræður spunnust þannig um erindin sem flutt voru.

Áður en fyrsti fyrirlesari steig í pontu ávarpaði Tiia Rautpalo ráðstefnugesti en á fundi EPN sem haldinn var samhliða ráðstefunni lét hún af formennsku í sambandinu, en við keflinu úr hendi Finna tók Raymond Turöy formaður norskra sjúkraliða. Var vel við hæfi að fráfarandi formaður opnaði ráðstefnuna en nýr formaður flytti sitt ávarp undir lokin þar sem hann horfði fram á veginn.

Arðgreiðslur grundvallarbreyting

Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, flutti fyrsta erindið en titill þess var Sjálfboðaliðastörf í heilbrigðisþjónustu, áskoranir og tækifæri. Hún sagði mikilvægt að meta kosti og galla sjálfboðastarfa í heilbrigðisþjónustunni og draga lærdóma af reynslunni. Hún sagði að umræðan væri löngu tímabær og bagalegt hve lítil hún hefði verið fram til þessa.

Dr. Steinunn rakti á skýran hátt þær áherslubreytingar sem orðið hefðu innan heilbrigðisþjónustunnar á undanförnum árum og vakti sérstaka athygli á því að nú væri farið að greiða arð út úr heilbrigðiþjónustunni og væri það grundvallabreyting. Steinunn sagði að ýmislegt jákvætt fylgdi framlagi sjálfboðaliða, það gæti t.d. stuðlað að virkni þeirra sem nytu aðstoðar þeirra. En gjalda bæri varhug við því að sjálfboðaliðar væru ekki látnir sinna störfum sjúkraliða eða annarra og hér bæri að horfa til þess hve mikilvægt væri að undirmönnun stuðlaði ekki að slíkri þróun. Annað atriði sem hún varaði við var útboð á þjónustu enda væru brögð að því að stórfyrirtæki sölsuðu undir sig þjónustu oft með undirboðum sem smærri aðilar réðu ekki við.

Dr. Halvard Vike prófessor við háskólann í Þelamörk hefur rannsakað þessi mál í samstarfi við rannsóknarstofnunina Telemarkforskning. Titillinn á hans erindi var: Sjálfboðaliðastörf við þjónustu aldraða: Ímynd og raunveruleiki. Hann setti viðfangsefnið í sögulegt og siðferðilegt samhengi. Hann sagði að athyglisvert væri hve mismunandi viðhorf væri að finna í mismunandi löndum til þjónustunnar við aldraða. Í Bretlandi væri t.d. meiri vantrú á „kerfið" en á Norðurlöndum og gæti söguleg þróun skýrt það að einhverju leyti. Í Bretlandi hefði kerfið þróast „að ofan" en á Norðurlöndum sprottið upp í nærsamfélaginu með áherslu á þarfir og rétt einstaklingsins. Engu að síður væru lausnirnar sífellt að verða heildstæðari og yrðum við að gæta að því að einstaklingurinn gleymdist ekki í öldrunarþjónustukerfi sem yrði í ætt við fjöldaframleiðslu í iðnaði (elderly care became mass-production). Þarna vöknuðu alvarleg siðferðileg vandamál sem ekki mætti horfa framhjá. Einstaklingurinn mætti ekki gleymast!

Starfsfólk sé með í ráðum

Birgir Jakobsson landlæknir flutti afar athyglisvert erindi þar sem áherslan var á breytingar. Við yrðum að þróa heilbrigðiskerfið og gera það betra. Hann sagði að þrennt yrði að hafa í huga við þróun kerfisins. Í fyrsta lagi yrðum við gera okkur grein fyrir því að sjúklingurinn og vellíðan hans yrði alltaf að vera sýnileg og raunverulegt markmið. Í öðru lagi yrðum við að hafa í huga að engin kerfi tækju raunverulegum og jákvæðum breytingum nema þau sem ynnu störfin væru með í ráðum og tækju þátt í breytingarferlum. Í þriðja lagi yrði að vanda sig við að byggja upp samstarfsteymi þar sem allar stéttir kæmu að vinnuferlum innan kerfisins. Þetta væri raunverulegt verkefni sem landlæknir lagði áherslu á að sinna yrði af alvöru og alúð.

Karen Stæhr frá FOA stéttarfélaginu í Danmörku kallaði erindi sitt: Sjálfboðaliðar og þátttaka ættingja. Hún sagði margt væri gott að segja um sjálfboðaliðastörf. Þar hittust þeir sem gæfu og hinir sem væru þiggjendur á jafnræðisgrunni. Það mætti þó aldrei fela sjálfboðaliðum verkefni sem þeir réðu ekki við. Í öldrunarþjónustunni yrði að tryggja fagmennsku og samfellu og hún fengist aldrei nema með kerfi sem tryggði hvoru tveggja.

Erindi Karen var mjög vekjandi. Hún vísaði til þróunar í Hollandi sem væri að hennar mati varasöm. Þar væri farið að fela sjálfboðaliðum verkefni og ætlast til að þeir sinntu verkefnum sem ætti að vera á hendi velferðarkerfisins. Réttur einstaklingsins væri fyrir borð borinn í slíku kerfi. Setjum nú svo að fjölskyldan verði látin sinna þessum verkefnum, hver væri þá réttur þess einstaklings sem væri ekkert sérstaklega sáttur við sína fjölskyldu?

Merja Kaivolainen þróunarstjóri frá Finnlandi flutti erindi sem bar titilinn: Þjónustuaðilar og viðskiptavinir, sérfræðingar og félagar - sýn fagfólks á samstarf í heilbrigðisþjónustu. Hún greindi frá þróun í Finnlandi sem virtist nokkuð í ætt við þá stefnu sem Karen Stæhr lýsti í Hollandi. Þannig væri unnið að því hvetja til aðkomu sjálfboðaliða að öldrunarþjónustunni. Erindi hennar var fróðlegt en í umræðunum á eftir komu fram varnaðarorð um þessa þróun.

Ingrid Thrane sjúkraliði á Nordsjælland sjúkrahúsinu í Hillerod í Danmörku fjallaði um samvinnu sveitarfélaga og Rauðakrossins. Hún sýndi tvær stuttmyndir um samstarf fagfólks og sjálfboðaliða á sjúkrahúsinu í Hilleröd. Myndböndin og framlag Ingrid Thrane  var mjög upplýsandi og sýndi hve vakandi fagfélögin og reyndar stjórn þessa sjúkrahúss eru að tryggja að virt séu landamærin á milli fagfólks og sjálfboðaliða.

Einkavæðingin

Síðasta erindið á ráðstefnunni flutti Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur og lektor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Fyrirlestur hennar nefndist: Staða heilbrigðiskerfisins með tilliti til einkavæðingar á Norðurlöndum.

Erindið vakti mikla athygli. Hún gerði grein fyrir þeim kerfisbreytingum sem ættu sér stað í íslenska heilbrigðiskerfinu. Hvernig stendur á því, spurði Sigurbjörg, að einkavæðing eykst þvert á vilja þjóðarinnar, en margoft hefði komið fram í könnunum að almenningur vildi ekki þessa þróun. Ástæðan væri að hluta til sú að kerfið væri fólki ekki sýnilegt. Aðkoma skattgreiðenda að tilkostnaði við einkavædda þjónustu væri ógagnsæ og með einkavæðingunni væri hætt við því að ákvörðunarvaldið færðist frá fulltrúum skattgreiðenda til þeirra sem stæðu í einkarekstri. Drifkrafturinn innan opinberra kerfa breyttist þannig með einkavæðingu.

Í lok ráðstefnunnar tók ráðstefnustjórinn, Ögmundur Jónasson, saman helstu atriðin sem fram komu á ráðstefnunni eins og þau hafa verið rakin hér að framan.