MÁ BJÓÐA ÞÉR UPP Á SKYR?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.08.19.

Eðlilega hafa þeir sem fjárfest hafa í ferðamennsku, stofnað þjónustufyrirtæki, reist hótel, opnað veitingastaði eða gefið út upplýsingarit, áhyggjur af því hvað ætla megi að framtíðin beri í skauti sér. Mikið er í húfi.

Mín ágiskun er sú að straumur ferðamanna til Íslands muni ekki réna heldur aukast þegar til lengri tíma er litið.

Hví ræð ég að svo verði?

Í fyrsta lagi á drjúgur hluti mannkyns eftir að verða á faraldsfæti, sennilega í vaxandi mæli, þrátt fyrir að umhverfiskröfur kunni - einnig í vaxandi mæli - að verka gegn eldsneytisfreku flugi, akstri og siglingum.

Í öðru lagi verður Ísland, um ókomna framtíð sem til þessa, segull á ferðamenn með sinni óviðjafnanlegu náttúrufegurð.

Í þriðja lagi munu innviðir ferðaþjónustunnar halda áfram að styrkjast, aðkomufólk því leitt inn í sífellt fjöbreyttari og eftirsóknarverðari afþreyingu, og það sem mest er um vert; lögð verður meiri rækt við það sem sérstakt er fyrir Ísland.

Við þekkjum það af eigin reynslu þegar við ferðumst til annarra landa, að við viljum sjá það sem héruð, borgir og bæir státa helst af, það sem er einkennandi, sérstakt, og helst betra en gerist annars staðar.  

En það er í þessu eins og öðru að annað hvort vill verða of eða van. Hingað er fólki boðið til að kynnast víðernum og kyrrð. Og svo þegar þetta tekst og ferðamennirnir streyma inn í hin rómuðu víðerni þá er kyrrðin þar að sjálfsögðu úti.

Öllu eru takmörk sett.

Þannig er því einnig varið með eðalhráefnin matarkyns, villilaxinn, vatnasilunginn og íslenska lambið.  Það hefur sýnt sig að þennan mat kunna aðkomumenn vel að meta ekki síður en við sjálf. Þeir kunna að meta skyr í eftirrétt í Lónkoti með bragði úr bláberjum úr Sléttuhlíð, silung úr Mývatni, nýdreginn þorsk úr sjó og hrygg af lambi sem líkt hefur verið við villibráð eftir að féð hefur hlaupið sumarlangt um brekkur og grundir. Þetta þykir sérstakt fyrir Ísland.  

Fólk sem að jafnaði borðar ekki lambakjöt heima fyrir pantar það á diskinn á veitingastaðnum á Íslandi. Ef innfluttir lambahryggir, sem forsvarsmenn innflutningsverslunarinnar vilja nú ólmir fá að flytja inn, rata á matarborðið á Holti, þá vona ég að það verði látið fylgja með sögunni að hér sé ekki verið að bjóða upp á íslenskt villilamb heldur eitthvað allt annað. Annað væru vörusvik. Og það eru vörusvikin sem gætu grafið undan ferðaþjónustunni; þau eru nefnilega varasöm, ekki sérstaðan, hún er styrkurinn.  

“En hvað á ég þá að segja við Bretann sem vill beikon með egginu í morgunmat”, spurði hótelhaldari mig þegar við ræddum innflutning á kjöti en hann vildi fá að flytja inn sitt beikon þegar innlend framleiðsla annaði ekki eftirspurn, og lambakjötið líka.

Ég var ekki reiðubúinn að svara honum eins og hann helst vildi svo mér datt ekki í hug annað en að stinga upp á því að hann spyrði hvort ekki mætti bjóða upp á egg og síld eða þá skyr.

Þetta þótti forpokað svar.

En er það svo?

Ekki held ég að Englendingnum, sem hingað var kominn í leit að sérstöðu Íslands, hafi þótt tilboðið slæmt og þaðan af síður hinni ungu sænsku  baráttukonu, Gretu Thunberg, sem nú fer fyrir ungmennafjöld á heimsvísu og berst fyrir aðgerðum til verndar umhverfinu. Ég gef mér að hún, og þau sem eru sama sinnis, vilji gera nærumhverfið sem sjálfbærast í matvælaframleiðslu sem þá væntanlega þýðir að við hættum að flytja naut, svín og kindur flugleiðis og sjóleiðs svo færa megi upp á matborð í fjarlægum heimshornum.

Áhugamönnum um innflutning á kjöti gæti verið að tæmast tímaglasið.

Fréttabréf