Fara í efni

MANNRÉTTINDADÓMSTÓLL EVRÓPU?

Ég er nýkominn frá Tyrklandi og skrifaði við heimkomuna opið bréf til ríkisstjórnarinnar um stöðu mannréttindamála þar og hvernig ríkisstjórn Íslands gæti beitt sér. Enn er beðið svars.

Á Imrali-eyju situr í einangrun talsmaður Kúrda. Hann hefur ekki mátt hitta lögfræðinga sína síðan 2011 og engan mann síðan 2015 fyrir utan bróður sinn í fimmtán mínútur í annað skiptið, hálftíma í hitt. Eftirlitsnefnd Evrópuráðsins um meðferð fanga (Committee for the Prevention of Torture) hefur ekki treyst sér til að verða við áskorunum um að nýta sér heimildir til að fara í þetta einangrunarfangelsi með það fyrir augum að opinbera heiminum það sem þar fyrir augu ber. Til þess hefur hún þó rétt.

Dómarafélagið íslenska hefur hins vegar þorað að tala um stöðu réttarfarsmála í Tyrklandi, þökk sé því. Íslendingar fengu að vita umbúðalaust í yfirlýsingu Dómarafélags Íslands að réttarríki væri ekki lengur við lýði í Tyrklandi. Að slíku hugrekki er ekki hægt að ganga sem vísu hjá þeim alþjóðastofnunum sem við þráum svo heitt að geta treyst. Mannréttindasdómstóllinn í Strasbourg býr alla vega ekki yfir slíku hugrekki, hvað þá réttsýni. Þess vegna spurningamerkið í fyrirsögninni.

Um þetta ætla ég að nefna nýlegt dæmi. Til stóð að höfða mál á hendur tyrkneskum valadamönnum  vegna fjöldamorða tyrkneska hersins og hrikalegrar eyðileggingar af hans völdum í borginni Cizre í suð-austur Tyrklandi. Réttkjörinn, en nú útlægur, borgarstjórinn þar, Leyla Imret, var á fundi í Safnahúsinu í Reykjavík í janúar síðastliðnum og lýsti þessum atburðum í máli og myndum. Áheyrendur setti hljóða.

Svipuð ofbeldisverk höfðu verið framin í öðrum borgum og bæjum í Kúrdahéruðum Tyrklands á árunum 2015-16. Ákveðið var að láta reyna á glæpina í Cizre sem pars pro toto, hluta fyrir heild, hjá Mannréttindadómstólnum í Strasbourg. Dómstóllinn hafnaði þessari málaleitan á þeirri forsendu að ekki hefðu öll úrræði tyrkneskra dómstóla verið reynd. Með öðrum orðum, Mannréttindadómstóllinn neitaði að fjalla um það sem Parísardómsstóllinn (Paris Permanent Tribunal) hafði skilgreint sem glæpi gegn mannkyni. Og það var sem fyrr segir vegna þess að menn höfðu ekki áður látið reyna á öll úrræði hins ónýta réttarkerfis Tyrklands! Nú er vitað að strangt til tekið og tæknilega séð þurfa mál að fara í gegnum æðsta dómsstig viðkomandi lands áður en Strasbourg tekur við þeim – en það eru takmörk fyrir því hve réttlætanlegt það getur verið að flækja glæpi gegn mannkyni í lagatækni. Fráleitt er því að þessi regla sé ófrávíkjanleg, horfa verður til aðstæðna eins og nú í Tyrklandi, þ.e. þegar raunveruleg réttarúrræði eru hreinlega ekki til.

Á síðasta ári kvað “Mannréttindadómstóllinn” upp úr með að réttarhöldin yfir Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra Íslands, hefðu verið í góðu lagi og ekki pólitísk því atkvæðagreiðslan á Alþingi um að skjóta máli hans fyrir Landsdóm hefði ekki verið pólitísk! Auðvitað veit hvert mannsbarn að málið var frá upphafi til enda rammpólitískt!

Nú hefur þessi sami dómstóll komist að þeirri ævintýralegu niðurstöðu að brotin hafi verið mannréttindi á manni sem dæmdur var í Landsrétti af dómara sem Mannréttindadómstóll Evrópu telur að hafi ekki verið rétt skipaður enda þótt þjóðkjörið þing Íslands hafi staðfest skipan hans lögum samkvæmt, æðra dómsvald síðan staðfest dóm viðkomandi Landsréttardómara í máli hins meinta brotaþola og að engar efasemdir hefðu komið fram um réttmæta málsmeðferð! Með öðrum orðum, Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að þegar kurl eru komin til grafar hafi mannréttindi ekki verið brotin …. en samt! … samt hafi þau verið brotin því viðkomandi hafi ekki fengið aðgang að rétt skipuðum dómara.
Nú skal það tekið skýrt fram að það skiptir máli hvernig staðið er að skipan dómara og í sumum málum, í sumum ríkjum, hafa vafasöm tengsl verið misnotuð af hálfu valdhafa. Í málinu sem fór til Strasbourgar er engu slíku til að dreifa. Því fer víðsfjarri. Engar efasemdir eru um að dómur hafi verið rétt upp kveðinn, það er bara dómarinn sem er sagður vera rangur og það án sannfærandi rökstuðnings. Í kjölfarið leggst þingheimur á hliðina og álitsgjafar verða óðamála sem aldrei fyrr. Skyldu hinir málglöðustu og dómhörðustu þeirra á meðal hafa lesið dómsniðurstöðuna og ígrundað hana og þá ekki bara meirhlutaálitið heldur og ekki síður minnihlutaálitið? 

Þetta er þó ekki það allra versta í þessu furðulega máli þótt vissulega sé það slæmt og dapurlegt að verða vitni að niðurlægingu Mannréttindadómstóls Evrópu. Það sem er verst, eða öllu heldur mest ástæða til að hafa áhyggjur af, eru almenn viðbrögð innan þings sem utan og ekki síst í íslenskum fjölmiðlum eftir dóminn. Þar er tekin afstaða í óhugnanlega ríkum mæli eftir flokkspólitískum línum.  

Á meðan:
- landið er selt á útsölu til auðmanna án nokkurra viðbragða á Alþingi,
- búið er í haginn fyrir alþjóðlega fjárfesta að leggja hald á auðlindir okkar, vatnið og orkuna, þegar er búið að afhenda sjávarauðlindina
- handhafar einkaeignarréttar rukka um aðgang að sameiginlegum náttúruperlum okkar í trássi við lög
… á meðan allt þetta er að gerast og margt annað sem ætti að kalla á harðar pólitískar umræður, þá ríkir um þessi mál – að vísu með undantekningum - fullkomið andvaraleysi 

Ég minnist umræðu á Alþingi á árum áður um laxveiðar vildarvina bankastjórna. Mikill hiti var í umræðunni. Ekki um laxveiðarnar heldur hitt hvort þær væru bókaðar í fundargerðum. Svo var farið að bóka laxveiðitúra. Ekki hefur heyrst orð um spillingar-laxveiðar síðan. Enda forminu nú fullnægt.

Form er mikilvægt. Og form á að virða. En varla verður það mikilvægara en innihaldið. Þarna þarf að vera eitthvert lágmarkssamræmi á milli. Annars er hætt við að við fáum hnökralaust dómskerfi. En ranglátt.

En á að hlíta ranglátum dómum? Ef við ekki gerum það þá er illa komið fyrir réttarríkinu. Niðurstaða mín er sú að dómstóla eigi að taka alvarlega jafnvel þótt þeir gerist þröngsýnir og undarlegir í háttum eins og nú hefur gerst í Strasbourg.
Þetta gerðist til dæmis þegar kosning til stjórnlagaþings hér á landi var dæmd ólögmæt í janúar árið 2011 vegna meintra, en að mínu mati, fáránlegra formgalla. Ég gegndi þá stöðu dómsmálaráðherra. Ég gagnrýndi dóminn harðlega og sagði hann hafa verið pólitískan og hreint hneyksli en að ég myndi engu að síður virða hann.

Varðandi niðurstöðuna í Strasbourg er að því að hyggja að dómar Mannréttindadómstólsins hafa ekki bein réttaráhrif á Íslandi og dómarnir því ekki bindandi með sama hætti og dómar innlendra dómstóla en við erum engu að síður skuldbundin að þjóðarrétti að virða niðurstöður mála sem snúa að okkur og viljum auk þess gera það enda á okkur að vera annt um að hafa við lýði öfluga alþjóðlega mannréttindadómstóla. Á hvern hátt fara ætti að þessari niðurstöðu er hins vegar engan veginn augljóst. Nú er að sjá hvað gerist þegar málinu verður skotið á æðra stig sem að sjálfsögðu hlýtur að vera gert. Í húfi er orðspor margra, þá ekki síst Mannréttindadómstólsins í Strasbourg!

Að lokum ein bjartsýnishugsun: Þótt þessi dómsniðurstaða meirihluta Mannréttindadómstólsins sé harla undarleg verður að mínu mati hið sama ekki sagt um álit minnihluta dómsins sem er vel grundað og sannfærandi, á meðal annars um hnökrana á skipan í Landsrétt af hálfu ráðherra og (vel að merkja) Alþingismanna (sem enginn talar um að skuli segja af sér fyrir bragðið), en að þegar málið sé skoðað í heild séu ekki forsendur til að efast um lögmæti skipunar þeirra dómara sem á endanum tóku sæti í Landsrétti. Það er helst að bæði hjá meirihluta og minnihluta dómsins vanti gagnrýna umfjöllun um vinnubrögð matsnefndarinnar og hvort þar hafi allt verið hnökralaust.

Gæti það verið þannig að einu mögulegu viðbrögðin við þessum dómi vísi inn í framtíðina? Að öll þau sem komið hafa að þessu ferli þurfi að draga sína lærdóma:
Á Íslandi: framkvæmdvaldið, löggjafarvaldið, dómsvaldið og tilkvaddir sérfæðingar.
Í Strasbourg: Mannréttindadómstóll Evrópu.  

Sjáum hvað setur.

Hér er niðurstaða bæði meirihluta og minnihluta dómsins: https://hudoc.echr.coe.int/eng#{%22itemid%22:[%22001-191701%22]}