SVEINN OG BJÖRK


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 09/10.11.19.
Það er augljóst hvað það er sem stýrir heiminum. Hagnaðarknúinn kapítalismi heitir vélin.  Bílstjórarnir heita Trump og Pompeo, Merkel og Macron. Hjálparsveina og meyjar er svo víða að finna. Það lið stendur okkur nær.

Sjaldan hefur komið eins vel í ljós og nú nýlega hvernig hagsmunir stýra för þegar stórveldin eru annars vegar.

Trump hafði lofað kjósendum sínum að draga bandarískt herlið frá Mið-Austurlöndum. Hann kvaðst vilja standa við það loforð.

En hvað með loforð gefin Kúrdum, var þá spurt, hafa Bandaríkjamenn ekki sagst ætla að vernda þá, hörðustu andstæðinga ISIS-óværunnar?

Við höfum engar sérstakar skuldbindingar gagnvart Kúrdum, svaraði Trump staffírugur, að bragði, eða hvar voru Kúrdar þegar innrásin var gerð í Normandí í heimstyrjöldinni síðari?

Ha? Við þessu átti að sjálfsögðu enginn svar. Svo var náttúrlega rifjað upp að Bandaríkjamenn höfðu stutt ISIS og skylda hópa í Sýrlandi og einnig Írak þegar það var talið henta eða þar til þeir fóru að ná olíulindum á sitt vald, þá fyrst var snúið við blaðinu.

Skýringin á þessum viðsnúningi var svarta gullið, olían, eldsneyti kapítalismans. Herveldi hefur skipt um gír af minna tilefni! Og nákvæmlega það var gert og meira að segja urðu nú örar gíraskiptingar. Eftir að Bandaríkjaforseti hafði lýst yfir heimkvaðningu hermanna frá Norður-Sýrlandi, við nokkur mótmæli innan úr hagsmunagæsluvélinni, bætti forsetinn því nú snarlega við að áfram yrði bandarískur hervörður við olíulindirnar, að sjálfsögðu!. Og nú urðu allir glaðir í stóru olíufyrirtækjunum og ríkisstjórnum þeirra í Washington og fylgiríkjunum í NATÓ. 

Eftir er hins vegar ýmsum spurningum ósvarað. Hvernig almenningi í Norður-Sýrlandi muni reiða af með grimman innrásarher Tyrkja yfir sér og allt um kring? Hann hefur verið sakaður um að beita efnavopnum. Fáir sýna slíkum ásökunum áhuga.

Eða hvað? Er það ekki þetta sem almenningur vill fá að vita? Hefur ekki hinn almenni maður áhuga á að réttlæti sé framfylgt í heiminum?

Þótt gangvirki kapítalsmans stýri nú heiminum þá má breyta því. Ástæðan fyrir ofsóknunum á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks, er einmitt þessi: Með því að afhjúpa stríðsglæpi stórvelda, eins og Wikileaks hefur gert, má sveigja heiminn inn á farsælli brautir og réttlátari.

Til þess þarf mikla öldu fjöldahreyfingar. Og til að koma henni af stað þarf gerendur, fólk sem hreyfir við okkur með orðum sínum og gjörðum. Þetta tvennt - orð og athafnir - verður að fylgjast að. Og einu má ekki gleyma, eldmóði og verkum þarf að fylgja staðfesta – óendanleg staðfesta.

Þess vegna kallaði ég þau upp í fyrirsögn þau Svein Rúnar Hauksson og Björk Vilhelmsdóttur. Þau þarf ekki að kynna á annan hátt en að minna á að í áratugi hafa þau sameinað þetta allt í baráttu sinni fyrir mannréttindum í Palestínu. Þar hafa farið saman, orðin, gjörðirnar og staðfestan.

Öðru hvoru bregður þeim fyrir í fréttum. Boðskapurinn alltaf sá sami, að vekja okkar til vitundar um nauðsyn þess að rísa upp gegn ranglæti þar sem það viðgengst, þar sem mannréttindin eru fótum toðin.

Um leið og við þökkum fyrir okkar Sveina og Bjarkir þurfum við að horfa víðar. Við eigum ekki að láta það gerast með þegjandi þögninni að stofnandi fréttaveitunnar, sem upplýsti um stríðsglæpina í Írak, Afganistan og Líbíu og enn víðar, verði framseldur til Bandaríkjanna frá Bretlandi og dæmdur þar til 175 ára fangelsisvistar. Upp á það hljóðar ákæran á hendur Julian Assange.

Fylgjumst með hans máli því hans mál er mál okkar allra.  

 

 

 

Fréttabréf