Fara í efni

HVERS VEGNA VILL HEIMURINN EKKI HEYRA?


Í morgun hittum við Mæður fyrir friði, hópurinn sem kominn er til Kúrdistan að styðja við mannréttindabaráttu Kúrda.

Þær eiga það sammerkt að hafa misst börn sín og eiginmenn í stríðsátökum tyrkneska ríkisins og Kúrda fyrr á tíð eða í ofsóknum yfirvalda á hendur Kúrdum í seinni tíð.

Tyrkneska ríkið hefur aldrei viðurkennt að borgarastríð hafi geisað í landinu. Þess vegna eru allir sem barist hafa fyrir mannréttindum Kúrda hryðjuverkamenn og þeir sem hafa samneyti við þá svo aftur  hryðjuverkamenn einnig.

Konurnar sem við hittum í dag, Mæður fyrir friði, eru því allar hryðjuverkamenn samkvæmt þessari skilgreiningu.

Engin þeirri vildi þó hryðjuverk. Allar töluðu þær fyrir friði.

Synir nokkurra þeirra taka nú þátt í mótmælasvelti í fangelsum:

“Við vljum ekki fá þá til okkar í líkkistum syni okkar og eiginmenn. Við óskum engum dauða, hvorki Kúrdum né Tyrkjum. Við viljum frið og forsenda þess er að hefja friðarviðræður. Til þess þarf að rjúfa einangrun Öclans. Hann er forystumaður okkar og talsmaður.”

“Tyrkland ber ekki alla sökina, það gera vestræn ríki sem hafa leyft yfirvöldum í Tyrkalndi að komast upp með ofbeldið. Ofbeldið, morðin, pyntingarnar og frelsissviptingin er í þeirra skjóli.”

"Evrópuríkin eru samsek, hafa lagt blessun sína yfir þjóðarmorð. Ég er áttatiu ára. Nú er verið að taka síðasta son minn frá mér. Þá verð ég ein og hjálparlaus. Sjálf hef ég setið í fangelsi og fjölskyldan öll árum saman. Hvenær endar þetta?”

Ég var dæmd í fangelsi fyrir að fara í klrkjugarð sem yfirvöld sögðust ekki viðurkenna, höfðu flutt öll bein á brott. Ég vildi hlúa að gröf en var send í fangelsi.”

Ég gæti haldið áfram en við getum öll getið okkur til um framhaldið og höfum kannski gott af því …