Fara í efni

ISAVIA: ER ENGINN Í MARKINU?

Í nýliðinni viku skýrðu stjórnendur ISAVIA, sem heldur utan um flugvellina í landinu, að ákveðið hefði verið að skipta starfesminni upp og aðgreina Leifsstöð frá völlunum sem sinna innanlansfluginu. Áður hafði forstjórinn lýst áhuga á að fá erlenda fjárfesta inn í reksturinn.

Þetta voru að sjálfsögðu stórfréttir og vofeiflegar fyrir innanlandsflugið – og allan almenning!

Vitað er að starfsemin á alþjóðaflugvellinum skilar gríðarlegum hagnaði sem fjárfestar vilja ná til sín. Margir landsmenn hafa á hinn bóginn velt því fyrir sér hvernig hægt væri að beina þessum fjármunum okkar inn í innanlandsflugið til að styðja það og styrkja alla innviði þess. EES truflar þá viðleitni að sjálfsögðu, eins og fyrri daginn, með markaðskröfum sínum og banni við stuðningi, “niðurgreiðslum” eins og það heitir víst. Skotar og Norðmenn hafa glímt við að rétta af þennan gamalkunna heimasmíðaða EES-halla sem er á kostnað lýðræðis og hagræðis fyrir samfélagið en fjármagnsöflum í hag.

Við stóðum held ég flest í þeirri trú að það fólk sem falið hefur verið að gæta hagsmuna okkar væri að íhuga leiðir af þessu tagi.

A daginn hefur hins vegar komið að svo er ekki. Nú stendur nefnilega til að undirbúa innkomu fjárfesta, og svo ég vitni í grein sem ég sendi inn til birtingar í helgarblaði Morgunblaðsins, þá segir þar að nú sé “verið að gefa þessum aðilum fyrir markið. Flugrekstri skal skipt upp. Alþjóðaflugvöllurinn mun blómstra en innanlandsflugið mun ekki lifa af í sérfélagi. Þá verður beðið um viðbótarfé fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri, Egilsstaði, Vestmannaeyjar, Húsavík, Höfn ... Þeirri beiðni verður hafnað enda ekkert aflögu í ríkissjóði – nema náttúrlega að við seljum hlut í Leifsstöð!
Sigurður Ingi Jóhannson, samgönguráðherra, virðist hafa séð þessa fléttu fyrir því þegar hann var spurður í sjónvarpi, hvort hann væri sammála fulltrúa Framsóknarflokkins í stjórn Isavia sem hefði greitt atkvæði gegn uppstokkun Isavia á framangreindum nótum, þá kvað hann svo vera. Hann vildi ekki einkavæða starfsemina.”

Varla hafði ég sent greinina frá mér þegar Sigurður Ingi, samgönguráðherra var aftur mættur í Sjónvarp, nú til að segja okkur þau tíðindi að ríkisstjórnin hefði fallist á að reisa nýja flugstöðvarbyggingu á Akureyri. Peningar væru tryggðir til reisa mannvirkið - eða leigja það af fyrirtæki sem gæti hugsað sér að fjárfesta með þessum hætti. Ráðherrann nefndi fjárfestingafélagið KEA í þessu samhengi.

En af hverju leigja? Það er dýrara fyrir skattgreiðendur þegar til lengri tíma er litið. Til skemmri tima litið lítur leigan vissulega betur út í bókhaldinu. Svo náttúrlega gleður þetta fjárfesta. Um þetta var ekki spurt í fréttatímanum. Þó eiga að kvikna viðvörunarljós þegar einkaframkvæmd er annars vegar. Ég hélt að við værum komin það langt!

En nú leyfi ég mér að stinga upp á því að ráðherrar verði spurðir um eftirfarandi:

  1. Bjarni, fjármálaráðherra, verði spurður hvort þessi áform séu að hans undirlagi.
  2. Sigurður Ingi, samgönguráðherra, verði spurður hvernig á því standi að hann segi í einum fréttatíma að einkavæðing sé ekki á dagskrá en komi svo fram í næsta fréttatíma til að skýra okkur frá plönum um einkaframkvæmd.
  3. Katrín, forsætisráðherra, verði spurð hvernig á því standi að enginn sé í markinu fyrir hönd almennings.