TÍMABÆR UPPRIFJUN

Bresinski

Ari Tryggvason rifjar upp í bréfi til síðunnar viðtal við öryggismálafulltrúa Jimmy Carters Bandaríkjforseta, Zbigniew Brzezinski frá árinu 1998. Í viðtalinu er ljósi varpað á þann hráskinnaleik sem iðulega er að finna að baki heimsfréttunum. Blálkalt er logið að fjölmiðlum sem alltof of oft dansa með.

Merkilegt í þessu viðtali er þetta:

1) Bandaríkjamenn hófu hernaðarstuðning við afgönsku andspyrnuna áður en Sovétríkin fóru með innrásarher inn í Afganistan. Sovétmenn héldu þessu staðfastlega fram, Bandaríkjamenn neituðu. Nú er komið á daginn að hinir síðarnefndu lugu um þetta efni.  

2) Litið var svo á af hálfu bandarískra ráðamanna að Sovétmenn hefðu þar með gengið inn í eins konar Víetnam gildru, lokast inni í fyrirframtöpuðu stríði í tíu ár. Það hefði dregið máttinn úr Sovétríkjunum og flýtt fyrir falli þeirra.

3) Hvort stuðningur Bandaríkjanna hefði ekki styrkt harðlínu Íslam? Aukaatriði, segir Brzezinsky, harðlínu íslam er oftúlkun og hvort ekki sé mikilvægara, að frelsa mið-Evrópu undan hæl Sovétríkjanna og leiða kalda stríðið til lykta en að hafa áhyggjur af Talibönum?

Þarna er semsagt þráður sem spunninn hefur verið áfram fram á þennan dag, nú síðast í Sýrlandi. Til að grafa undan höfuðandstæðingum á heimsvísu hafa Bandaríkin ekki skirrst við að nýta sér öfgahreyfingar á borð við Talibana, ISIS og Al Musra. Hvernig slíkar hreyfingar hagi sér sé aukaatriði í stóra samhenginu.

Ef til vill er það illa gert gagnvart þeim sem ekki þola að fjölmiðlabátnum sé ruggað að rifja þetta upp. Fólk gæti jafnvel hætt að trúa fréttamönnum sem gagnrýnislaust lesa upp fréttir sem þeim eru fengnar í hendur.

En væri það slæmt?

Sjá bréf Ara Tryggvasonar: http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/8374/

Sjá umrætt viðtal: http://dgibbs.faculty.arizona.edu/brzezinski_interview

Fréttabréf