Fara í efni

„UPPREIST ÆRU": PÓLITÍSKAR ÁKVARÐANIR EÐA ALMENNAR LAGAREGLUR?

MBL
MBL

Birtist í Morgunblaðinu 26.09.17.
Almennt hefur því viðhorfi vaxið ásmegin að pólitík eigi sem minnst að koma nálægt réttarkerfinu, skýrar markalínur eigi að vera í þrískiptu ríkisvaldi. Þetta birtist meðal annars í þeirri breytingu sem gerð var á skipan dómara fyrir fáeinum árum þegar lögum var breytt til að takmarka skipunarvald ráðherra. Auðvitað er huglægu mati ekki þar með útrýmt og er stundum á það bent að ókosturinn við nafnlausar nefndir sé að þær þurfi ekki að standa skil matskenndra gerða sinna. En það er önnur saga og látum þá sögu liggja á milli hluta að sinni svo við missum ekki sjónar á því meginmarkmiði að koma í veg fyrir að pólitískt vald sé afgerandi um mannaráðningar í dómskerfinu.

Ferlið tímaskekkja

Þessi sama umræða hlýtur nú að koma upp í tengslum við endurheimt brotamanna á ýmsum réttindum, sem fengið hefur ákaflega óheppliega og misvísandi nafngift í lögum, „uppreist æru".
Grunnreglan í framkvæmd, byggð á ákvæði í hegningarlögum, er sú, að tveimur árum eftir að brotamaður hefur afplánað dóm sinn, getur hann sótt um  „uppreist æru" og öðlast þar með á ný borgaraleg réttindi á borð við kjörgengi en einnig möguleika á að sækja um ýmis starfsréttindi, sem hann glataði við uppkvaðningu dóms. Samfara umsókn sinni þarf viðkomandi að sýna fram á að hann hafi ekki gerst brotlegur á þeim tíma sem liðinn er frá afplánun dóms. Þar koma umsagnaraðilarnir til sögunnar. Þeir eru hins vegar í reynd óþarfir, því allra gagna sem byggjandi er á má afla hjá lögreglu og í dómskerfinu og er það gert í framkvæmd. Ekki er kveðið á um umsagnaraðila í lögum heldur hvílir það fyrirkomulag á gamalli tilskipun og síðan hefð.  Að þessum skilyrðum uppfylltum, þarf ráðherra að samþykkja umsóknina og forseti staðfestir að viðkomandi skuli öðlast umrædd réttindi. Ég fæ ekki betur séð en að einnig þetta ætti að vera óþarfi því að af hálfu ráðherra og forseta hefur þróunin orðið á þann veg að undirskrift þeirra er nánast formsatriði enda væru ráðherrar og forseti ella komnir með vald sem flestir telja að eigi að liggja í lögum og hjá réttarkerfinu í samræmi við það sem að framan er sagt. 

Alls staðar og að eilífu?

En hvað sem tímaskekkjum líður hefur þótt til þessa nauðsynlegt að uppfylla hinar lögformlegu kvaðir með tilskyldum undirskriftum.  Ólíklegt má heita að nokkur maður muni framar leggja nafn sitt við umsókn manna sem sakfelldir hafa verið fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum, um endurheimt borgaralegra réttinda þeirra. Þar með yrði girt fyrir að slíkir brotamenn öðlist yfrleitt, að óbreyttu fyrirkomulagi, þau réttindi sem að framan greinir.
En ef við gefum okkur að þannig færi fyrir barnaníðingum, hvað með einstaklinga sem sakfelldir hafa veri fyrir morð eða aðra þá sem framið hafa glæpi sem almennt teljast óafsakanlegir? Myndu fyrirfinnast einhverjir sem vildu skrifa uppá fyrir þá? Varla. Það er mjög ósennilegt eftir darraðardans síðustu daga þar sem vottun á meintu hátterni dæmds manns að lokinni afplánun er jafnað við hvítþvott á glæp. Með því fráleita hugtaki „uppreist æru" er ekkert slíkt þó að gerast og engin breyting verður á sakavottorði viðkomandi.
Augljóst er að horfið verður frá því að kveðja til umsagnaraðila. Hins vegar stendur það eftir að „uppreisn æru" hefur lagalega þýðingu sem snertir ein 29 lög, þar á meðal endurheimt lögmannsréttinda. Það mál sem hæst hefur borið að undanförnu og snertir lögmannsréttindi snýr þó að dómi Hæstaréttar því viðkomandi hafði verið sviptur lögmannsréttindum með dómi og aðeins með dómi gat hann fengið þau réttindi að nýju. Það á einnig við um aðra brotamenn, að lögmannsréttindi geta þeir ekki öðlast án samþykkis Lögmannafélags Íslands eða þá fyrir dómi. Með öðrum orðum, „uppreist æru" er ekki sjálfkrafa ávísun á lögmannsréttindi.

Stjórnarskrá, lög og dómaframkvæmd

Annað sem menn hafa staldrað við er hvort endurheimt „æru" í lagalegum skilningi þýði að það varði brot á hegningarlögum að minna á fortíð barnaníðinga. Í því sambandi þarf að skoða málin í víðu samhengi, vissulega hegningarlaganna en einnig stjórnarskrárvarinna réttinda um tjáningarfrelsi og dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem í seinni tíð túlkar mjög eindregið málfrelsinu í vil. En vissulega er þetta atriði sem þarf að koma til athugunar við endurskoðun laga.
Nú kunna einhverjir að segja að til séu þeir glæpir sem eigi að gera menn útlæga að eilífu í samfélagslegu tilliti enda hafi þeir valdið öðru fólki óbætanlegu tjóni og í sumum tilvikum sett líf í rúst. Það eigi til dæmis við um barnaníð. Þetta er skiljanlegt sjónarmið en ekki endilega skynsamlegt. Útskúfun getur hreinlega verið hættuleg, segir sérfrótt fólk um hegðan þeirra sem  brotið hafa gegn börnum.  En hvað sem niðurstöðum líður yrði að kveða á um allar samfélagslegar takmarkanir í lögum. Varla vilja menn að matskenndar ákvarðanir stjórnmálamanna eigi að ráða, að niðurstöður verði háðar vilja Sólveigar Pétursdóttur, Björns Bjarmasonar, Rögnu Árnadóttur, Ögmundar Jónassonar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Ólafar Nordal eða Sigríðar Andersen, svo nokkrir dómsmálaráðherrar séu nefndir.
Ég er þeirrar skoðunar að í ýmsum efnum höfum við í seinni tíð smám saman verið að firra stjórnmálamenn ábyrgð með því að skjóta ákvörðunarvaldi til „sérfræðinga". Allt öðru máli gildir þegar réttarkerfið er annars vegar. Þar eiga stjórnmálamenn að halda sig fjarri og á ábyrgð þeirra að takamarkast af því að hafa lagarammann skýran, réttlátan og skynsamlegan.

Réttindi - en með skilyrðum

Sjálfur tel ég eðlilegt að öllum brotamönnum sé auðveldað að komast út í lífið að nýju eftir að hafa afplánað dóm, en á skilyrtan hátt þó, eins og nú er, þótt ágallar á kerfinu hafi komið bersýnilega í ljós á undanförnum mánuðum. Þá tel ég að í dómum yfir einstaklingum sem beitt hafa börn kynferðisofbeldi skuli gert ráð fyrir eftirliti að afplánun lokinni. Mikil vinna fór fram í minni ráðherratíð (fyrst Dómsmálaráðuneyti og síðar Innanríkisráðuneyti eftir sameiningu ráðuneytanna) um leiðir til að bæta réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis, bæði barna og fullorðinna. Ráðist var í viðamikla úttekt á stöðu brotaþola innan réttarkerfisins og á meðferð nauðgunarmála og tillögum til úrbóta hrint í framkvæmd. Gerðar voru þýðingarmiklar breytingar á lögum, í samræmi við Lanzarote sáttmála Evrópuráðsins um vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi og misneytingu, og þar á meðal var það lögfest að sækja mætti til saka á Íslandi fyrir brot gegn börnum sem framin voru utan landsteinanna. Komið var á fagráði sem tæki á fyrndum málum sem hafa komið upp innan stofnana og félagasamtaka og undir lok árs 2012 lagði ég fram frumvarp sem gerði ráð fyrir heimild dómstóla til að hafa eftirlit með barnaníðingum eftir afplánun dóms. Frumvarpið hlaut ekki lokaafgreiðslu en þar tel ég engu að síður vera grunn að frekari lagasetningu sem byggja mætti á, til að veita frekari vernd gegn ofbeldisglæpum sem framdir eru á börnum. Að sama skapi tel ég rétt að reisa skorður við því að menn sem framið hafa alvarlega ofbeldisglæpi geti öðlast lögmannsréttindi að nýju, eða gengið í störf þar sem þeir sinna börnum, öldruðum eða öðrum sem þurfa umönnunar við. Fyrir þessu er þegar stoð í lögum, en í samhengi við umræðuna undanfarið er rétt að skoða löggjöfina markvisst svo að hér megi ríkja ákveðin sátt með hvaða hætti dæmdir ofbeldismenn geta gerst þátttakendur í samfélaginu að nýju eftir að afplánun lýkur.

Bráðnauðsynleg endurskoðun laga

Nýuppkomin mál hafa hrist upp í okkur öllum og við eigum að láta þau einmitt gera það á jákvæðan hátt. Ljóst er að lögin um „uppreist æru" eru löngu úrelt og fram hefur komið að nauðsynlegt er að taka til skoðunar allt lagaumhverfið sem snýr að málaflokknum og þá einnig takmörkunum sem brotamenn skulu háðir þegar þeir hafa afplánað dóm, svo sem skilyrðum sem talin eru nauðsynleg varðandi atvinnuréttindi þegar um er að ræða störf þar sem skjólstæðingar þurfa að geta reitt sig á öryggi og heiðarleika og borið traust til viðkomandi.

Virkja þarf velviljann

Mikilvægt er að ráðist verði í löngu tímabærar réttarbætur á yfirvegaðan hátt. Tvennt ættum við að hafa lært af umbótastarfi undangenginna ára..
Í fyrsta lagi hve stöðnuð kerfishugsun hefur verið ríkjandi. Þetta kemur til dæmis í ljós nú þegar rýnt er í lög og hefðir. Þar er margt á annan veg en meira að segja kerfið sjálft - og þar með taldir við stjórnmálamennirnir - höfðum ætlað.
Í annan stað hefur komið í ljós að í samfélaginu er mjög eindreginn vilji til þess að færa þessi mál til betri vegar. Ég þekki það af eigin reynslu frá minni ráðherratíð að eftir að stigið hafði verið yfir nokkra þröskulda, sem vissulega voru til staðar, áður en unnt var að efna til sameiginlegrar umræðu og í kjölfarið sameiginlegs átaks af háflu réttarkefis, lögreglu, fræðimana og grasrótarsamtaka, um úrbætur á sviði kynferðisofbeldis, kom í ljós að alls staðar var ríkur framfaravilji.
Verkefnið er að virkja þennan velvilja. Réttarríkið þarf á honum að halda. Í ljósi umræðunnar að undanförnu, kannski umfram allt annað.
http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/09/26/uppreist-aeru-politiskar-akvardanir-eda-almennar-lagareglur/