LÁTUM HRISTA UPP Í OKKUR

safnahúsið.PNG
Loftslagsmál eru ekki mitt sérsvið en ég hlusta á varnaðarorðin. Það er frekar að ég skilji plastið.

Á úthöfunum hafa verið að hlaðast upp plastflákar, sá stærsti sjö sinnum stærri en Ísland. Svo er allt hitt plastið, í agnarögnum í hafinu og komið inn í meltingarveg sjávardýra og þaðan að sjálfsögðu í okkur.

Og nú er talað um þörf á að lýsa yfir neyðarástandi vegna þessa tilræðis okkar við Móður Jörð. Kallað er á aðgerðir.  En hvaða aðgerðir?

Í fjölmiðlum lýsa sömu stjórnmálamenn og tala um neyðarástand og að mengun jarðar sé mál málanna, yfir áhyggjum ef hagkerfið heldur ekki áfram að þenjast út, hvað þá ef hagvöxtur stöðvast. Þá þurfi að endurræsa vélarnar svo hægt verði að setja í fimmta gír.

Í sama fréttatíma í liðnni viku var sagt frá því með útfararröddu að 11 þúsund vísindamenn hefðu nánast kveðið upp dauðadóm yfir lífríkinu. Tímaglasið væri að tæmast. Næst var sögð sú gleðifrétt að flugfélögum væri aftur að fjölga á Íslandi þannig að ekki þyrftum við að halda aftur af okkur í háloftaferðum.
Enn ein fréttin sagði frá ferðum forsetans – þær væru nokkuð margar – en vel að merkja, hann kolefnisjafnaði með því að moka ofan í skurð eða hola niður hríslu fyrir hverja ferð. Og þessar hríslur – syndaaflausnarbéf samtímans – auglýstu síðan olíufélög að fréttum loknum og hvöttu okkur þar með til draga hvergi af okkur á vegunum.

Fred Magdoff, prófessor í jarðvegsfræði við Vermontháskóla í Bandaríkjunum, hefur skrifað mikið um þessi efni. Hann segir að nú þurfi að velja á milli lífs og dauða, hvorki meira né minna. Hagvaxtarknúið hagkerfi kapítalismans verði að víkja fyrir nýrri hugsun!

Eru þetta ekki öfgar? Ekki ef málið raunverulega snýst um líf og dauða. Þá liggja öfgarnar í kerfi sem leiðir okkur í dauðann en varla í hugsun sem tryggir okkur líf. Fred Magdoff heldur fyrirlestur í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík klukkan 12 á laugardag.
Látum hrista upp í okkur. 

 

Fréttabréf