EN EF LANDEIGANDINN HEFÐI HEITIÐ KIM?
Birtist í Morgunblaðinu 13.08.18.
Um það þarf vart að fjölyrða að einkaeignarréttur er vel
varinn bæði í lögum og stjórnarskrá. Það er því ekkert smámál þegar
auðlindir þjóðar eru færðar undir hann, hvað þá þegar hert er á
þeim rétti.
Tekist var á um þetta á Alþingi fyrir og upp úr síðustu aldamótum
og þá einkum um lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í
jörðu frá 1998 og síðan í langvinnum deilum um vatnalögin
svonefndu.
Fyrri lagabálkurinn treysti eignarhald jarðeiganda á auðlindum í
landi hans, þar með öllum jarðefnum svo og vatni, heitu og köldu.
Reyndar væri réttast að segja að afnotarétti hafi verið breytt í
einkaeignarrétt. Síðari lagabálkurinn fjallar um nýtingu og afnot
af vatni, þar á meðal mörkin á milli almannaréttar og
einkaeignarréttar.
Einkaréttur og almannaréttur
Þessi mörk hafa ekki alltaf verið skýr og áherslur tekið miklum
breytingum í tímans rás, nokkuð sem stundum vill gleymast. Talsmenn
stjórnvalda í deilunum um vatnalögin sögðu að tími væri kominn til
að uppfæra lögin til samræmis við breyttar áherslur dómstóla allar
götur frá því að vatnalögin tóku gildi árið 1924. Á þessum tíma
hefði einkaeignarréttur verið að styrkjast og laga bæri lögin að
þessum veruleika dómssalanna. Á móti var á það bent að gagnstæð
þróun hefði einnig átt sér stað því í seinni tíð hefði
almannaréttur jafnframt verið að sækja í sig veðrið. Til marks um
það væru kröfur almannasamtaka, innlendra og fjölþjóðlegra, um að
aðgengi og eignarhald á vatni ætti að teljast til mannréttinda,
sjónarmið sem hafa verið viðruð innan Sameinuðu þjóðanna með
vaxandi þunga.
Um fyrri lagabálkinn náðist engin málamiðlun og er það mitt mat að
lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi verið
einhver versta lagasmíð síðari tíma. Vatnalögunum var hins vegar
þokað inn í ívíð skárri farveg, að mínu mati, en upphaflega stefndi
í. Engu að síður eru þar slæmar brotalamir sem ég hef margoft
reifað innan þings og utan, bæði í ræðu og riti, til dæmis um
heimildir til fénýtingar á vatni.
Sýnilegur hagnaðaður
Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, höfðu ýmsir af því áhyggjur að hömlulaus viðskipti með land yfir landamæri aðildarríkja svæðisins gætu leitt til þess að eignarhald á íslensku jarðnæði flyttist úr landi. Það varð þó ekki þar til nú að alda uppkaupa erlendra fjárfesta ríður yfir. Augljóst er að fjármálaspekúlantarnir hafa uppgötvað auðæfin sem fólgin eru í eignarhaldi á íslensku jarðnæði, vatninu, virkjunarréttinum, laxveiðihlunnindunum og náttúruperlunum sem hér eru nánast við hvert fótmál og landeigendur gera sér að féþúfu í síauknum mæli. Hagnaðurinn sem hafa má af þessum fjárfestingum er því orðinn vel sýnilegur því á öllum fyrrgreindum sviðum eru eigendur lands farnir að fénýta eignarrétt sinn.
Tvær spurningar
Í tengslum við landakaupin sem nú ganga yfir hafa vaknað tvær
spurningar.
Í fyrsta lagi, hvort máli skipti hver eigi landið ef reglurnar um
takmörkun einkaeignarréttar eru ásættanlegar og þá helst til
fénýtingar auðlindanna sem fylgja landinu. Til að fá úr því skorið
hvort aðhaldslög margvísleg tryggi almannahag óháð eignarhaldi þarf
einfaldlega að kortleggja hvað um gæti verið að ræða svo markviss
umræða geti farið fram.
Fyrir mitt leyti hef ég komist að þeirri niðurstöðu að aðhaldslögin
myndi ekki nægilega umgjörð almannahagsmunum til varnar. Samkvæmt
þeirri niðurstöðu sem á endanum fékkst í deilunum um vatnalögin er
nú að finna takmarkanir á eignarrétti yfir vatni og öðrum auðlindum
í landi sem verið hefur í samfélagslegri eign en selt er til
einkaaðila. Eitthvað hafði kviknað á perunni eftir langvinnar
umræður á Alþingi, sem í doða og andvaraleysi samfélagsins voru
iðulega afgreiddar sem málþóf!
En hvað sem því líður þá er hina almennu lagareglu að finna í
framangreindum lögum frá 1998 og að þeim lögum óbreyttum er
það grundvallarmál hver fer með eignarhaldið á landi þegar nýting
auðlinda er annars vegar. Fréttir frá Vestfjörðum og Norðurlandi
eystra þessa dagana um áform um virkjanir minna okkur á það hve
miklu máli eignarhaldið skiptir en í báðum tilvikum vilja
fjársterkir eignamenn ráðskast með virkjunarrétt. Og því stærra
land sem safnast á þeirra hendur þeim mun meiri verða völd
þeirra.
Skiptir máli hvort eigandinn er íslenskur eða
erlendur?
Þá er það síðari spurningin, nefnilega hvort skipti máli hvort
eigandinn sé íslenskur ríkisborgari eða erlendur. Ég tel
tvímælalaust svo vera. Í fyrsta lagi skiptir nálægðin máli, að
landið sé í augsýn eigandans en ekki fjarlæg verslunarvara sem
mælist í vísitölum alþjóðlegra kauphalla. Þá þarf eigandinn
ætíð að vera í augsýn samfélagsins sem byggir þetta land okkar og
hefur það í sameiginlegri umsjá sinni.
Auðvitað er manneskjan söm við sig hverrar þjóðar sem hún er en
tengslin við landið skipta engu að síður máli. Bóndinn sem býr á
sínu landi, ræður yfir því og yrkir jörðina og nýtir, er með allt
aðra jarðtengingu en fjarlægur eigandi.
Og auðvitað er eigandi lands í annarri stöðu en leiguliðinn sem á
endanum er háður valdi húsbónda síns. Þetta eru nokkuð algild
sannindi og minnist ég þess frá árum mínum í Skotlandi, þar sem ég
bjó um skeið, hve mörgum var þyrnir í auga eignarhald
stóreignamanna á skosku landi og bein og óbein yfirráð þeirra yfir
því.
Óbein yfirráð, hver skyldu þau vera? Hér er vísað til hins huglæga
í mannlegri tilveru. Einhverju sinni kom ég á íslenskan
búgarð þar sem höndlað var með hross. Fleiri gesti bar að garði,
þar á meðal forríka Þjóðverja sem báru ríkidæmi sitt og valdhroka
utan á sér. En bóndanum var engu að síður sýnd tilhlýðileg kurteisi
ef þá ekki virðing. Alla vega töluðust þarna jafningjar við. Væri
íslenski bóndinn orðinn landseti auðkýfinganna þýsku leikur varla
vafi á að samband þeirra hefði breyst að sama skapi.
Dómstólar ráða ef löggjafinn sefur
Fyrir nokkrum dögum kvað héraðsdómur upp þann úrskurð að vísa
bæri frá kröfu Landverndar og Fjöreggs um friðlýsingu á ýmsum
náttúruperlum í öræfum norð-austanlands. Landeigendur og ríkið
(hver ákvað það?) höfðu krafist frávísunar. Landeigendur fögnuðu
ákaft, sögðu að þar með væri ljóst að náttúruverndarsamtök teldust
ekki vera hagsmunaaðilar með íhlutunarrétt. Þann rétt hefðu
landeigendur einir. Ekki hefði lítið verið í húfi: "Þegar búið er
að friðlýsa eitthvað er landeigandinn búinn að missa ákveðið
forræði." (Morgunblaðið 6. júli sl.)
Þarna er dæmi um tvennt. Annars vegar að dómstólar ráða
framvindunni ef löggjafinn sýnir andvaraleysi eða meðvirkni. Hins
vegar er þetta vissulega áminning um að aðhaldslög (í þessu tilviki
um friðlýsingu lands) geta skipt máli.
Breyta þarf lögum og huga að samspili þeirra
Öll þessi lög þarf nú að taka til skoðunar og þá einnig samspil
þeirra. Ég tel brýnast að taka lögin um rannsóknir og nýtingu á
auðlindum í jörðu svo og vatnalögin til gagngers endurmats. Þá þarf
að setja í lög ákvæði gegn samþjöppun í eignarhaldi. Í þriðja lagi
þarf að setja skýrar búsetukvaðir sem tryggja eignarhald
innanlands. Þá þarf að skoða forkaupsrétt sveitarfélaga sem þó væri
tómt mál um að tala ef ríkissjóður væri þar ekki bakhjarl.
Krafa um innlent eignarhald þykir sumum vera fráleitur óþarfi. En
setjum svo að í ljós kæmi að auðkýfingur sem vildi festa kaup á
stóru landsvæði gerði það í umboði erlendra stjórnvalda, væri okkur
sama um það? Hefði okkur verið sama þótt bandarískur billjóneri,
handgenginn stjórnvöldum í Washington, hefði átt Miðnesheiðina,
landið undir herstöð Bandaríkjamanna? Hvað hefði Bandaríkjamönnum
þótt um að hafa herstöð hér á eignarlandi Kim il-Sungs, þáverandi
leiðtoga Norður Kóreu eða fulltrúa hans?
Vandlifað eða hvað?
Auðvitað hefði mátt setja aðhaldslög og auðvitað hefði mátt nýta
fullveldisrétt Íslands og skerða eignarrétt þeirra Goldwaters,
Núbós og Kims, eða þeirra líka, vegna almennra hagsmuna. En eins og
talsmaður Samtaka atvinnulífsins, Davíð Þorláksson, sagði í grein í
Fréttablaðinu 31. júlí sl. þá sé eignarrétturinn ekki nokkuð sem
eigi að vera hægt að ráðskast með að vild: " Það er ... tímabært að
stjórnmálamenn átti sig á því að eignarréttur er ekki stjórntæki
sem þeir geta gripið til að vild."
Það er vandlifað en þó ekki meira en svo að allt má þetta leysa ef
viljinn er fyrir hendi. Það eina sem við höfum ekki nóg af er
tíminn. Nú þarf aðgerðir um leið og Alþingi kemur saman.