Fara í efni

FÆKKUM MÁVINUM!

mávar
mávar

Almennt eigum við að bera virðingu fyrir lífinu og þyrma lífi fremur en tortíma því. Ég er þó ekki grænmetisæta og þaðan af síður vegan þannig að ég er eins og flestir dæmdur til nokkurs tvískinnungs í þessum efnum. Mörg dýr hafa nefnilega verið drepin mín vegna!

Þetta hefur ekki truflað samvisku mína mikið. Og þá finnst mér einnig í góðu lagi að eyða rottum og músum sem leita inn í híbýli okkar. Ég hef meira að segja á mínum snærum, ásamt öðrum skattgreiðendum, sérstaka starfsmenn, meindýraeyða, til að drepa rottur.

En hvað með mávinn?

Hann hefur löngum verið fjölmennur við íslenska sjávarsíðu og áður en frárennslismálum og frágangi úrgangs var komið í það horf sem við nú þekkjum, var jafnan greiður aðgangur að æti við fiskvinnslutöðvarnar. Svo var í Reykjavík. Þegar mávnum hins vegar fjölgaði í þeim mæli að hann tók að sækja sér matföng í andarhreiðrin við Tjörnina þá var brugðist við, ungunum til varnar og mávurinn plaffaður niður. Ég veit reyndar ekki betur en þetta hafi verið gert á undanförnum árum, öðru hvoru hafa borist fregnir af átaki til fækkunar mávinum. En ekki er nóg að gert.  

Í fyrrakvöld gengum við hjón um stígana í Vatnsmýrinni i grennd við Norræna húsið. Gæsapörin sprönguðu þar um með ungana sína. Sums staðar voru þeir nýkomnir úr hreiðrinu. Mávarnir sveimuðu yfir. 

Öðru hvoru stakk mávur sér niður í matarkrásina. Rétt fyrir framan okkur varð uppi fótur og fit í gæsafjölskyldu þegar ein slík árás var gerð. Gæsaungi var hrifinn á loft og flogið með hann gegn örvæntingarfullum mótmælum mömmu og pabba.

Þegar heim var komið horfðum við upp í hreiður í trjágrein í garðinum úti fyrir húsinu. Þar lá svartþrastarmamma á eggjum og pabbinn söng í næsta tré henni og heimili sínu til dýrðar. Rétt yfir trénu sveimaði gráðugur mávur.

Og nú spyr ég forsvarsmenn Reykjavíkurborgar: Væri ekki ráð að fækka svo um muni í mávanýlendu borgarinnar eins og stundum hefur verið gert á árangursríkan hátt? Ég veit að mávurinn á líka heimili og unga. En spurningin er um jafnvægi í dýraríkinu. Þar ræður unga-dráparinn, hvítfiðraði með gráa eða svarta bakið, nú of miklu.