Fara í efni

HVERT SÆKJA TARZAN OG JANE ÍSLENSKRA STJÓRNMÁLA FYRIRMYNDIR?

Varla leikur vafi á að enginn íslenskur stjórnmálamaður toppar þau ráðherrana, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur og Kristjan Júlíusson, þessa vikuna. Þau hafa gert það sem alla hægri sinnaða stjórnmálamenn langar til að gera: af-regluvæða, nema úr gildi reglugerðir.  

Þjóðfélagsþegnarnir eiga tvenns konar varnir gegn ásælni fjármálabraskara. Í fyrsta lagi að eignarhald á mikilvægum atvinnutækjum séu hreinlega í eign og undir stjórn almennings. Í öðru lagi að settar eru reglur um hvernig komið skuli fram á hinum opna markaði.

Auðvitað úreldast reglur og þarf þá að skipta þeim út fyrir betri reglugerðir og stundum eru settar reglur sem klárlega mega missa sig, eru íþyngjandi án nokkurs ávinnings fyrir nokkurn aðila.

Afreksverk þeirra Tarzans og Jane íslenskra stjórnmála í vikunni var þó ekki að afnema einhverjar tilteknar reglugerðir heldur fara að vilja OECD, vinnustofu markaðshyggjunnar á alþjóðavísu, og einfaldlega af-regluvæða.

Kristján Þór sagði þær vera yfir þúsund reglugerðirnar sem nú færu á haugana og gott ef þær höfðu ekki verið viktaðar, væntanlega upp á seinni tíma samanburð. Þórdís Kolbrún hefur áður sagt okkur frá sinni pólitísku sýn, að hlutverk sitt væri að “passa að ríkið sé ekki fyrir.” Enda væru umsvif hins opinbera “kæfandi” og “skila engu.”

Við sem héldum að stjórnmálamenn væru kosnir til að hafa uppbyggjandi áhrif til góðs, en líti ekki á það sem hlutverk sitt að halda ríkinu í skefjum svo fjármálabraskarar geti farið sínu fram.

En til að taka af öll tvímæli um að margt regluverk þarfnast endurskoðunar þá ætla ég að trúa lesendum fyrir því að ekki mun ég mæta í útför Samkeppnisstofnunar – fari hún fram; þeirrar stofnunar sem sektaði Bændasamtökin fyrir að hafa stuðlað að ólöglegu samráði bænda með því að skapa þeim vettvang á þingi sínu að ræða verðlag landbúnaðarvara! Enda Samkeppnisstofnun alla tíð sérstaklega uppsigað við allt sem minnir á samvinnu og samvinnurekstur. Gott ef sektin nam ekki þrjátíu milljónum króna.

Annars var erindið með þessum línum að benda þeim lesendum sem ekki hafa séð, að hér á síðunni, í dálkinum Frjálsir pennar, bendir Kári á hvar þau Tarzan og Jane vikunnar fundu fyrirmyndir sínar um aðferðina að slá pólitíska hægri keilu: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/kari-skrifar-tvaer-ljosmyndir-og-einfoldun-regluverksins