Fara í efni

EES GEGN FÉLAGSHYGGJU- OG SAMVINNUHUGSJÓN



Ráðherrar í ríkisstjórn, einn frá Framsókn og annar frá Sjálfstæðisflokki, hamast nú við að mæra EES samninginn, hann sé “sá mikilvægasti alþjóðlegi samningur sem við höfum gert.“

Alveg rétt. Hann er mikilvægur sem viðskiptasamningur. Hann hefur hins vegar gerst ágengari inn á við eftir því sem tíminn hefur liðið.

Fyrst var áherslan á niðurfærslu tolla og samræmingu hvers kyns í sjálfu viðskiptaferlinu. Síðan hefur áherslan verið á að jafna samkeppnisstöðu sem aftur hefur þýtt bann við hvers kyns stuðningi eða inngripi af hálfu samfélagsins.

Þarna vegast því á lýðræðislegur vilji og málmköld markaðshyggja.

Markaðshyggjan hefur orðið ofan á. Þess vegna er EES samningurinn fyrst og fremst mikilvægur fyrir markaðsöflin, alls ekki félags- og samvinnuöfl.   

Nú stöndum við frammi fyrir svokölluðum þriðja orkupakkanum. Sem betur fer er farið að ræða hann úti í þjóðfélaginu. Hann herðir enn fastar en áður tök markaðshyggjunnar á orkulindum okkar.

Þau sem vilja forða okkur undan þessari nýjustu sendingu Evrópusambandsins segja gjarnan að við séum alla vega ekki ennþá hluti af evrópskum orkumarkaði og eigi pakkinn þess vegna ekki við hér. Svo er að skilja að öðru máli gegni um meginland Evrópu.

Þessi málflutningur hljómar undarlega í eyrum margra þeirra sem telja markaðsvæðingu orkunnar í Evrópu hafa verið fíaskó hið mesta og engan veginn þjónað samfélagi eða neytendum.

Markaðsvæðingin hefur hins vegar þjónað fjárfestum ágætlega enda til þess leikurinn gerður.

Vonandi verður umræða um þriðja orkupakkann til þess að opna á gagnrýna og upplýsta umræðu um EES samninginn, kosti hans og þá ekki síður galla, sem eru ótvíræðir og hafa að mínum dómi valdið miklu félagslegu og efnahagslegu tjóni.