Fara í efni

AÐGANGSEYRIR AÐ ÞINGVÖLLUM

FB logo
FB logo
Birtist i Fréttablaðinu 11. október 2018.
Nú á dögum koma fæstir gangandi, hjólandi eða ríðandi til Þingvalla. Flestir koma á bíl. Það er almenna reglan. Þess vegna er almenna reglan líka sú (núorðið) að innheimta aðgangseyri að Þingvöllum á bílastæðinu. Aðgöngumiðinn stendur nú í 750 krónum. Ef fleiri eru í bílnum má til sanns vegar færa að gjaldið fyrir að njóta Þingvalla sé lægra.

Þeir borga sem njóta
Þetta var slagorðið fyrir hinn andvana fædda náttúrupassa um árið og rímar vel við boðskap peningahyggjunnar um notendagjöld. Þeir borgi sem njóti eða noti er gamalkunn mantra peningafrjálshyggjunnar. Sannast sagna vonaðist ég til að gjaldtaka á Þingvöllum yrði nú endurskoðuð með það fyrir augum að afnema hana með öllu. Það er reyndar hætt að rukka fyrir að fá að njóta salernis enda gekk það kerfi illa upp og varð ég oftar en einu sinni vitni að ferðamönnum í spreng við greiðsluvélar sem ekki virkuðu.

Forsvarsmenn biðja um sanngirni
Hinn 7. ágúst rita þeir Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar, og Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður, sameiginlega grein í Fréttablaðið um þjónustugjöld á Þingvöllum. Þeir eru þar að réttlæta gjaldtökuna í svari til Samtaka ferðaþjónustunnar, sem greinilega höfðu sett fram gagnrýni. Greinarhöfundar biðja um sanngirni. Aðgangseyririnn að Þingvöllum sé aðeins brot af öðrum ferðakostnaði og menn megi ekki gleyma að þótt gjaldið fyrir að koma með bíl sinn á Þingvöll hafi verið hækkað úr 500 í 750 þá sé nú ókeypis að fara á klósettið en hafi áður kostað 200 krónur. Síðan eru tíundaðar allar framkvæmdirnar á Þingvöllum að undanförnu ferðamönnum til hagsbóta en þeim hafi fjölgað gríðarlega sem kunnugt sé.

Ég bið um pólitíska stefnumörkun
Allt er þetta rækilega skilgreint, gjöld fyrir rútur og hálfrútur, bílastæði stækkuð og Hakið til fyrirmyndar. Ekki ætla ég að vanþakka það sem þarna hefur vel verið gert og vissulega er það heilmikið. Við erum hins vegar mörg þeirrar skoðunar að ekki eigi að rukka fyrir aðgang að íslenskum náttúruperlum. Á þessu sviði ríkir hins vegar glundroði, ef ekki stefnuleysi, nema að stefnan sé sú að festa kvótavæðingu náttúrunnar í sessi. Getur verið að það sé stefna ríkisstjórnarinnar? Við vitum allt um fyrri ríkisstjórnir í þessa veru. En sannast sagna hafði ég búist við stefnubreytingu nú. Þögnin lofar hins vegar ekki góðu en vonandi verður breyting þar á.

Án greiðslukorts
Nema nú hafa þjóðgarðsvörður og formaður Þingvallanefndar fyrir sitt leyti rofið þögnina og kynnt sína stefnumörkun. Hún er öll í átt frá félagslegum lausnum og stefnir lóðbeint ofan á vasann hjá hverjum og einum. Og það á Þingvöllum! Í hugum okkar flestra hafa Þingvellir táknræna þýðingu. Þingvelli eigum við nefnilega óvéfengjanlega saman. Við viljum njóta þeirra - en án greiðslukorts.