ÞEGAR ÁRNI STEINAR ÞÓTTI ÓGNA KVÓTAKERFINU
Hverfum afur til ársins 2002.
Sjómannadagurinn skyldi haldinn hátíðlegur á Akureyri sem annars staðar á landinu í byrjun júní.
Sjómannadagsráð hafði farið þess á leit við Árni Steinar Jóhannsson, fyrrum formann Þjóðarflokksins, síðar í framboði fyrir Alþýðbandalag og óháða og þegar hér var komið sögu einn af hestu forsvarsmönnum Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, talsmaður VG í sjávarútvegsmálum á þessum tima.
Árni Steinar hafði verið umhverfisstjóri Akureyrar í um 20 ár og mótað bæinn. Sem slíkur naut hann mikillar virðingar. En jafnframt óvildar af hálfu þeirra sem féll ekki hve staðfastlega hann gagnrýndi fiskveiðistjórnunarkerfið.
Svo fór að forstjórar Útgerðarfélags Akureyra og Samherja fengu því framgengt að Árna Steinari var meinað að stíga í ræðustól en í stað hans var fengin Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra. Hún sagði í ræðu sinni að nóg væri komið af gagnrýni í kvótakerfið.
Þá skrifaði ég eftirfarandi á þessa vefsíðu:
PENINGARNIR TALA - AÐRIR SKULU ÞEGJA – EÐA HVAÐ?
Alþingismanni er boðið að tala á Sjómannadaginn á Akureyri. Þingmaðurinn er Árni Steinar Jóhannsson talsmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs á Alþingi í sjávarútvegsmálum.
Í vetur leið kynnti hann stefnu flokksins þar sem meðal annars er lagt til að núverandi kvótakerfi verði fyrnt á næstu tuttugu árum. Fyrir hönd VG setti þingmaðurinn fram ítarlegar tillögur um hvernig standa megi að málum, hvernig hagur byggðarlaganna verði best tryggður, hagur sjómanna og hagur fiskvinnslufólks.
En látum þessar tillögur liggja á milli hluta að sinni að öðru leyti en því að þær þykja ógna þeim aðilum sem hafa verið að sölsa undir sig sameign þjóðarinnar, braska með hana á milljarðavísu. Alla vega höfðu fulltrúar stórútgerðarinnar samband við Sjómannadagsráð á Akureyri og höfðu í hótunum. Yrði Árni Steinar Jóhannsson ræðumaður þá yrði eitthvað lítið um fjárhagslegan stuðning Samherja og Útgerðarfélags Akureyrar við hátíðahöldin.
Árna Steinari skipt út fyrir Valgerði
Í framhaldinu er Árna Steinari Jóhannssyni tilkynnt að nærveru hans verði ekki óskað við hljóðnemann á Sjómannadaginn. Ákveðið hafi verið að finna einhvern útgerðinni þóknanlegri. Síðar er tilkynnt að ræðumaður verði Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra. Í fjölmiðlum um kvöldið kom fram að hún hefði sagt að tímabært væri að hætta að gagnrýna kvótakerfið.
Hér höfum við fengið innsýn í íslenskt samfélag, hvernig auður og vald fléttast saman og hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar ganga erinda auðvaldsins. Menn stýra því í krafti auðs og valda hvaða mál fást tekin á dagskrá og hverjir fá að tjá sig. Fyrst að reka má einstaklinga sem leyfa sér að gagnrýna Landssímann, af hverju ættu útgerðarforstjórar þá ekki að geta rekið einn óþægilegan ræðumann?
Í raun er hér verið að vanvirða málfrelsið og þá lýðræðishefð sem við viljum búa við í landinu. Allir frjálshuga menn þurfa að sameinast um að vinda ofan af þessari óheillaþróun.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/peningarnir-tala-adrir-skulu-thegja-eda-hvad
Og viti menn, leiðari Morgunblaðsins var svohljóðandi hinn 4. júní 2002
DAGUR SJÓMANNA – EKKI ÚTGERÐARMANNA
Útgerðarmenn njóta tjáningarfrelsis eins og aðrir landsmenn. Forstjórum Útgerðarfélags Akureyringa hf. og Samherja hf. er frjálst að hafa skoðun á því, hvort val sjómannadagsráðs á Akureyri á ræðumanni á sjómannadaginn er heppilegt.
Útgerðarmenn njóta tjáningarfrelsis eins og aðrir landsmenn. Forstjórum Útgerðarfélags Akureyringa hf. og Samherja hf. er frjálst að hafa skoðun á því, hvort val sjómannadagsráðs á Akureyri á ræðumanni á sjómannadaginn er heppilegt. Þeir búa við það tjáningarfrelsi að geta lýst þeirri skoðun hvar sem er og hvenær sem er og við hvern sem er.
En tjáningarfrelsið er vandmeðfarið. Það er bæði óviðeigandi og ósmekklegt af forráðamönnum þessara tveggja útgerðarfélaga að lýsa þeirri skoðun við forsvarsmenn sjómannadagsráðs að Árni Steinar Jóhannsson, alþingismaður Vinstri-grænna væri ekki heppilegur ræðumaður á sjómannadegi á Akureyri. Þeir vita sem er að a.m.k. sumir meðlimir sjómannadagsráðs eru starfsmenn þeirra, sem munu hugsa sitt vegna athugasemda forstjóranna.
Afskipti útgerðarmannanna eru ekki við hæfi en það á líka við um viðbrögð forsvarsmanna sjómannadagsráðs á Akureyri. Sú ákvörðun þeirra að breyta um ræðumann vegna athugasemda forstjóra útgerðarfélaganna tveggja er fráleit. Hafi sú staðreynd, að útgerðarfélögin hafi borgað einhvern kostnað vegna hátíðahaldanna á sjómannadaginn, haft áhrif á þessa ákvörðun sjómannadagsráðs á Akureyri er það enn verra.
Sjómannadagurinn er hátíðisdagur sjómanna. Félagasamtök þeirra eru svo öflug, að þau eiga að geta greitt þann kostnað, sem til fellur vegna þessa hátíðisdags.
Sjómannadagurinn er dagur hins óbreytta sjómanns - ekki útgerðarfélaganna eða stjórnenda þeirra.
Háttsemi forstjóra útgerðarfélaganna á Akureyri að þessu sinni var daglegt brauð í samskiptum atvinnurekenda og launþega á Íslandi fyrir 100 árum. Henni hefur verið lýst í merkum bókmenntum. En það hefur áreiðanlega verið trú flestra Íslendinga að slík framkoma væri liðin tíð.
KVÓTAKERFIÐ MEÐ FRAMSELJANLEGUM OG VEÐSETJANLEGUM KVÓTA ER Á ÁBYRGÐ ALÞINGIS
Nú verður ekki lengur vikist undan aðgerðum sem tryggi sjávarauðlindina í höndum þjóðarinnar og í þágu byggðar í landinu!