Fara í efni

ÍSLAND ÚR NATÓ, HERINN BURT!

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 9/10.12.17.
Nú sýnist mér að nauðsynlegt sé að fara að dusta rykið af þessari hvatningu að nýju. Samkvæmt fréttum er bandarískur her í þann veginn að festa sig í sessi á Miðnesheiðinni að nýju. Og enn erum við illu heilli í NATÓ sem er stórvarasamur félagsskapur ekki síst eftir þær áherslubreytingar sem gerðar voru í kringum aldamótin í þá átt að samstaða NATÓ ríkja skyldi hér eftir ekki takmarkast af því að verja tiltekin landsvæði heldur hagsmuni aðildarríkjanna á heimsvísu.

Í NATÓ sáttmálanum er grunnreglan vissulega enn sú að árás á eitt aðildarríkjanna jafngildi árás á þau öll.  En nú skyldi þessi regla túlkuð rýmra og þýða að væri einu aðildarríkjanna ógnað skyldu öll ríkin taka þá ógn til sín og bæri NATÓ þá sem heild að rísa upp til varnar og sóknar. Í samræmi við þetta var á aldamótaárunum farið að leggja áherslu á hreyfanlegar hersveitir sem flytja mætti heimshorna á milli á örskotsstundu.

Þetta þýðir að ef Donald Trump, helsta bandamanni Íslands, er ógnað, þá ber Íslendingum að standa vaktina fyrir hans hönd óháð því hvernig sú ógn varð til og hvar.

Með Donald Trump við stjórnvölinn - þótt hans persóna skipti ef til vill minna máli en margir ætla, því hergagnaiðnaðinum í Bandaríkjunum og Evrópu tekst að fara sínu fram hvort sem forsetinn heitir Trump, Obama,  Bush, eða Clinton - þá er ljóst að NATÓ er ekki góður staður að vera á, svo notast sé við orðalag úr þekktri auglýsingu.

Og viljum við virkilega vera í nánu hernaðarsambandi við ríki sem fara með ofbeldi gegn snauðari hluta heimsins og beita þvingunum og kúgun til að ná sínu fram? Læt ég þá að sinni liggja á milli hluta Guantanamó, Abu Ghraib og fangaflug á slóðir þar sem stunda má pyntingar í kyrrþey.

Synd að vera með svona tal rétt eftir að Styrmir segir okkur allt um hinar sögulegu sættir og frið á jörðu - gott ef ekki endalok sögunnar. En vandinn er sá að þótt gleymst hafi að setja í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar tilvísan í heimsátökin þá eru þau því miður jafn raunveruleg í dag og þau voru í gær þótt vinir og óvinir taki breytingum eftir aðstæðum. Pútin sé til dæmis í sama flokkahópi og Sjálfstæðisflokkurinn á þingi Evrópuráðsins í Strasbourg. Allt saman hægri menn!  Og þótt einhver hiksti sé í samningagerð á vegum heimsauðvaldsins undir merkjum TISA, TTIPS og allra hinna skammstafananna, þá er hann tímabundinn því eftir sem áður er unnið að því að koma almannaþjónustunni allri inn á markaðstorgið, fjármagninu til ráðstöfunar.

Ekki er farið orðum um þessa þróun í umræddum stjórnarsáttmála eða hvort Ísland muni áfram sýna fylgispekt við þessa stefnu. Því miður er því þó gefið undir fótinn með áherslu á að nema brott hvers kyns hindranir á markaðstorgi heimsins.

En þarna eru og verða ólgandi átök og margrómaður stöðugleiki ekki  í augsýn hvað sem öllum formbundnum yfirlýsingum líður.

Skyldi það vera gott? Það hlýtur að vera háð því hvaða stefna verður tekin. Frjálst lýðræðisþjóðfélag sem býr við ójöfnuð og ranglæti á ekki að líða þá tegund  friðar - heima eða heiman -  sem hvílir á miðstýrðu þvingunarvaldi, hvort sem það heitir SALEK (sem er skammstöfun fyrir fámennisvald yfir kjarasamningum)  eða NATÓ.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki að tappa blóðinu af þjóð sinni. Blóðlaus þjóð er vissulega líklegri til að kjósa logn en storm. En miðstýrð lognmolla er ekki endilega ávísun á góðviðri. Einhvern tímann sögðust alvörumenn þessarar þjóðar elska storminn. Það er eitthvað hressandi við þá hugsun.