STASI, WIKILEAKS OG HEYKVÍSLARNAR
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.12.18.
Stasi var hræðileg stofnun, austurþýska leynilögreglan. Hún fylgdist með hverju fótmáli þegnanna og lét granna njósna um granna. Á endanum vissu þetta allir og þá var takmarkinu náð, nefnilega að halda öllum, samfélaginu öllu, í heljargreipum. Eins gott að halla ekki orði á valdið eða gera neitt sem hægt væri að sakfella þig fyrir.
Sakfelling, hét hún einmitt, bókin/veruleikalýsingin, um lífið í Norður Kóreu, sem bókaútgáfan Angústúra gaf nýlega út. Hún lýsir þessum sama veruleika, sama mentalíteti, sömu heljargreipinni.
Það þarf ekki alræði öreiganna til. Kapítalisminn er miklu duglegri snuðrari um hagi einstaklinganna en grámyglulegir Stasimenn á öldinni sem leið. Og þegar kapítalisminn leggur í púkk með bandarískri leyniþjónustu, þá fer að þrengjast um. Því fékk kristilegi demókratinn, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að kynnast þegar á daginn kom að fulltrúar þeirra Clintons, Bush, Obamas og Trumps höfðu hlustað á hvert einasta orð af hennar vörum í síma hennar. Þetta var nú samt gert, svona ef á þyrfti að halda. Allur er varinn góður.
En auðvitað þarf ekkert að hafa varann á þegar evrópska stjórnmálaelítan er annars vegar. Hún hefur alltaf stutt NATÓ-félaga sína vestan hafs þegar raunverulega hefur þurft á að halda. En auðvitað sakar ekki að eiga alla á bandi.
En spyrjum í allt aðra átt. Hvernig er það almennt með heiðvirt fólk, sem er umtalsgott um aðra og vill öllum vel? Má ekki allt um það vitnast? Má ekki hvert orð og hver athöfn slíks fólks verða öllum ljós?
Einhvers staðar eru þarna mörk. Ekki viljum við búa í Norður Kóreu.
Friðhelgin á sér margar hliðar. Ég er þannig mjög eindregið þeirrar skoðunar að Wikileaks hafi gert opnu lýðræðisþjóðfélagi gott með því að upplýsa um undirferli og ofbeldi hernaðarvelda, þar á meðal um stríðsglæpi þeirra í Írak og Afghanistan. Slíkt á alltaf og undir öllum kringumstæðum að upplýsa.
En hvað um iillmælgi um samþingmenn á Alþingi Íslendinga, orð sem látin eru falla – ansi mörg – á vínbar með palladómum, kvenfyrirlitningu og meinfýsni í garð fatlaðra einstaklinga? Allt tekið upp á segulband og birt í fjölmiðlum.
Jafnast þetta á við uppljóstranir Wikileaks, átti allt sem þarna var sagt heima í fjölmiðlum? Ég efast um það, meira að segja mjög svo. Eitt er víst að engum hefur þetta gert gott. Hvorki þeim sem töluðu né hinum sem um var rætt. En hvað með samfélagið almennt? Verður það betra fyrir vikið? Ég held ekki. Ákveðnir þættir kunna vissulega að eiga heima í fréttum, meint viðskipti með opinberar mannaráðningar nefni ég, en um það hefði mátt spyrja af öðru tilefni.
En fyrr en varði var allur sóðaskapurinn kominn á fjalir leikhúsanna fyrir fullum sal. Allir að klappa og skemmta sér. Minnir óneitanlega á gapastokkinn. Sagan kennir að fátt hafi verið vinsælla til skemmtihalds í tímans rás en opinber niðurlæging. Hámarkið var náttúrlega aftaka. Brauð og leikar í Róm, sveðja á háls í Saudi Arabíu. Slíkt tíðkast enn.
Aldrei hefur reynst erfitt að finna böðla, alltaf nóg af fulltrúum heilagleikans. Klígjugjarnt getur verið að horfa á þá.
Minn spádómur er þessi: Ef við leggjum ekki heykvíslarnar fljótlega frá okkur þá er réttarríkið farið og í þess stað boðið upp á brauð og leika.
Það eru ekki góð skipti.