HVER Á AÐ RÁÐA OG HVAÐ Á AÐ RÁÐA, RÚTAN EÐA ÞÚ?

Rútan - 1
Í gær birtist athyglisverð frétt á mbl.is.

Fréttin var svona: "Of þung­ar rút­ur aka Gjá­bakka­veg í þjóðgarðinum á Þing­völl­um en Vega­gerðin tak­mark­ar öxulþyngd á veg­in­um við 8 tonn. Gert verður við veg­inn á næst­unni en ástand hans er mjög slæmt. Ljóst er að fjöl­marg­ar rút­ur fara um veg­inn á degi hverj­um sem eru ná­lægt 20 tonn­um að þyngd líkt og rút­an á mynd­inni. Í síðustu viku fór rúta með 43 farþega þar út af eft­ir að veg­ur­inn gaf sig og í kjöl­farið var ástand veg­ar­ins gagn­rýnt harðlega. Árið 2012 var þó um­ferð þungra öku­tækja tak­mörkuð á veg­in­um."

Það merkilega við þessa frétt er áherslan í framsetningunni, að rúturnar séu of þungar en ekki að vegurinn sé óviðunandi.

Í fréttinni kom vissulega rækilega fram að vegurinn um þjóðgarðinn á Þingvöllum væri óboðlegur og að ekki yrði vikist undan því að lagfæra hann, enda stendur það til. Um þetta hygg ég reyndar að flestir sem farið hafa um veginn séu sammála og umrædd frétt sýnir þetta og sannar: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/07/24/of_thungar_rutur_aka_um_thingvelli_3/ 
En er þar með sagt að eftirsóknarvert sé að aðlaga samgöngukerfið - og þar með og kannski ekki síst veginn um þjóðgarðinn á Þingvöllum - að tveggja hæða risarútum? Eiga rútufyrirtækin að ráða hönnun vegakerfisins  eða ber þeim að laga sig að vegunum eins og við viljum helst leggja þá? Hvort á að ráða rútan eða almannavilji?

Og getur verið að spyrja þurfi ámóta spurninga víðar; til dæmis hvort það eigi ekki að vera almannahagsmunir sem ráði því hve mikið og hve hratt eigi að stækka Leifsstöð en ekki þröngir skammtíma viðskiptahagsmunir flugfélaga?

Ég fagna ferðamennsku sem vaxandi atvinnugrein og hef margoft gert grein fyrir kostum hennar ef vel er á málum haldið.

Engu að síður kunna að vera takmörk fyrir stærð og hraða og það víðar en á vegunum.

En loksins sást örla á nýhugsun og það í framsetningu ofannefndrar fréttar.

Fréttabréf