Fara í efni

ER STÆRST OG MEST LÍKA BEST?

MBL  - Logo
MBL - Logo
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.06.17.
Ekki man ég hverjir eru núverandi eigendur að fyrirhuguðu hóteli sem á að rísa upp úr holunni við hliðina á Hörpu. En ég man hrifningu borgaryfirvalda þegar útlendur milljarðamæringu fékk byggingarleyfið á sína hendi,  við værum að fá erlenda fjárfestingu, frábært, tímamót! Já, það var orðið sem var notað, „tímamót", þetta væri til marks um að farið væri að rofa til á Íslandi, húrra.

Og nú hefur auðmaður fest kaup á íslenskri hótelkeðju. Ætli að aftur sé ekki húrrað? Þetta er náttúrlega erlend fjárfesting! Og millinn verður „‘Íslandsvinur". Og kannski verða hótelin hans ennþá stærri og ferðamennirnir margfalt á við það sem nú er.

En er það endilega gott? Það finnst þeim hjá Wow air og Icelandair. Þeir vilja gera Ísland að Dubai norðursins. Hér verði tengiflugvöllur norðurhvelsins. Þeir vita að um þetta geta þeir fengið miklu ráðið enda skipulagsvaldið nánast komið til þeirra. Isavia situr í áhorfendastúkinni í besta falli og bregst við vinkinu frá þeim sem hafa auðinn og þar með valdið á hendi.

Fréttir berast af því að tugþúsundir aðkomumanna streymi til landsins í atvinnuskyni og þar með til að  fullnægja draumum allra fjárfestanna, erlendra og innlendra, um uppbyggingu og aftur uppbyggingu. Bara einhvers konar uppbyggingu.  

Hafa menn hugleitt að af þessum þúsundum aðkomumanna þarf hver og einn íbúð? Og það þýðir húsnæðisvandi, og meira að segja stórfelldur húsnæðisvandi, sem leysa þarf strax! Farið er að tala um gámaíbúðir og gámahverfi og fannst mörgum þó nóg um „einföldun á regluverki" í tíð síðustu ríkisstjórnar til að fullnægja verktökum og frelsa þá undan kvöðum sem gjarna fylgja fötluðu fólki og öðrum með „sérþarfir". Þá fengum við líka að vita að efnalítið fólk þarf ekki geymslur. Enda eigi það ekkert til að geyma!

Eftirfarandi finnst mér að gjarnan megi eiga heima í þessari umræðu um stærst og best:

Í fyrsta lagi er ástæða til að fagna aukinni ferðamennsku. Atvinnugreinar sem tengjast henni eru um margt eftirsóknarverðar eins og dæmin sanna og nefni ég þar sérstaklega safnamenninguna sem blómstrar með tilheyrandi ræktarsemi við það besta sem við höfum upp á að bjóða.
Í öðru lagi er fráleitt að alhæfa um erlenda fjárfestingu á þann hátt sem gert er. Á sama tíma og fjárfesting og þekking erlendis frá inn í tiltekna starfsemi getur verið eftirsóknarverð, vakir oftar en ekki það eitt fyrir fjárfestunum að soga fjármagn út úr landinu og ofan í eigin vasa. Þetta færir okkur nær því að vera það sem einhvern tímann var kallað hráefna-nýlenda.
Í þriðja lagi þarf að fara fram lýðræðisleg umræðu um þá farvegi sem við viljum beina atvinnuuppbyggingu í. Viljum við gera Ísland að risavaxinni millilendingarstöð fyrir flugið á norðurhveli jarðar með tilheyrandi mengun - og vel að merkja tilheyrandi ofsa-uppbyggingu?

Að mínu mati er hæg þróun betri en hröð. Það á því ekki að raska jafnvægi í atvinnu uppbyggingu með hraðupphlaupum. Verði hraðinn, magnið og fjöldinn of mikill, lendum við undir farginu. Þaðan getur verið erfitt að komast.

Það er þess virði að hugleiða inntakið í hugtakinu auðvald. Fámenn þjóð verður að þora að standa vörð um hagsmuni sína gagnvart ágengu auðvaldi.

Stærst og mest í heimi er varasöm hugsun fámennri þjóð. Reyndar er hún varasöm öllum þjóðum!