TÍMABÆRT AÐ SPYRJA RÍKISSTJÓRNINA UM JAFNRÆÐISKENNINGUNA

Í lögum mun vera ákvæði þess efnis að ef landeigandi vill girða
land sitt af þarf nágranninn sem á aðliggjandi land að taka þátt í
tilkostnaðinum til helminga. Fyrir fáeinum dögum bárust fréttir af
því að peningamaður sem vildi bola fjárvana nágrönnum frá landi
sínu, vakti upp þetta girðingarákvæði. Skömmu síðar var jörð
eins blanka bóndans orðin auðmannsins. Auðurinn og valdið voru með
öðrum orðum á sömu hendi eins og fyrri daginn.
Einn ríkasti auðkýfingur Bretlands kaupir miklar lendur á Íslandi.
Hann er sagður mikill náttúruverndarsinni þótt heima fyrir sé hann
þekktur fyrir annað. Fyrir skömmu kom fram í fréttum að hann hafi
selt virkjunarrétt í á sem liggur um land hans. Með öðrum orðum,
peningarnir hafa forgang þar á bæ umfram náttúruvernd. Og nú fara
Bretar að kannast við sinn mann.
Norður af Vík í Mýrdal er svissneskur auðkýfingur að láta þann
draum rætast að geta lokað að sér í heiðalandinu sínu og þar með
látið sem hann búi á tunglinu. Einfalt mál ef seðlarnir eru nógu
margir.
Í Fljótum gefur hver bóndinn á fætur öðrum eftir land sitt í hendur
peningamanna sem vilja gera Fljótin að auðmannaparadís með
lúxushótelum. Hjá þeim munu engir sjúkraliðar, kennarar eða
trésmiðir gista. Til að njóta dýrðarinnar verður þú að vera hluti
af hinum dýra heimi.
Og nú heyrum við í einkaþotunum að nýju á Reykjavíkurflugvelli.
Déjà vu heitir hún á frönsku, tilfinningin að þú hafir lifað þessa
tíma áður.
En eitt hefur reyndar breyst frá því í aðdraganda hrunsins.
Fjárfestar eins og þessi mannskapur er kallaður, eru búnir að
uppgötva hvílíka auðlind er að finna í eignarhaldinu á íslensku
landi, í heimi sem allur er að verða upp á túrismann og þarf auk
þess í sívaxandi mæli á hreinu drykkjarvatni að halda að ógleymdri
orkunni. Allt þetta, náttúruperlurnar, vatnið og orkuna, fá menn í
kaupbæti geti þeir komist yfir land íslenska bóndans.
Og það er þarna sem ríkisstjórnin kemur inn í myndina. Í fyrsta
lagi virðist hún ætla að festa í sessi þá ósvinnu að landeigendur
geti rukkað okkur fyrir að njóta sköpunarverksins. Þetta er
grafalvarlegt mál og má furðu sæta að enginn skuli taka þetta
upp í ríkisstjórn eða á Alþingi.
Í öðru lagi er tímamótayfirlýsingin úr Stjórnarráðinu í vikunni um
jafnræðið: Eitt verður yfir alla að ganga, sagði
dómsmálaráðherrann, það yrði að virða jafnræði einstaklinganna.
Þannig gengi ekki að setja eina reglu fyrir almenning og aðra fyrir
auðmenn. Og alls ekki megi gera greinarmun á Íslendingum og
útlendingum, slíkt hlyti að flokkast undir rasisma heyrðist sagt í
spjallþætti!
Eitt verður yfir alla að ganga, hvað þýðir það? Getur verið að svo
sé litið á, að jafnræði sé með blanka bóndanum og ríka manninnum
sem komst yfir land þess fyrrnefnda í krafti auðlegðar; að jafnræði
sé með náttúruverndarsinnanum í Kópavogi og breskum auðkýfingi sem
báðir hafa skoðun á því hvort virkja eigi í Þverá í
Vopnafrði?
Er ekki eitthvað bogið við jafnræðisreglu sem aldrei spyr um vald
auðsins? Eða er eitthvað bogið við ríkisstjórn sem túlkar jafnræðið
óháð valdi og auðlegð? Hvað segir okkar ágæti dómsmálaráðherra um
það? Held reyndar að tímabært sé að spyrja ríkisstjórnina alla.