Fara í efni

ÁVARP Á AUSTURVELLI UM ORKUPAKKANN

Í gær, laugardag, komu saman fyrir framan Alþingishúsið á Austuvelli nokkur hundruð manns að mótmæla Orkupakka 3 og þar með ásetningi ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis að geirnegla markaðsvæðingarstefnu Evrópusambandsins í orkumálum inn í íslenska framtíð.

Útifundurinn var “sjálfsprottinn”, að honum stóðu engin samtök heldur aðeins áhugasamir einstaklingar sem í mínum huga eiga lof skilið.

Ég var beðinn um að segja nokkur orð á fundinum og má lesa þau hér:

Fyrst þrjú dæmi úr veruleikanum:

Árið 2006 ákváðu stjórnvöld í Slóvakíu að vinda ofan af einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem fyrri ríkisstjórn landsins hafði lagt upp með. Hollenskt fyrirtæki, Achmea áður Eureko, eitt þeirra fyrirtækja sem hafði ætlað sér að hagnast á einkavæðingunni í landinu hóf þá málssókn fyrir yfirþjóðlegum fyrirtækjadómstól eins og nú eru komnir í tísku til að skera úr um ágreining í viðskiptum yfir landamæri. Þessir úrskurðaraðilar komast jafnan að góðri niðurstöu fyrir fjárfesta, það er að segja ef þjóðir hafa á annað borð skuldbundið sig til að halda inn á marksðstorgið með grunnþjónustu sína. Þetta er lykilatriðið, hvað menn skuldbinda sig til að gera og hverjir það eru sem fá úrskurðarvaldið. Þannig að hollenska fyrirtækið sem var svipt mögleikanum á að hagnast í Slóvakíu eins og gengið hafði verið út frá, fór í mál og viti menn skattgeiðeðendur í Slóvakíu þurftu að punga út með þremur milljörðum auk vaxta og alls lögfræðikostnaðar til þessa eina fyrirtækis þar sem löggjafi landsins hafði svipt fjárfestana væntum gróða sem fyrri stjónvöld hefðu óbeint heitið.
Sanngjarnt eða skynsamlegt?
Að sjálfsögðu hvorugt.
En almenningur var látinn blæða.
Skuldbindingar hafa afleiðingar.

Dæmi tvö varðar fjölþjóðlega orkurisann Vattenfall sem tvívegis hefur höfðað skaðabótamál á hendur þýskum skattgreiðendum, fyrst árið 2009 upp á tvö hundruð milljarða íslenska eftir að þýska þingið hafði lögbundið mengunarhömlur á kolaknúin orkuver umfram þær sem Vattenfall hafði gengið út frá þegar það eignaðist tvö slík orkuver í Þýskalandi. Augljóst var að hömlurnar myndu minnka arð eigenda. Semja tókst um málið eftir að þýsk stjórnvöld höfðu dregið úr umhverfishömlunum. Árið 2012 fór Vattenfall síðan aftur í skaðabótamál gegn þýskum almenningi, að þessu sinni eftir að Þjóðverjar höfðu, í kjölfar Fukushima kjarnorkuslyssins í Japan, ákveðið að leggja í áföngum af kjarnorkuknúin raforkuver. Nú var skaðabótaupphæðin 647 milljarðar króna vegna fyrirsjáanlegs hagnaðarmissis í framtíðinni.
Sanngjarnt eða skynsamlegt?
Að sjálfsögðu hvorugt.
Engu að síður er þetta veruleikinn

Þriðja málið er frá okkar heimaslóð og hjá okkur er úrskurðardómstólinn kallaður ESA þegar Hið evrópska efnahagssvæði er annars vegar og ágreiningur rís þar um túlkun.
Fyrir um áratug samþykkti Alþingi pakka Evrópusambandsins um viðskipti með matvæli. Ekki voru allir sáttir hér innanlands við þá niðurstöðu en friður hafði að lokum fengist með því að Íslendingar settu samhliða samþykkt pakkans fyrirvara í lög m.a. varðandi meðhöndlun á hráu innfluttu kjöti. Það skyldi flutt inn sem frystivara. Þetta líkaði Evópusambandinu illa og einnig innflutningverslunarfyrirtækjum íslenskum sem sögðu þessar varúðarráðstafanir vegna lýðheilsu vera óeðlilegar viðskiptahömlur sem skertu hagnaðarmöguleika þeirra. Farið var í mál og viti menn ESA dómstóllinn og í kjölfarið Hæstiréttur Íslands dæmdi okkur skattgreiðendur til að greiða Högum og öðrum innflutningsfyrirtækjum þrjá milljarða króna í skaðabætur. Þetta var í haust. 
Við vorum með öðrum orðum dæmd fyrir að hafa sett fyrirvara á Alþingi um framkvæmd viðskiptastefnu Hins evrópska viðskiptasvæðis sem við höfðum vissulega samþykkt. Enginn hefur reyndar spurt að gagni hvernig þessum milljörðum hafi verið varið. Alla vega varð enginn var við verðlækkanir í búðum sem fyrst hækkuðu verðið til almennings vegna viðskiptahamla og fengu síðan aftur borgað úr vasa sama almennings vegna sömu viðskiptahamla.
Sanngjarnt eða skynsamlegt?
Að sjálfsögðu hvorugt.
Engu að síður er þetta veruleikinn – þetta er hins vegar veruleiki sem hægt var að breyta og hægt er að breyta en til þess þarf núttúrlega viljann í þessu húsi, Alþingishúsinu.

En þannig standa málin og nú vitum við hvað reynslan ætti að kenna okkur.

Og því spyr ég þegar til stendur að bjóða okkur upp á sömu trakteringar aftur, hvað halda menn að gerist þegar kapalfyrirtæki sem koma vill rafmagni frá Íslandi til Evrópu um jarðstreng, fer í mál við okkur skattgreiðendur fyrir að standa í vegi fyrir verslun með rafmagn sem við höfum fallist á að skuli heyra  undir fjárfrelsið svokallaða, hömlulaust flæði viðskipta, fjármagns, vinnuafls og varnings. Við höfum þegar fallist á og værum nú að greirnegla með þriðja orkupakka að með rafmagn eigi einmitt að fara sem hvern annan varning, vöru en ekki sem grunnþjónustu við samfélagið. Þetta er mergurinn málsins. Út á þetta ganga þessir orkupakkar.

Menn rýna í pakka 1 og 2 og nú orkupakka 3. Á morgun verður rýnt í orkupakka 4 og 5, sá fyrri er tilbúinn, hinn síðari í smíðum. Í mörgum tungumálum er að finna varnaðarorð um að mönnum sé hætt við að sjá ekki skóginn fyrir trjánum, að hin smærri atriði komi í veg fyrir að heildarmyndin greinist.
Einmitt þetta hefur í of ríkum mæli gerst í þessu máli. Auðvitað eigum við að skoða einstök tré og sömuleiðis einstakar vörður á vegferð okkar en við megum aldrei gleyma hvert vegferðinni er heitið. Henni er heitið inn á markaðstorgið með orkuna. Því fylgja skuldbindingar sem síðan hafa afleiðingar. Þetta verðum við að horfast í augu við.

Hér í þessu húsi, Alþingishúsinu, er nú tekist á um þriðja orkupakkann. Þau sem eru pakkanum andvíg eru sögð stunda málþóf. Þetta er okkur sagt í Ríkisútvarpinu. Okkur er sagt að sex flokkar af átta styðji frumvarpið, nær alllir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Hreyfingarinnar framboðs. Við vitum að Samfylking, Viðreisn og Píratar vilja áköf samþykkja. Eftir standa þá Miðflokkur og Flokkur fólksins. Þökk sé þeim og öllum hinum sem kunna að brjótast út úr klefum sínum.

En það er svo undarlegt að þegar rætt er um málið manna á milli úti í samfélaginu blasir við allt önnur mynd. Þar eru hlutföllin allt önnur. Þar er fólk sem kaus Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna grænt framboð í góðri trú, á allt öðru róli en meintir fulltrúar þeirra á Alþingi. Hvað síðast nefnda flokkinn áhrærir þá er það svo að ef að út er fellt sjálft inntakið í nafni hans, vinstri og grænt, stendur eftir nýtt heiti, Hreyfingin framboð og yrði skammstöfunin í samræmi við það. 

Ég spyr því: Er Alþingi og stofnanaheimur stjórnmálanna, þar með taldir meðvirkir fjölmiðlar, að verða viðskila við félagslegar rætur sínar? Er þingið komið úr kallfæri við þjóðina?

Á það mun reyna á næstu dögum.

Við skorum á Alþingi að hafna orkupakka 3.
Við viljum að orkan sé okkar,
þjóðarinnar,
almennings,
samfélagsins alls.
Tryggið að svo verði.
Tryggið það í þágu okkar allra.