Fara í efni

SAKBORNINGUR SÝKNAÐUR EN HVAÐ MEÐ DÓMARANA?

Bragi og Einar Ás 2
Bragi og Einar Ás 2


Á undanförnum mánuðum hefur Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnavendarstofu (nú í leyfi), verið borinn þungum sökum í nokkrum fjölmiðlum og á Alþingi. Honum var gefið að sök að hafa gerst brotlegur við lög, farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel lagst á sveif með barnaníðingi!

Núverandi félags- og jafnréttisráðherra fékk einnig sinn skammt. Hvers vegna birti hann ekki orðréttan úrskurð velferðarráðuneytisins, sem hafði að geyma áfellisdóma yfir Braga og hvers vegna í ósköpunum slíkur maður hafi verið studdur í framboð í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna?

Stundin birti myndir og fyrirsagnir sem tengdu Braga Guðbrandsson illri meðferð á börnum og Kjarninn sagði á þá leið að nú væru allir raftar dregnir á flot til að verja spillinguna en einhverjir þingmenn stæðu sem betur fer í fæturna til að berjast gegn ósómanum.

Fyrrverandi félags- og jafnréttisráðherra furðaði sig á því að rannsóknaniðurstöður frá sinni tíð í ráðuneytinu hefðu ekki verið birtar möglunarlaust. Ef svo hefði verið gert væri ráðherrann laus úr snörunni og málið dautt hvað hann varðaði. En við það er að bæta að fleira væri þá dautt og vísa ég þar í æru forstjórans. Hún hefði þá verið að engu gerð. Ég minnist þess varla að eins hörð hríð hafi verið gerð að æru nokkurs embættismanns og æru Braga Guðbrandssonar í þessu makalausa máli.

Í þessu samhengi má nefna að hermt er að þingmaður hafi gengið svo langt að hafa samband við sendiráð Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum til að vara við níðingnum í framboði!

En nú er kominn niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar. Og viti menn, sakborningurinn Bragi Guðbrandsson er að fullu sýknaður og hreinsaður af svívirðilegum áburði á hendur honum í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli, sem sagt er hafa verið hið alvarlegasta í þeirri gagnrýni sem fram var borin á hendur honum og þar sem honum var ætlað að hafa farið út fyrir sitt verksvið sitt í trássi við lög.

Ásmundur Einar Daðason, núverandi félagsmálaráðherra, má einnig vel við una því hann hefur haldið hárrétt á málum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, með einni undantekningu þó. Og það er að hafa látið niðurstöður ráðuneytisins frá því í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar, standa óhaggaðar því í ljós kemur að þær voru settar fram að óathuguðu máli. Með öðrum orðum, ráðuneytið hafi verið búið að gera forstjórara Barnaverndarstofu að skotspæni áður en úttekt hefði farið farið fram. Auk þess hefðu stjórnsýslureglur verið þverbrotnar. Ráðuneytið fær almennt slæma útreið í skýrslunni og er legið á hálsi fyrir að hafa ekki rannsakað þau mál sem þar voru færð upp á borð áður en niðurstaða var fengin. Þetta þýðir að alrangt er hjá Þorsteini Víglundssyni, fyrrum ráðherra að í niðurstöðum ráðuneytisins hefði verið að finna lokapunktinn í málinu.  

Allt virðist þetta hafa tengst ásetningi ráðuneytisins að keyra í gegn skipulagsbreytingar sem í reynd fólu í sér niðurlagningu á Barnaverndarstofu gegn vlja forstjórans. En það er önnur saga þótt nátengd sé. (Um þetta hef ég skrifað margoft enda áhugamaður um skipulag málaflokksins. sjá m.a. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekkert-odagot-i-skipulagi-barnaverndar )

Núverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur stigið afgerandi skref til að laga stjórnsýsluna og á hann fyrir það lof skilið. Hann hefur gert rétt í því að stíga upp úr gömlum hjólförum á þessu málasviði og horfa til framtíðar.  

En nú þegar Ásmundur Einar og höfuðsakborningurinn Bragi Guðbrandsson hafa báðir verið „sýknaðir", hvað gera þá hinir sjálfskipuðu  dómarar? Þar er ég til dæmis að tala um formann velferðarnefndar Alþingis sem hafði uppi stór orð; þingkonuna sem hafði samband við norrænu sendiráðin til að rægja íslenska frambjóðandann; sleggjudómarann, fyrrum félagsmálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sjálfur situr uppi með svarta Pétur, fjölmiðlamennina sem átu upp allan áburðinn gagnrýnislaust og svo hina sem voru beinir gerendur í aðförinni.

Ætlar þetta fólk, hinir sjálfskipuðu dómarar, að biðjast afsökunar?