Fara í efni

TILLAGA TENGD TÚRISMA

Flugeldar
Flugeldar


Áramótin eru stórfengleg á Íslandi. Heita má að stöðug hátíðahöld standi frá því aðventan hefst og stigmagnist síðan eftir því sem líður á desember. Þorláksmessu halda margir upp á og jóladagana sjálfa að sjálfsögðu og fram yfir áramótin standa fjölskylduboðin, lokahnykkurinn á þrettándanum. Mörgum þykir nóg um öll veisluhöldin, matarboðin og dýrðina sem að mínu mati er þó ekki síst fólgin í þeirri friðhelgi sem jólahátíðinni fylgir. Símhringingum fækkar, fólk nýtur þess að lesa, hlusta á tónlist og rækta og treysta fjölskylduböndin. Ekki má gleyma allri ljósadýrðinni sem er kærkomin í dimmasta skammdeginu.

Ljósadýrð á himni

Svo eru það flugeldarnir um áramót. Þar skal ég gera játningu. Þótt ég sé búinn að meðtaka umhverfis-boðskapinn í flokkun á rusli og gangi þar sífellt harðar fram í kröfu á sjálfan mig að koma hverri plastörðu á sinn endurvinnslustað - tel reyndar að taka verði til skoðunar bann við notkun á plastpokum eins og þekkist víða erlendis -  þá á ég langt í land með flugeldana. Eflaust er það hárrétt sem gagnrýnendur segja að með þeim færum við ígildi mengandi stórgoss hættulega nærri okkur. Engu að síður þarf meira til en slíkar fréttir um mengun eina örskotsstund til að snúa mér til betri siða. Mér finnst nefnilega flugeldahátíðin stórkostleg og legg alltaf mitt af mörkum að gera hana enn stórkostlegri með því að skjóta upp flugeldum undir miðnættið á gamlárskvöld. Dreg ég þar hvergi af mér og nýt í botn allrar ljósadýrðarinnar á himninum.

Batnandi bálkestir

Sitthvað er að breytast. Mér sýnast brennurnar í Reykjavík heldur stæðilegri en þær hafa verið undanfarin ár og fyrir þetta eiga borgarstarfsmenn þakkir. Þó má bæta þeim nöldursorðum við, að þrátt fyrir þetta nálgast áramótabrennurnar ekki þær brennur sem við krakkarnir hlóðum um og upp úr miðri síðustu öld - áður en reglugerðir Evrópusambandsins bönnuðu krakkagerðar brennur.

Komnir til að njóta

En þá er að segja frá tillögunni í titlinum. Það eru ekki bara brennurnar sem hafa breyst í tímans rás heldur hverjir sækja þær. Við „mína" brennu við Ægisíðuna í Reykjavík (þar sem áður voru þrjár krakkagerðar brennur að minnsta kosti) er jafnan mikill mannfjöldi fram að Skaupi. Þá hverfa Íslendingarnir en þeim meira fjölgar í hópi útlendinga sem að þessu sinni voru við brennuna hundruðum saman alveg fram yfir miðnætti. Rútur komu og fóru. Þarna var hins vegar ekkert um að vera til að skemmta ferðamönnum sem komnir eru alla leið til Íslands til að njóta víðfrægrar áramótahátíðar Íslendinga sem nú trekkir að ferðamenn engu síður en Gullfoss gerir.

Borðleggjandi hugmynd

Maður mér nátengdur hafði á orði að þarna væri akur til að plægja. Kjörið væri að gera út sönghópa sem tækju lagið við brennurnar. Þetta myndi fullkomna skemmtun, ekki bara gesta okkar, heldur lyfta samkomunum uppá hærra menningarstig öllum til ánægju, heimafólki jafnt sem aðkomumönnum.
Frábær hugmynd þykir mér. Reyndar borðleggjandi og augljós þegar búið er að varpa henni fram. En þannig er það með góðar hugmyndir. Það þarf að koma auga á þær!

Nú er að framkvæma!
Vonandi kemst þessi ágæta hugmynd í framkvæmd um næstu áramót. En hver á að framkvæma? Borgin, ríkið, ferðamálaþjónustan, allir þessi aðilar saman, þetta þarf einfaldlega að setjast yfir. Góður tími til stefnu. Samt þarf að láta hendur standa fram úr ermum.