Fara í efni

BURT MEÐ SPILAVÍTIN - ALLA LEIÐ - ALVEG BURT!

Vesaldómur rekstraraðila spilakassa og spilavíta á Íslandi ríður ekki við einteyming. Þeir láta sig engu skipta óskir aðstandenda spilafíkla, Félags áhugafólks um spilafikn og Neytendasamtakanna svo og formanna ASÍ og VR um tímabundna lokun spilakassa vegna sýkingarhættu af völdum kórónaveirunnar.

Og ríkisstjórnin þegir þunnu hljóði þótt skorað hafi verið á hana að fyrirskipa lokun.

Fjölmiðlar þegja líka flestir – ekki alveg allir. Þó er stöðugt rekið á eftir.

Hvað veldur?

Búið er að loka í Las Vegas.
Langt er síðan Pútín bannaði spilavíti vegna þess “heilsufarslega og félagslega skaða” sem þau væru völd að. Ekki veit ég hversu langvarandi það bann var.
En þetta sýnir að allt er hægt.
  
Ríkisstjórnin og Icelandair ræddu I vikunni um ábyrgð í hvors annars garð, fyrirtækis og þjóðar. Þetta var gert á neyðarfundi í byrjun viku - eins og stundum áður. Hugrenningartengsl létu ekki á sér standa þegar stórfyrirtæki leitar til ríkisvalds vegna samfélagslegrar ábyrgðarstöðu sinnar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/vilja-graeda-a-spilafikn

Hvað með Rauða krossinn? Skyldi hann hafa fylgst með umræðu kolleganna í Noregi sem m.a. varð þess valdandi að tekið var upp nýtt fyrirkomulag þar í landi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/raudi-kross-noregs-axlar-abyrgd-gagnvart-spilafikn

Hvað með Háskóla Íslands – skyldi sú stofnun vera tilbúin að skýra fyrir okkur ástæður niðurlægingar sinnar? Hvernig væri svolítið gagnsæi þar á bæ? Það er í tísku. Til dæmis með því að kenna einstök spilavíti sem rekin eru á vegum Háskólans við einstakar deildir. Upp á þessu hefur áður verið stungið og að þá til dæmis fái Siðfræðistofnun Háspennu á Hlemmi: https://www.ogmundur.is/is/greinar/sidfraedistofnun-fai-hlemm

Annars er þetta ekkert grin! Fólk er reitt yfir því að samtökum og stofnunum sem öllum þykir vænt um – eða vilja fá að láta sér þykja vænt um – séu settar í þá stöðu að níðast á sjúku fólki sjálfum sér til framdráttar. Við viljum frelsa Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Rauða kross Íslands og SÁÁ frá skömm sinni og fyrir Háskóla Íslands viljum við fá að hrópa húrra! https://www.ogmundur.is/is/greinar/hurra-fyrir-haskola-islands

Sem áður segir er mikinn fjölda greina um þetta málefni að finna hér á þessari heimasíðu. Hér má nálgast margar þeirra, þó ekki nærri því allar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/tekst-ad-hemja-spilavitis-djofulinn

Í gær vakti ég athygli á því að rekendur spilakassa og spilavíta hefðu ekki brugðist við áskorunum um tímabundna lokun vegna faraldursins sem nú geisar og hefðu Samtök Áhugafólks um spilafíkn í ljósi þess krafist þess að þau yrðu svipt leyfi: "Ekki virðast leyfishafar spilakassa hafa sómakennd til að bregðast við af ábyrgð og því þurfa yfirvöld að taka ábyrgð og loka öllum spilakössum tímabundið til að stemma stigu við smithættu! Ef ekki gengur að fá leyfishafa til að sýna ábyrgð og loka spilakössum strax meðan þetta hættuástand gengur yfir leggja Samtök áhugafólks um spilafíkn til að dómsmálaráðherra afturkalli leyfin tafarlaust!"

Undir þessa kröfu Samtaka áhugafólks um spilafíkn tek ég heilshugar! Nú er að koma á daginn að ekki dugir minna en að svipta rekstraraðila leyfum sínum. Slíkt er ábyrgðarleysi þeirra.

Íslandsspil þegir þunnu hljóði en nú hefur Háskóli Íslands brugðist við með því að segja að ekkert muni verða aðhafst umfram að hvetja til hreinlætis (eða með mínum orðum, spreyjaðu þig á meðan þú ert rændur!!!):Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ) hefur móttekið áskorun ykkar um að loka spilakössum í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í þjóðfélaginu vegna Covid-19 veirunnar.  Varúðarráðstafanir vegna Covid-19 hafa verið auknar til muna alls staðar í þjóðfélaginu, þrif aukin, sem og hreinlæti og hefur sérstökum tilmælum verið beint til rekstraraðila um hreinlæti. Meðan ekki hafa borist tilmæli, t.d. frá embættum sóttvarnarlæknis eða landlæknis verður ekki gripið til slíkra aðgerða.”

Hvað dvelur sóttvarnalækni?
Hvað dvelur ríkisstjórnina?

Og fyrst ég er farinn að hafa allt á hornum mér, þá hef ég eina minniháttar ósk til Íþrótta- og Ólympíusambandsins, Örykjabandalags Íslands, Ungmennafélags Íslands, Íþróttanefndar ríkisins, Knattspyrnusambands Íslands og Íþróttabandalags Reykjavíkur sem reka Getspá og Getraunir:
Væri til of mikils mælst að hvíla okkur ögn á auglýsingunni um Vinninginn heim! Eða hinni, “settu spennu í leikinn!”.  

Er ekki alveg nóg komið af þessu æsingatali um gróða í fjárhættuspilum?