Fara í efni

VAÐLAHEIÐARGÖNGIN OG "KRAFTAVERKAMENN" ÍSLENSKRA STJÓRNMÁLA

Vadlaheidi 3
Vadlaheidi 3

Haftið á Vaðlaheiðargöngum var srprengt í vikunni sem leið. Fjölmiðlar mæra framkvæmdina enda þótt ákvörðun um hana geti varla talist hafa verið aðdáunarverð.
Ég var samgönguráðherra á þessum tíma og hafði ég lagt kapp á að komast út úr ómálefnalegu kjördæmapoti sem þessu. Að einhverju leyti tókst það í almennum vinnubrögðum. Ekki þó í þessu tilviki.

Hver gat verið á móti þessu?

Ýmsir urðu til að gagnrýna þessa framkvæmd harkalega. Athyglisvert er að enginn fjölmiðill leitaði uppi slíka aðila. Á þessari "hátíðarstundu" var einvörðungi leitað til kraftaverkamanna  kjördæmanna (kjördæmapotari er leiðinlegra hugtak) og þá einnig viðhlæjenda þeirra. Þessir aðilar bíða þess nú að göngin verði opnuð svo spyrja megi, eins og gjarnan er gert um umdeildar ákvarðanir, sem að lokum þykja til bóta (þó nú væri), hver virkilega gæti hafa verið á móti þessu!


Rökræða til málamynda

Svo einfalt er málið þó varla. Fallist hafði verið á að heimila þessa tilteknu framkvæmd ef hægt væri að færa sönnur á að hún kæmi til með að standa undir sér á viðráðanlegan hátt. Miklar efasemdir komu fram um það en ágengnin var slík að horft var framhjá öllu slíku enda gátu kraftaverkamenn reitt sig á stuðning úr öllum flokkum á þingi. Málið var tekið fyrir í samgöngunefnd og óskað eftir umsögn Ríkisendurskoðunar. Sú umsögn kom aldrei. Kerfið makkaði með kjördæmapotinu og þverpólitískur þingmeirihluti einnig.
Öll rökræða var til málamynda. Ráðherra samgöngumála sem ábyrgur var fyrir málaflokknum var því andvígur að ráðist yrði í framkvæmdina á þeim forsendum sem fyrir lágu. Sú afstaða var virt að vettugi í ríkisstjórn og síðar á þingi.
Hinn pólitíski sauður er samur við sig. 


Hvar er þörf á þrautseigju?

Í viðtölum af tilefni af losun haftsins mærðu menn verktakana óspart, þeir hafi aldrei gefist upp og alltaf þraukað! Eflaust eru þeir allra góðra gjalda verðir, og ekki efast ég um að þeir hafi unnið sína vinnu vel en staðreyndin er hins vegar sú að þeir gátu alltaf reitt sig á að pólitískir handlangarar í ríkisstjórn og á Alþingi, sæju þeim fyirir fé uppúr vösum skattborgara sem ábyrgðartryggingu. Ef einhver þarf að sýna þrautseigju, þá eru það að sjálfsögðu skattgreiðendur.

Léleg vinnubrögð - léleg stjórnmál

En er ekki gott að fá Vaðlaheiðargöng? Ég svara þeirri spurning neitandi . Það var ekki gott á þeim forsendum sem málið var knúið fram. Í mínum huga breytir engu þótt sprenging í tölu ferðamanna kunni einhvern tímann að gera göngin sjálfborgandi. Það breytir ekki þeim forsendum sem fyrir lágu! Það eru nákvæmlega þessi lélegu vinnubrögð sem leitt hafa af sér léleg og óábyrg stjórnmál.

... og bíða enn

En Víkurskarðið er erfitt, er ekki svo?  Vissulega kann það að vera erfitt á stundum. Einhverja daga á árinu er þar snjóþungt og hált, eins og vegakaflar á Holtavörðuheiði og Hellisheiði og Fjarðarheiði og á Klettshálsi og .... ef ekki er mokað og saltað á þessum leiðum er þar einnig illfært. Með hliðsjón af slíkum aðstæðum er gerð vegaáætlun og þar er forgangsraðað. Vaðlaheiðargöng voru þar langt á eftir framkvæmdum sem þó voru látnar bíða og bíða enn.

Varla hafa menn gleymt

Í ofanálag má benda á að þar sem aðstæður eru effiðastar hefur verið leitað hagkvæmra lausna um samgöngubætur áður en en ráðist er í allra dýrustu lausnina eins og gert var til lausnar á erfiðum aðstæðum í Víkurskarði. Varla eru menn búnir að gelyma umræðu um vegabætur um hálsana á Patreksfjarðarleið.   

Hvernig skuli forgangsraðað

Fyrsti opni stóri pólitíski fundurinn sem ég fór á í undirbúuningi kosninga var vorið 1995. Það var í Grafarvogi. Umræðuefnið var Sundabraut. Fundarmenn heimtuðu Sundabraut strax og þeir voru háværir. Ég sagðist þá fyrst samþykkja hana þegar öldruðum hefðu verið búin viðunandi kjör. Fyrir því var ekki klappað. En mér fannst þá eins og nú að pólitík snerist um forgangsröðun.

Stjórnmálin missa tiltrú

Vaðlaheiðargöngin eru dæmi um ranga forgangsröðun. Þau eru líka dæmi um yfirgang og pólitíska frekju.
Vinnubrögðin í þessu máli skýra hvers vegna pólitískir flokkar tapa tiltrú.

Ég gerði grein fyrir afstöðu minni á þingi og í blaðagreinum. Sjá m.a. meðfylgjandi slóðir:
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20120613T150330&horfa=1

https://www.ogmundur.is/is/greinar/forsendur-vadlaheidarganga