ÞESS VEGNA SEGI ÉG NEI VIÐ ORKUPAKKA 3

rafmagnslínur.PNG


Í þessari umsögn til utanríkisnefndar um 777. Mál, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn).

Ég hvet eindregið til þess að Orkupakka þrjú verið hafnað.

Ég leyfi mér að visa til röksemda sem fram koma í áliti samtakanna Orkan okkar en að því stend ég ásamt öðrum.


Í þessari stuttu umsögn vil ég leggja áherslu á félagslegar forsendur málsins og vara við því að einblína um of á þennan tiltekna pakka heldur skoða þá vegferð sem Evrópusambandið boðaði um miðjan tíunda áratug síðustu aldar um markaðsvæðingu raforkunnar. Alltaf hefur legið ljóst fyrir hvert vegferðinni er heitið og eru orkupakkarnir svokölluðu aðeins vörður á þessari leið sem mun enda í samræmdu evrópsku raforkukerfi sem starfar á markaðsvísu undir miðstýðru eftirliti.

Markaðsvæðing raforkunnar og vatnsins hefur verið óvinsæl í Evrópu eins og einkavæðing grunnþjónustunnar almennt. Við svo búið hefur verið brugðið á það ráð að skera pylsuna niður í sneiðar eða pakka og hefur viðkvæðið þá verið hið sama: Þetta er ekki verri biti en sá fyrri. En það er lokamarkið sem þarf að horfa á – vegferðina alla - og það er markaðsvæðing og í kjölfarið einkavæðing þessa geira. Samhliða markaðsvæðingunni er síðan ætlunin að tryggja hlut almennings með neytendavernd og refsingum ef samkeppnisskilmálum er ekki fullnægt. Með öðrum orðum allt traust er sett á markaðinn og mekanisma hans.

Þau okkar sem andvíg voru þessari þróun lögðust gegn samþykkt fyrsta og annars orkupakka og þykir mér ekki síður rökrétt að leggjast gegn samþykkt þessa pakka svo og þeirra sem fylgja í kjölfarið.

Smám saman missum við sem samfélag forræðið yfir orkunni, auðlindum og vinnslu, og mun gangverk marðaðarins stýra för, enda talað fyrir málinu á þann veg af hálfu ráðherra og á vef Stjórnarráðsins.

Þegar bent hefur verið á að hin miklu fyrirheit um lækkun orkuverðs hafi ekki skilað sér við fyrri pakka er okkur sagt af hálfu stjórnvalda að “söluhluti” raforkuverðsins hafi ekki hækkað og aðrir þættir hljóti að lækka með komandi samkeppni!

Haft hefur verið á orði í umræðunni á Alþingi að utanaðkomandi þrýstingur á orkugeirann komi til með að verða “hagrænn en ekki samkvæmt erlendu valdboði.” Þetta er mergurinn málsins. Hið erlenda valdboð gengur út á að markaðsvæða þennan geira, tengja hann lögmálum framboðs og eftirspurnar. Ég tel að tryggja eigi hag almennings í gegnum eignarhaldið en ekki í gegnum markaðinn fyrir tilstilli tilheyrandi eftirlitsstofnana, þ.e. þeirra sem sinna samkeppniseftirliti og neytendavernd.

Ég heiti á alla félagslega þenkjandi alþingismenn að taka höndum saman við öll þau sem nú vilja sporna gegn þessari óheillaþróun. Ef þau sem áður studdu málið telja að nú stefni að þeirra mati í ófyrirséð óefni þá ber að taka því fagnandi.  

Með markaðsvæðingunni er verið að byggja inn í kerfið hvata sem eru varasamir: Að virkja sem mest, fyrir sem mestan arð.

Enn eigum við megnið af fyrirtækjum og stofnunum í orkugeiranum – þar erum við á öðru róli en Evrópa. Það verður hins vegar ekki lengi ef þessi vegferð verður ekki stöðvuð með öllum ráðum – nú þegar færi gefst.

Iðnaðarráðherra hefur sagt – eftir nokkra opinbera gagnrýni - að ekki standi til að einkavæða raforkukerfið – en bætir við að ekki sé hægt að skuldbinda framtíðina. Það kann að vera rétt að ekki eigi að selja alveg í bráð en það er hægt að auðvelda sölumönnum lífið en líka torvelda. Nú segist ríkisstjórnin vilja kaupa hlut orkufyrirtækjanna (sem við eigum sjálf) í Landsneti (sem við eigum sjálf). Þar með er það framkvæmt sem undanþága var veitt fyrir á sínum tíma. Þetta er gert á þeirri forsendu að rétt sé að ríkið eigi alla vega Landsnet. Gott og vel. En þar með yrði uppbrot og einkavæðing á Landsvirkjun auðvelduð. Þetta er hið stóra samhengi hlutanna og verður þriðji Orkupakki ekki slitinn úr því samhengi fremur en hinir fyrri.
Ögmundur Jónasson

 

 

 

 

 

Fréttabréf