Fara í efni

„ ... segir stjórnmálafræðingur."

MBL
MBL
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12/13.05.18.
Undirritaður er stjórnmálafræðingur, með tilskilinn stimpil frá háskólanum í Edinborg. Reyndar er ég fyrst og fremst sagnfræðingur ef út í það er farið en þessa stjórnmálagráðu hef ég engu að síður líka upp á vasann.

En hvers vegna vekja máls á því?

Ástæðan er sú að mig langaði að deila með ykkur óbærilegri fráhvarfstilfinningu sem ég stundum fæ frá þessari háskólagráðu. Hún leitar á mig þegar vitnað er í þessa samferðamenn mína á menntabrautinni og þá fyrst og fremst þegar þeir eru gerðir að eins konar handhöfum sannleikans. Stundum má nefnilega skilja það sem svo að í reynd viti stjórnmálamenn afskaplega lítið um það sjálfir sem þeir eru að reyna að segja; hvað þeir raunverulega meini. Fagmenn þurfi til að greina hugsanir þeirra. Sama gildi um örlagasögu stjórnmálaflokka. Mat stjórnmálafræðingsins hljóti þar einnig að vera sjálfur sannleikurinn enda byggt á vísindalegri athugun hans.

Þess vegna fáum við fréttir á borð við þessa ímynduðu frásögn í fréttahelsti útvarpsstöðva: „Sjálfstæðisflokkurinn er að hruni kominn!" Stórfrétt að sjálfsögðu ef sönn væri, sem vel gæti verið að sjálfsögðu. Minna fer fyrir botninum, „... segir stjórnmálafræðingur". Fréttin fengi allt aðra ásýnd og vægi ef hún væri umorðuð: „Stjórnmálafræðingur telur að Sjálfstæðisflokkurinn sé að hruni kominn."

Við gætum haldið þessum leik áfram. „Það var hinn íhaldssami armur VG sem var í uppreisn gegn ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur", staðhæfir stjórnmálafræðingur í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Og þetta er ekki skáldaður texti, heldur raunverulegur. Þetta eru hins vegar nýjar fréttir fyrir okkur sum hver. En svo rýnum við betur í textann og sjáum að stjórnmálafræðingurinn er ekki bara stjórnmálafræðingur, heldur líka fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar.

Nú verður allt skiljanlegra. Andstaða við að undirgangast frekari miðstýringu frá Brüssel og markaðsvæðingartilskipanir þaðan er náttúrlega íhaldssöm afstaða í huga slíks manns.

Flestir á róttækari kanti stjórnmálanna myndu greina ágreininginn með þveröfugum formerkjum; að þau sem stóðu harðast gegn einkaframkvæmd og verstu tilskipunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði varla skilgreind með þessum hætti. Samkvæmt formúlu varaþingmannsins fyrrverandi er Tony Blair þannig fulltrúi róttækni en Jeremy Corbyn íhald eins og Bernie Sanders en Hillary Clinton svo aftur róttæk, þrátt fyrir alla sína þræði inn í Wall Street.  

Þannig getur hjálpað að segja deili á stjórnmálafræðingnum sem talar. Stjórnmálafræðingarnir Baldur Þórhallsson og Ögmundur Jónasson komast þannig að gerólíkri niðurstöðu.

Í umræddri umfjöllun sem bar yfirskriftina  „Af villiköttum", eru vangaveltur, eflaust mjög fræðilegar, um „hegðun" þeirra sem rákust ekki eins og sauðir í eftirhruns-ríkisstjórnarsamstarfinu og hve erfitt hlutskipti það hljóti að hafa verið fyrir Jóhönnu og Steingrím, formenn stjórnarflokkanna, að hafa fólk innanborðs sem „hagaði sér" á þá lund sem við gerðum sum, villikettirnir.

Nú hef ég þá prívatkenningu að vangaveltur af þessu tagi muni verða innlegg í stjórnmálafræðikennslu í framtíðinni þegar leita þarf dæma um þá tíð þegar háskólaprófessorar skilgreindu góðan stjórnmálamann sem leiðitaman og meðfærilegan, handhægt verkfæri, en ekki einstakling með sjálfstæða dómgreind.

Í þeirri framtíð sem ég er að hugsa til munu foringjar stöðugt þurfa að standa frammi fyrir því að máta gjörðir sínar við gefin fyrirheit og stefnu - gerólíkt viðfangsefni hins pólitíska sauðahirðis á 20. öldinni og öndverðri hinni 21.

Trúverðugleikinn verður þá það sem máli skiptir og sömuleiðis sú tegund lýðræðis sem byggir á því að virða rétt hvers og eins til að fylgja samvisku sinni. Við gætum byrjað að hugsa á þennan veg þegar í stað. Það er meira að segja bráðnauðsynlegt, leyfi ég mér að fullyrða.  Og þar höfum við það: „Að vanrækja þessa hugsun er ekki bara íhaldssemi heldur skaðlegt afturhald .... segir stjórnmálafræðingur."