Fara í efni

NÚ Í JÖKLI ÁÐUR Í SKESSUHORNI

Í vikublaðinu Jökli, sem dreift er um allt Snæfellsnesið, segir frá fyrirhugðum fundi um kvótann í Ólafsvík klukkan tvö á laugardag. Auglýsing um fundinn birtist í blaðinu, fréttatilkyninng og grein eftir mig þar sem ég spyr hvers vegna efnt sé til fundar í Ólafsvík um kvótann. Undarleg spurning? Að sjálfsögðu er hún það en samt er ágætt að spyrja og svara:

Kvótaólafsvík.JPG

http://www.steinprent.is/index.php/download_file/-/53/

HVERS VEGNA ÓLAFSVÍK?

Næstkomandi laugardag verður fundur í Ólafsvík á veitingastaðnum Skeri, undir yfirskriftinni, Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim. Þetta er fjórði fundurinn um þetta málefni og er stefnt að fundum víðar á landinu. Fundir í Reykjavík, Akranesi og Þorlákshöfn hafa verið fjölsóttir og hefur spunnist umræða sem í senn hefur verið upplýsandi og uppbyggileg og gefandi.

Auðlindin í vasa fárra

Af viðbrögðum við þessari umræðu sem nú er efnt til um kvótakerfið má tvennt vera ljóst: Annars vegar að almennt hefur fólk áhyggjur af afleiðingum kvótakerfisins eftir að sú breyting var gerð á kerfinu árið 1990 að heimilt varð að versla með kvóta, leigja hann og veðsetja. Hins vegar stendur upp úr vilji manna til að knýja á um grundvallarbreytingu á kerfinu. Fólk er búið að fá sig fullsatt af því að láta segja sér í lagatexta að sjávarauðlindin tilheyri þjóðinni allri en að í reynd sé hún komin ofan í vasa nokkurra stórfyrirtækja og eigenda þeirra. 

Ekki deilt um afleiðingarnar

Varðandi fyrra atriðið þá verður ekki um það deilt að kvótakerfið í núverandi mynd hefur valdið gríðarlegri byggðaröskun og misskiptingu og færa má rök fyrir því að ein höfuðorsök fyrir hruninu eigi rót sína í þessu kerfi. Undir aldamótin tóku smærri fyrirtæki að hrökklast út úr greininni, kvóti, óveiddur framtíðarafli var seldur og veðsettur og allt var þetta skuldsett inn í framtíðina. Þannig voru  færðir gríðarlegir fjármunir út úr sjávarútveginum og inn í heim fjárfestinga, ekki aðeins hér á landi heldur einnig - og ekki síður - út fyrir landsteinana. Þessi þróun varð hraðari eftir því sem aldamótin síðustu nálguðust og færðist enn í aukana á fyrstu árum nýrrar aldar. Samkvæmt athugunum skýrslu Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri jukust skuldir sjávarútvegsins þannig um 400 milljarða króna á árunum 1997 til 2008. Nettóskuldir íslensks sjávarútvegs voru um 90% af útflutningstekjum árið 1997, en voru komnar upp í 272% árið 2008. Þessi skuldsetning var til marks um það að fé var tekið að streyma út úr greininni, inn á önnur og óskyld mið.

Viljinn til breytinga

Varðandi hitt atriðið, viljann til breytinga, þá er hann að sjálfsögðu háður aðstæðum á hverjum stað og auk þess ekki hægt að alhæfa um hugsjónir og hagsmuni manna. Einhver varpaði til mín þeirri spurningu hvort ég teldi að í Ólafsvík og á Snæfellsnesinu yfirleitt, væri almenn óánægja með kvótakerfið, þar væru ýmsir sem fjárfest hefðu í þessu kerfi og ættu jafnvel mikið undir því að við kerfinu yrði ekki hróflað.
Ég svaraði því til að fundarstaðirnir væru ekki valdir á þessum forsendum, ekki leituð uppi óánægja manna, heldur réði hitt förinni að alls staðar þyrfi að taka þessa umræðu auk þess sem meiningin væri náttúrlega að búa á Snæfellsnesi næstu fimm hundruð árin að minnsta kosti og þá þýddi ekkert að horfa á stundarhagsmuni manna á þessu augnabliki eða hinu, heldur hvað gagnaðist okkur best inn í framtíðina. Og svo skyldi enginn horfa framhjá því að kvótakerfið með heimildum sínum til sölu og veðsetningar væri fallvalt kerfi sem reynst hefði mörgum byggðarlögum illa svo ekki væri nú fastar að orði kveðið!
Eða hver hefði ímyndað sér að á Akranesi, sjálfum Skipaskaga, þar sem fyrir aðeins örfáum árum var full höfn fiskibáta og skipa, fiskvinnsla í landi og blómleg atvinnuskapandi starfsemi henni tengd, væru nú eftir tveir smábátar í höfninni en allt annað þurrkað út!

Þess vegna í Ólafsvík

Vilja menn þetta fyrir allt Ísland? Að sjálfsögðu ekki! Og ef ekki, þá þarf að knýja á um breytingar á kerfinu. Annars heldur Ísland áfram að brotna og sjávarbyggðirnar að veslast upp. Það eigum við ekki að láta gerast. Þess vegna segjum við kvótann heim! Þessi kraffa þarf að hljóma um allt land, að sjálfsögðu líka í Ólafsvík.

Í aðdraganda samsvarandi fundar á Akranesi laugardaginn 1. febrúar birti ég einnig grein til skýringar fundinum og fylgir hún hér að neðan.

skessuhrnsgrein.JPG
https://skessuhorn.is/adsendar-greinar/kvotann-heim/

KVÓTANN HEIM

Í þrjátíu ár eru Íslendingar búnir að ræða kosti og ókosti kvótakerfisins. Annars vegar sem fiskveiðistjórnunarkerfis og hins vegar sem hagstjórnartækis. Að hinu síðara hefur gagnrýni manna einkum beinst allar götur frá því sú lagabreyting var innleidd að heimilað var að versla með kvóta, leigja hann og veðsetja. Þetta gerði Alþingi árið 1990.

Nú er varla lengur deilt um afleiðingarnar. Þetta fyrirkomulag sem þarna var innleitt hefur valdið mikilli byggðaröskun, samþjöppun, misskiptingu og færa má rök fyrir því að ein höfuðorsök fyrir hruninu eigi þarna rót sína, nefnilega þegar óheyrilegt fjármagn var flutt út úr sjávarútvegi og inn í heim fjárfestinga og gróðabralls ekki aðeins hér á landi heldur einnig og ekki síður út fyrir landsteinana.

Í kauphöllinni í London og New York er mönnum slétt sama um hvað gerist á Flateyri eða Akranesi.

Þetta er breytingin sem hefur orðið á Íslandi og er enn að gerast fyrir augunum á okkur án þess að nokkuð sé að gert. Augu manna opnast þó alltaf betur og betur fyrir þessum veruleika og er það mín tilfinning að mikil undiralda sé að rísa í samfélaginu gegn þessu kerfi og þá jafnframt fyrir kerfi sem er byggðavinsamlegra og mannvinsamlegra.

Hafin er fundaherferð um landið undir fyrirsögninni „Gerum Ísland heilt á ný – kvótann heim.“ Hugsunin þarna að baki er sú að kvótakerfið í þeirri mynd sem við þekkjum það hafi brotið samfélagið og sé verkefnið að gera það heilt á ný. Kvótann heim þýðir síðan að tryggja þurfi að eignarhald á sjávarauðlindinni verði ekki bara orðin tóm heldur raunveruleg á borði. Kvótann heim þýðir einnig að færa þarf ráðstöfunarrétt og nýtingu auðlindarinnar  til sjávarbyggðanna víðs vegar um landið.

Oft heyrist því fleygt að við búum við besta fiskveiðikerfi í heimi og þá vísað til þess mikla arðs sem kerfið færi. Lykilatriði er að þá verði spurt hvert sá arður renni. Fari hann í vasa fárra en gagnist ekki öllum almenningi sem skyldi þá getum við varla gefið kerfinu ágætiseinkunn. Sjálft hugtakið arðsemi er varasamur vegvísir, nær væri að tala um ávinning og þá hvernig hann rati í maga þjóðarinnar allrar, til einstaklinga og fjölskyldna og til uppbyggingar á samfélagi okkar. Það gerir núverandi kerfi ekki sem skyldi.

Nú stendur til að efna til fundar á Akranesi í Gamla Kaupfélaginu, næstkomandi laugardag. Þar flytur Gunnar Smári Egilssson, blaðamaður, inngangserindi en til hans leitaði ég eftir að hafa fylgst um árabil með skrifum hans um kerfið og afleiðingar þess. Nálgun hans þykir mér í senn fræðandi og vekjandi enda nýstárleg um margt.

Ég leyfi mér að hvetja Skagamenn til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umærðu um þetta brennandi málefni sem Akranes þekkir svo vel af eigin raun. Fundurinn hefst klukkan tólf og stendur í tvo tíma.

Er hægt að breyta kerfinu, er það ekki orðið of seint?

Á Íslandi ætlum við að vera næstu nokkur hundruð árin að minnsta kosti. Atvinnuhættir eiga eftir að þróast og breytast í rás tímans. Við þurfum að vera opin fyrir því hvað best hentar okkur sem samfélag og þá einnig því lifríki sem við byggjum afkomu okkar á. Í þessu samhengi megum við aldrei verða fórnarlömb nauðhyggju.

Það er aldrei of seint að gera kerfisbreytingar. Hins vegar verða þær erfiðari ef við látum hefðina festa ráðstöfunarrétt sameiginlegra auðlinda okkar í höndum fárra einstaklinga í krafti auðvalds þeirra.