Fara í efni

AFSTÆÐI TÍMA OG ALDURS: NÝSTÚDENTAR ÁVARPAÐIR

Í morgun ávapaði ég fyrir hönd fimmtíu ára stúdenta Menntaskólans í Reykjavík stúdentahópinn sem nú útskrifast. Ég var í góðum félagskap því Páll Bergþórsson ávarpaði fyrir hönd sjötíu og fimm ára stúdenta, eldhress enda ekki langt síðan hann vakti þjóðarathygli fyrir frækið fallhlífarstökk! Alltaf gaman að hlusta á Pál Bergþórsson.

Eftirfarandi er mitt ávarp:  

Kæru stúdentar, ég óska ykkur til hamingju með áfangann og þennan dag sem honum er helgaður.

Hratt flýgur stund. Þegar minn árgangur útskrifaðist, og það var árið 1969, þá hlýddum við einnig á ávörp  forvera okkar. 50 ára stúdentinn útskrifaðist að nýlokinni Fyrri heimstyrjöld, fæddur aldamótin 1900.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar enda tuttugasta öldin mesta framfaraskeið mannskynssögunnar þrátt fyrir allt misjafnt sem um hana má segja. En á mælikvarða framfaranna var sú öld viðburðaríkari en  tvö þúsund árin þar á undan. Samt leið hún með nákvæmlega sama hraða mælt á klukku og dagatal.

Svona er tíminn afstæður. Það á líka við um aldur manna.

Þegar ég kom til náms í Bretlandi haustið 1969 þótti mér yngsti maður þess lands, ef þá ekki heimsins allls, vera Bertrand Russel, heimspekingurinn sem ásamt öðrum heimspekingi, hinum franska Jean Paul Sartre, stofnaði til dómstóls sem tók á þeim stríðsglæpum sem þessum mönnum þótti stofnanakerfi heimsins horfa framhjá. Bertrand Russel var gagnrýninn í anda, kvikur, síungar. Hann var fæddur 1872 og því 97 ára þegar ég kom til náms í Edinborg, nýútskrifaður úr Menntaskólanum í Reykjavík.  

Jónasi Hallgrímssyni, listaskáldinu góða, var hugleikið hið afstæða í tíma og aldri þegar hann minnir okkur á að hár aldur sé engin ávísun á vit og vísku og að ung manneskja geti hafa lifað innihaldsríkari ævi en harðfullorðinn maður sem lifað hafi lífinu sofandi.

Hvað er langlífi?  er spurt
svar:
Lífsnautnin frjóva,
alefling andans
og athöfn þörf;
margoft tvítugur
meira hefur lifað
svefnugum segg
er sjötugur hjarði.

Annars má segja að mín kynslóð hafi brotið niður aldursmúra sem áður þekktust. Þegar við komum í þriðja bekk Menntaskólans í Reykjavík fannst okkur sjöttu bekkingar vera harðfullorðið fólk enda klæðaburður og háttalag eftir því. Strákarnir komnir á skólhlífar og stelpurnar háhælaðar. Þessu breyttum við.  

Svona breytast tímarnir.

En hvað má almennt ráða í breytingar; er hægt að læra af sögunni? Hugsanlega er hægt að læra að forðast verstu afglöp fyrri tíðar manna og þá einnig læra að leggja rækt við það sem vel var gert. En til þess að læra af sögunni þurfum við að leggja okkur fram um það því ekki gerist það  áreynslulaust.

Mig langar til að segja ykkur frá nokkru sem ég tel mig hafa lært. Það snýr einmitt að tímanum og hve afstæður hann er.

Um árabil annaðist ég stundakennslu í sagnfæði við Háskóla Íslands. Ég fann að þegar leið á kennslutímabilið voru nemendur misjafnlega sáttir við sjálfa sig eftir skólaveturinn, sum hver hefðu viljað fara betur með tíma sinn, svo þau stæðu sterkar að vígi en raun bar vitni nú þegar átti að skila ritgerðum og standast próf.

Ég sagði þeim þá frá afstæði tímans, það væri ekki allt sem sýndist þegar þau bæru sitt hluskipti saman við annarra. Það mættu þau nefnilega vita að þegar þau horfðu yfir lestrarsalinn þar sem nokkur hundruð manns grúfðu yfir bækur sínar, þá væri það að líkindum svo að fjörutíu af hverju hundraði væru hálfsofandi, önnur tuttugu prósent væru að hugsa um hvað gera ætti í sumarfríinu, síðan væru tuttugu prósent haldin sömu óhamingju og þau, full sjálfsásökunar um glataðan tíma en aðeins tuttugu prósent væru með óskipta athygli við námsvinnuna. Verkefnið væri að koma sér í þann hóp og það væri aldrei of seint.
Munið þetta, að þegar ykkur eru að fallast hendur eins og hendir okkur öll einhvern tímann á lífsleiðinni, kannski oft, þá er það er aldrei of seint að byrja upp á nýtt. Aldrei! Svo er það hitt að þeim sem tekst að nýta tíma sinn vel, sér og öðrum til uppbyggingar, sá hefur tíma til alls. Því eitt leiðir af öðru, efling andans og vel unnið verk verður okkur aflgjafi til að lifa frjóu lífi.

Og nú er að hefjast skemmtilegt skeið í ykkar lífi. Notið tímann, andið að ykkur öllu því sem gott er og uppbyggilegt, reynið að læra af sögunni, það er hægt, og munið hve mannbætandi það er að vilja gera öðrum gagn. Ég hef oft vitnað í Jóhannes úr Kötlum, eitt minna uppáhaldsskálda frá kynslóðinni sem ég vísaði til áður, aldamótkynslóðunni sem svo var nefnd, þeirri kynslóð sem óx úr grasi á öndverðri tuttugustu öldinni þegar menn voru uppfullir af viljanum að bæta lífskjör fátækrar þjóðar og vinna samfélagi sínu gagn:

Hvort sem ég æskuóð
yrki af sannri hvöt, 
eða ég yrki vel 
ógróinn moldarflöt,
fossar í funheitt blóð
fagnaðarkenndin sterk.
Göfgasta gleði í sál 
gefur mér - unnið verk.

Og til að undirstrika tímaleysi heilræða botna ég þessa kveðju frá fimmtíu ára stúdentum til ykkar með því að minna á að undirstaða frelsis, sem við öll hljótum að þrá, er rækt við það sem gott er í samfélaginu og ekki síður innra með okkur sjálfum:

Hvað er frelsi þitt byggð? 
spyr Jónas Hallgrímsson og svarar sjálfum sér að bragði,
Það er drengslund og dyggð,
það er dáðin í siðferði þjóða;

það er menning þín sjálfs,
unz þú fúslega og frjáls
setur fjör þitt í veð hinu góða.

Kæru nýstúdentar, lifið lífinu lifandi.
Gæfan fylgi ykkur.