Fara í efni

NATÓ VER ÞJÓÐERNISHREINSANIR Í AFRIN!

Nató - götóttur fáni
Nató - götóttur fáni

Þetta er veruleikinn. NATÓ hefur enn einu sinni sýnt okkur sinn innri mann.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATÓ pakkar stuðningi sínum við ofbeldi Tyrkjahers í Afrin í Norður Sýrlandi að sjálfsögðu inn í umbúðir eins og stundum áður.

Formúlan er þessi: Tyrkir „hafa rétt á að verja sig."

Tilefni ummæla NATÓ foringjans eru gegndarlausar loftárásir Tyrkjahers og kjölfarið tortíming á jörðu niðri í Afrin héraði í Norður-Sýrlandi með þeim afleiðingum að hundruð þúsunda hafa þurft að yfirgefa heimili sín, sem oftar en ekki eru rústir einar. Tyrkir þurfi vissulega að verja sig, segir Stoltenberg, en þetta þurfi að gerast „á viðeigandi hátt". En ekki megi gleyma því, segir Stoltenberg, að ekkert NATÓ ríki verði eins illa fyrir barðinu á hryðjuverkum og Tyrkland!

Ég spyr hvort manninum geti verið alvara. Hann er að tala um sjálft hryðjuverkaríkið Tyrkland því öðru nafni er ekki hægt að tala um ríkið undir ógnarstjórn Erdogans.

En hvað þá með þjóðernishreinsanirnar, sem hér er vísað til í fyrirsögn? Erdogan Tyrklandsforseti tekur af okkur ómakið að skýra það út. Orðaval hans segir allt sem segja þarf. Hann segir að eftir að búið verði að klára Afrin „þá munum við hreinsa  Manbij..." en einnig sú borg er byggð Kúrdum.

Eftir að verða vitni að vitnaleiðslum í París í síðustu viku vegna stríðsglæpa Tyrkja í Kúrdahéruðum Tyrklands veit ég hvað slik hreinsun þýðir og enga þolinmæði hef ég lengur gangvart þeim sem réttlæta ofbeldið. Enga !!!

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, þykist gagnrýna Tyrki en hnýtir því við gagnrýni sína að þeir hafi að sjálfsögðu rétt til að verja sig - rétt sem sé  réttmætur „legitimate". Sama formúla og NATÓ ríkin hafa alltaf notað gagnvart Ísrael þegar ofbeldið gegn Palestínumönnum hefur keyrt úr hófi fram og gengið hefur verið fram af öllu venjulegu fólki. Þá er gagnrýnt,  en síðan blikkað og sagt „en að sjálfsögðu hafið þið rétt á að verja ykkur!" Þá vita allir að ekkert er að marka, bara plat til tímabundins heimabrúks. Þegar ræða Merkels er lesin kemur líka í ljós að „ganrýnin" á Tyrkland er í framhjáhlaupi á gagnrýni á Sýrlandsstjórn.

Hvað eiga Íslendingar að gera? Gagnrýna Tyrki og þá í alvöru og án þess að blikka?

Að sjálfsögðu eigum við að gera það. En við eigum að gera meira. Við eigum að ganga úr hernaðarbandalaginu NATÓ og það helst þegar í stað. Þetta er ósiðlegur félagsskapur og það er ósiðlegt að segja sig ekki frá honum.

Árásirnar á Afrin og yfirlýsingar NATÓ-forkólfa  eru rökrétt tilefni úrsagnar úr NATÓ.

http://www.arabnews.com/node/1233871/middle-east