Fara í efni

GEYMSLULAUS HÚS OG BÍLALAUSAR GÖTUR


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 02/03.01.19.
Ímyndum okkur auðkýfing sem lendir á einkaþotu sinni á Heathrowflugvelli í London. Hann er fljótur frá borði í krafti forréttinda sinna en þegar hann ætlar að komast inn í miðborgina kárnar gamanið því einkabílstjórinn hans kemst einfaldlega ekkert hraðar en við hin. 

Það eru ekki margir geirar samfélagsins þar sem svo háttar að ekki er hægt að kaupa sig fram fyrir. Sumir vilja heilbrigðiskerfi sem veitir efnafólki forgang, að það fái alla vega að liggja sólarmegin. Á Íslandi hefur samfélagið sem betur fer hafnað slíku og er nú verið að reyna að vinda ofan af gjaldtöku í kerfinu. Það er í þágu jafnaðar og er vel.

En hvað með húsnæðiskerfið? Almennt fór húsnæði Íslendinga batnandi á síðari hluta tuttugustu aldar og er almennt gott. Settir voru staðlar og reglur til að stuðla að sem mestum gæðum, góð dagsbirta yrði að ná inn í híbýlin, geymslurými yrði að vera til staðar og í seinni tíð aðgengi fyrir fatlaða. Þessa lágmarksstaðla hefur upp á síðakstið tíðkast að kalla reglugerðarfargan og má að mínum dómi alls ekki rugla saman við breytt fyrirkomulag eftirlits með byggingum, sem hefur fært það upp í hvítflibbann og jafnframt fjarlægt frá þeim sem verkin vinna, og sumt í einkavæddu formi.

Reglugerðirnar sem ég vil ekki sjá á bak eru þær sem eiga að tryggja tekjulitlu fólki lágmarksgæði í húsnæði. Á tímum Sigtúnshúshópsins, húsnæðishreyfingar sem spratt upp á níunda áratugnum, brást þáverandi ríkisstjórn meðal annars við með því að senda sérfræðinga ti Japans til að finna hina einu réttu lausn fyrir Íslendinga í húsnæðismálum. Fram komu tillögur um agnarsmátt húsnæði, brot af því sem hér tíðkaðist enda Japanir almennt smágerðari en Íslendingar. Á þessum tíma komst líka í tísku að gera sameiginlegu rými hátt undir höfði og voru í samræmi við það teiknaðir stúdentagarðar með smáum hílbýlum en þeim mun stærri sölum með pálmatrjám og borðtennisborðum. Á daginn kom að fáir reyndust vilja sitja undir pálmunum eða spila borðtennis með sambýlungum sínum, flestir vildu hafa rýmra í kringum sig í eigin íbúð.

Á undanförnum árum hafa talsmenn stúdenta verið fyrirferðarmiklir í húsnæðisumræðunni og er það ágætt fyrir hönd þeirra sem þurfa á tímabundnu smáhúsnæði að halda eins og námsmenn, þar er japanska lausnin eflaust ágæt.
Þegar okkur er hins vegar sagt að fátækt fólk þurfi ekki geymslur eða stæði fyrir bílinn þá hljóta talsmenn lágtekjufólks að sperra eyrun, hvað þá þegar ekki á að gera ráð fyrir að í ódýrari íbúðarhverfum sé fatlað fólk á ferðinni, hvort sem er til búsetu eða í heimsóknum.

En gleymum ekki að þótt almennt sé húsnæði gott, þá er nú komið til sögunnar raunverulegt neyðarástand. Stór hópur fólks býr í óviðunandi, ósamþykktu húsnæði og sýnir verkalýðshreyfingin þá lofsverðu ábyrgð að vilja leysa vanda þessa fólks.
En það má ekki gera með því að fórna ávinningum undangenginna áratuga um lágmarks lífsgæði í húsnæði. Þarna þurfa því að koma nokkrir milljarðar frá ríki og sveitarfélögum sem eiga sjálf að axla ábyrgðina en útvista henni ekki.

Og þá aftur að bílaumferðinni í London eða kannski bara í Reykjavík. Þar er umferðin orðin býsna þung. Hvernig á að leysa þann vanda? Með enn fleiri akreinum og umferðarslaufum eða með betri almenningssamgöngum? Ég vel síðari kostinn, vil sætta mig við tímabundnar tafir í umferðinni eins og gerist í öllum borgum heims, vel vitandi að þessar tafir munu smám saman hrekja okkur upp í strætisvagninn á álagstímum, óháð efnahag okkar. Það mun einfaldlega gerast vegna þess að við verðum fljótari í förum í almenningsvagni með forgang en við erum á einkabílnum.

Þriðja lausinin er náttúlega líka til og hún er að taka bílinn af fátæka fólkinu. Hafa engin bílastæði við híbýli þess og síðan rukka svo rælikega á vegunum að tekjulítið fólk hafi ekki efni á að aka um þá.
Þetta myndi eflaust kæta einhverja sem búa við góð efni og gætu fyrir vikið ekið greiðar á fáfarnari vegum. Þeim kynni að finnast bílleysið ágætt – það er að segja fyrir alla hina.