Fara í efni

UM FLOKKSRÆÐI Á ALÞINGI

Forseti Alþingis skýrði frá því úr forsetastóli við þingsetningu í dag að ákveðið hefði verið að banna andsvör við ræðum þingmanna við ræðum þingmanns úr eigin flokki.

Hefur þetta verið hugsað til enda?

Ég leyfi mér að spyrja hvort þingmenn séu ekki þegar allt kemur til alls á eigin vegum fremur en vegum eigin flokks.

Þannig geta þingmenn sagt sig úr flokkum og eru auk þess frjálsir að ganga gegn samflokksmönnum sínum.

Það hefur oft gerst en oftast verið umdeilt.

Annars vegar hefur þá verið á það bent að þingmenn séu kosnir á forsendum flokka, stefnu þeirra og samþykkta, og eigi þess vegna að lúta ákvörðunum þeirra.

Hins vegar er sagt á móti að þegar flokkar víkja frá stefnu sinni, stefnu sem boðuð var fyrir kosningar, þá hljóti að vera til eitthvert siðferði sem geri flokkslínuna að engu.

Fullgilding á markaðsstefnu Evrópusambandsins í orkumálum er nýlegt dæmi um þetta. Þar gekk atkvæðagreiðsla stjórnarþingmanna þvert á stefnu og /eða flokkssamþykktir flokka þeirra.

Og nú þegar endurvekja á umræðu um siðanefnd Alþingis mætti skjóta þessu atriði inn í vinnu væntanlegrar enduskoðunarnefndar, nefnilega að hugleiða þann þáttinn sem snýr að þingi og þjóð og spyrja um eftirfarandi:

Þegar Alþingi gengur gegn yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar (samkvæmt margendurteknum skoðanakönnunum) eins og gerðist í orkumálinu, hvorn á þá að skamma, meirihluta þjóðarinnar eða minnihlutann á Alþingi sem ekki vill láta hlusta á rödd hennar?