Fara í efni

ÍSLAND OG FILIPPSEYJAR: HUGREKKI?

Mér er minnisstætt samtal við konu frá Filippseyjum sem ég átti fyrir ekki svo ýkja löngu. Hún starfar fyrir alþjóðaverkalýðshreyfinguna í Genf og er barátta fyrir mannréttindum einkennandi fyrir þankagang hennar. Nema þá helst hvað varðar hennar ættjörð.

Við spjölluðum margt: “Hvers vegna kjósa Filippseyingar annan eins drullusokk og ofbeldismann sem forseta lands síns?”, spurði ég.

Þögn.

Svo svar: “Það hlýtur að vera einhver ástæða.”

Ég: “Hann hefur stært sig af því að að hafa sjálfur hent meintum eiturlyfjasölum út úr flugvélum og þannig myrt þá köldu blóði.”

Svar: “Hann var borgarstjóri og þótti hafa haft árangur í stríðinu við mafíuna. Þess vegna hefur hann fylgi.”

Ég: “En hann er ofbeldismaður og fantur! Hann beitir andstæðinga sína yfirgangi og ofbeldi. Hann virðir mannréttindi að vettugi! ”

Aftur þögn.

Svar: “ Ef þú ættir bróður sem ánetjaðist eiturlyfjum, hann gengi síðan mafíunni á hönd og hann síðan myrtur. Áður hefði mamma þín og pabbi verið myrt svo bróðir þinn velktist ekki í vafa um hver alvara væri að baki hótunum um skilyrðislausa hlýðni. Öll fjöskyldan myrt. Litir þú þá ekki á þetta sem stríð og að þú ættir að standa með foreldrum þínum og litla bróður þínun og þá kannski líka þeim sem væru þar í liði?”

Ég gat mér til um hver fjölskyldan var sem vísað var til.
Nú varð þögnin mín.

Íslendingar eru sagðir hugrakkir að fordæma forseta Filippseyja. Auðvitað á að gera það. En samhengið skiptir máli. Sjálfum finnst mér mjög svo rómuð framganga Íslands á vettvangi mannréttindamála ekki bera vott um hugrekki eins og af er látið. Heldur þvert á móti sé þetta afvegaleiðing af hálfu þeirra sem þora ekki að taka afstöðu gegn ofbeldi sem þau sjálf bera ábyrgð á. Hér visa ég að sjálfsögðu til hernaðarbandalagsins sem Íslendingar segja vera hornstein að frelsi sínu og velsæld! Ætli það síðarnefnda eigi ekki best við, við munum Íslandsklukkuna. Þar var valið á milli þess að vera barinn þræll eða feitur þjónn.

Á meðan ríkisstjórn Íslands styður NATÓ og ofbeldi af hálfu aðildarríkja þess bandalags á heimsvísu en sér ekki ástæðu til eða þorir ekki að rísa undir eigin ábyrgð þá gef ég lítið fyrir gagnrýni beint að fjarlægum heimshornum. Allir vita að litla þæga hvutta er heimilt að gagnrýna Saúdí Arabíu og Filippseyjar!  

Í þessu samhengi ber slíkt ekki vott um hugrekki heldur hugleysi.