Fara í efni

HAGSMUNAGÆSLA  -  GÓÐ EÐA SLÆM?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 19/20.01.19.
Þegar Karl G. Kristinsson, yfirlæknir Sýkladeildar Landspítalans fékk það í andlitið að hann gengi erinda einhverra ótiltekinna aðila þegar hann varaði við innflutningi á hráu kjöti til Íslands og vakti jafnframt athygli okkar á þeirri vá sem stafaði af kjöti sem gæti borið fjölónæma sýkla, þá svaraði hann því til að þetta mætti til sanns vegar færa.

Hann teldi sig skuldbundinn börnum sínum og barnabörnum að segja blákaldan sannleikann og ekkert nema sannleikann um heilnæmi matvöru. Ekki vildi hann á gamalsaldri sitja uppi með þá ásökun að hafa ekki komið á framfæri sannindum sem byggðu á rannsóknum vísindanna. Á þetta mætti vissulega líta sem hagsmunagæslu en hún væri hins vegar annars eðlis en varðstaðan um veski þeirra sem hefðu persónulegan hag af því að hafa vísindin að engu.   

Ásökunin á hendur Karli kom úr talsvert stóru glerhúsi, nefnilega því húsi sem innflutningskaupmenn hafa reist sér. Þaðan var stýrt málsókn í Brussel á hendur Íslandi fyrir að vilja sporna gegn innflutningi á lyfjakjöti. Evrópukerfið var sjálfu sér trútt og dæmdi verslunarhagsmunum í hag, að ólöglegt væri að standa vörð um hagsmuni barnabarna Karls G. Kristinssonar. Á heimasíðu Félags íslenskra atvinnurekenda í september var lýst yfir þvi sigri hrósandi að lögfræðingar félagsins hefðu “endurheimt um þrjá milljarða króna í ofgreidda skatta fyrir fyrirtæki í innflutningi.”

En hvert skyldu þessir peningar skattgreiðenda hafa farið?

Sigur innflutningskaupmanna var í því fólginn að okkur skattgreiðendum var gert að greiða þeim þessa fáránlegu og siðlausu sekt fyrir að verja mataröryggi Íslendinga.

En bíðum nú við? Voru það ekki neytendur sem höfðu greitt í vöruverðinu við búðarkassann hinar meintu “ofteknu” álögur? Er það þá ekki þessi sami almenningur sem bæði hefur borgað fyrir tollaálögurnar og er nú látinn borga í vasa verslunarinnar með sköttum sínum? Eru það þá ekki almennir neytendur sem urðu fyrir hinum meinta skaða?

Nú þarf að fá greiningu á því hvað hvert fyrirtæki fékk í sinn hlut. Við erum að tala um milljarða sem almenningur tvígreiðir við sigurhróp innflutningsverslunarinnar! Milljarða í skaðabætur til þeirra sem fyrir engum skaða urðu. Svo er þetta rekið sem eitthvert stórkostlegt réttlætismál!

Hvar eru eftirlitsaðilarnir? Neytendasamtökin, hvar er Alþingi? Ef til vill er ég að hafa einhverja alþingismenn fyrir rangri sök en ég man ekki eftir neinum alþingismanni sem hefur hreyft þessu máli öðrum en Ásmundi Friðrikssyni. Hafi hann þökk fyrir!

En vel á minnst, Alþingi og hagsmungæslan. Það er verðugt umræðuefni. Alþingi á að gæta hagsmuna almennings, ekki síst þeirra sem standa á einhvern hátt höllum fæti gagnvart ágengum fjárgróðaöflum. En til að verða trúverðugt í hagsmunagæslu fyrir almenning þarf þingið að byrja á sjálfu sér, en samt á annan hátt en nú tíðkast.

Í tímans rás hefur oft verið um það rætt að styrkja Alþingi sem löggjafar-, aðhalds- og eftirlitsstofnun. Í því efni hefur löngum verið tekist á um tvær leiðir. Annars vegar að efla sjálft Alþingi sem faglegan bakhjarl allra þingmanna óháð flokkum og hins vegar að styrkja flokkana og þeirra starf innan þingsins. Síðari leiðin hefur nú heldur betur orðið ofan á í mikilli þverpólitískri og þögulli sátt. Það þarf meiri pólitík – til dæmis varðandi matvælaöryggi - inn í sali Alþingis en sú pólitík á að koma frá þingmönnum sjálfum en ekki starfsliðinu. Alþingismenn mættu bregða upp sjálfskoðunarspegli og spyrja hvað valdi þögn og doða á Alþingi þegar um lífshagsmunamál þjóðarinnar er að tefla.

Þannig er þessu farið með hagsmunagæsluna. Hún er góð eða slæm eftir atvikum, hverjir hagsmunirnir eru og hvernig á er haldið.

Hagsmunagæsla fyrir gráðug innflutningsfyrirtæki og hvers kyns sjálfsdekur er slæm. En lofsverð er hins vegar varðstaðan fyrir barnabörn Karls G. Kristinssonar. Af henni munu öll barnabörn Íslands njóta góðs inn í framtíðina.