Á TÓNKEIKUM MEÐ JUDITH – MEÐ HJÁLP TÆKNINNAR

Judith.JPG

Ekki varð af því að við færum í dag til Baltimore héðan frá Bethesda, þar sem við Vala kona mín, dveljumst þessa dagana, til að heimsækja þau hjón Judith Ingólfsson og Vladimir Stoupel og soninn Alan, eins og til stóð. Hugmyndin hafði verið að slá saman í eitt heimsókn til þessarar frænku Völu og vinafólks okkar, og sækja konsert þar sem Judith kæmi fram. Af þessu gat ekki orðið vegna annarra áforma en þá kom tæknin til skjalanna því við gátum fylgst með tónleikunum á netinu. 

Judith er prófessor í tónlist við Johns Hopkins háskólann í Baltimore en Vladimir er eftirsóttur einleikari á píanó bæði vestanhafs og austan. Á dagskrá tónleikanna í dag voru tónverk eftir Beethoven. Ekki ætla ég að halda því fram að áhrifin hafi verið þau sömu á þessum stofutónleikum okkar og því sem tónleikagestirnir í Baltimore fengu að njóta. En við nutum engu að siður hverrar mínúntu.

Íslendingum eru þau af góðu kunn, Judith og Vladimir, því margoft hafa þau haldið tónleika á Íslandi. Margir muna eftir Judith frá uppvaxtarárum hennar en frá unga aldri sýndi hún mikla hæfileika og hefur hún hlotið fleiri verðlaun og viðurkenningar en flestir íslenskir tónlistarmenn hafa gert á ferli sínum.   

Fréttabréf