ÞJÓÐIN GÆTI HÓFS Í VEIKINDUM

Landspítali.png

Stjórnmálamenn gagnrýna stjórnendur Landspítalans fyrir að halda sig ekki innan fjárlaga. Ekki er annað að heyra en að þeim finnist reiði sín vera réttlát. Meira að segja svo mjög að þeim sé óhætt að setja svoldinn hneykslunartón í orð sín. Muna greinilega ekki að sjálfir hafa þeir hækkað fjárframlög til eigin starfsliðs um mörg hundruð milljónir. Þá voru allir þingmenn sammála. Enginn hallarekstur á Alþingi.

Fjölmiðlafólk tekur við boltanum frá þingmönnum og étur upp eftir þeim hvernig standi á hallarekstri spítalans eins og um væri að ræða fyrirtæki sem sýni óráðsíu.  

Stjórnarmenn sjúkrahússins hafa svarað skýrt (án þess þó að séð verði að svarið heyrist inn á ritstjórnir fjölmiðla): Það er vegna þess við höfum enn ekki náð vopnum okkar eftir niðurskurðinn upp úr aldamótum og síðan vegna reiðarslagsins í kjölfar efnahagshrunsins. Okkur hefur aldrei verið gert kleift að rísa á fætur!

En nú leyfi ég mér að spyrja, er það ekki þetta svar spítalans sem fjölmiðlamenn þurfa að kanna? Ég hef grun um að eftir þá könnun væri eðlilegt talið að snúa dæminu við og spyrja stjórnmálamennina: Hvernig stendur á því að þið skammtið Landspítalanum of naumt ár eftir ár? Hvernig stendur á þessari skekkju ykkar?

Og þjóðina mætti svo spyrja í framhaldinu: Hvers vegna veikist þú þjóð umfram heimildir fjárlaga? Getið þið landsmenn góðir ekki séð sóma ykkar í að veikjast í samræmi við fjárheimildir Alþingis?

Fréttabréf