Fara í efni

ALMANNAHAGUR AÐ FÆRA KVÓTANN HEIM


Þetta er á meðal annars haft eftir mér í Jökli á Snæfellsnesi eftir fundinn í Ólafsvík um síðustu helgi:

“Það sem vakir fyrir okkur er vinsamlegt sjávarbyggðunum ...þegar við tölum um kvótann heim erum við að gera það í tvennskonar skilningi. Að tryggja eignarhald þjóðarinnar og fá kvótann heim til sjávarbyggðana, þar á meðal til sjávarbyggða á Snæfellsnesi … Það þarf að koma kvótanum í maga þjóðarinnar en ekki í vasa örfárra einstaklinga og fyrirtækja sem eru á góðri leið með að ná allri sjávarauðlindinni til sín. Það er eitthvað sem þarf að sporna gegn. Það eru hagsmunir allra að breyta kvótakerfinu og ég er bjartsýnn á að það muni gerast. Þetta gerist samt ekki af sjálfu sér.”

Á þessa efnisþætti er rétt að leggja sérstaka áherslu: Grundvallarbreyting á kvótakerfinu er í þágu samfélagsins alls en sú breyting mun þó ekki gerast af sjálfu sér. Samfélagið þarf að þrýsta á Alþingi þannig að breytt verði lögum frá 1990 sem heimiluðu að fiskveiðikvóti gæti gengið kaupum og sölum og handhafar hans, einstaklingar og fyrirtæki, gætu fénýtt, hann, verslað með hann og leigt hann í eigin ábataskyni.