Fara í efni

ANGÚSTÚRA: EINS OG AÐ BÍÐA EFTIR BÍTLAPLÖTUNUM

Bókaútgáfan Angústúra er velkominn gestur í mína tilveru. Hún hefur opnað mér glugga í heimshorn sem ég hafði takmarkað séð inn í, Afríku, Rómönsku Ameríku, Kína, Norður-Kóreu og að sama skapi inn í hugarheim rithöfunda sem hugsa nokkrum hæðum ofar en við gerum flest.

Þannig að hvað mig varðar færir Angústúra út mörk landafræðinnar og hugarheimsins.

Og rétt í þessu kom inn um póstlúguna nýjasta afurðin, Glæpur við fæðingu, eftir ungan suður-afrískan rithöfund Trevor Noah í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur.

“Glæpurinn” var að eiga móður og föður af ólíkum hörundslit en á tímum aðskilnaðarstefnunnar var það refsivert í Suður- Afríku. “Ef móðir mín hafði eitt markmið í lífinu, þá var það að fresla huga minn”, er haft eftir Trevor Noah. Viðbrögð við þessari bók benda til þess að fleiri hafi frelsast.

Ég hlakka til að lesa. Enda enn ekki orðið fyrir vonbrigðum. Bíð alltaf spenntur eftir næstu bók frá Angústúru. Nánast eins og þegar beðið var eftir nýjustu Bítlaplötunni fyrir hundrað árum – tæpum.