FYRST Í GEGNUM VAÐLAHEIÐINA ÁÐUR EN LENGRA ER HALDIÐ OFAN Í VASA OKKAR?

Vaðalheiðargöng.JPG

Þegar fyrirsjáanlegt er að allt er að hrynja ítrekar samgönguráðherrann að hafist verði handa um stórframkvæmdir í samgöngum sem aldrei fyrr.
Hefur hann lýst því að sum stærstu verkefnanna muni byggja á því sem ráðherrann, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins kallar “samvinnustefnu”, og gefur þar með í skyn að samvinnuhugsjón síns flokks sé með því endurvakin.

Ný-samvinnustefnan ekki sama og sú gamla

Svo er að sjálfsögðu ekki. Samvinnuhugsjón þeirra Hriflu Jónasar, Eysteins og gömlu kaupfélagsmannanna þingeysku byggði á samvinnu í samfélagi. Samfélagið sem Sigurður Ingi horfir til er hópur sem á ekkert sammerkt með gömlu Framsóknarhugsjóninni. Nú á samvinnan nefnilega að ganga út á það eitt að stjórnvöld veiti fjárfestum aðgang að vösum vegfarenda sem krafðir verði um tolla. Með öðrum orðum samvinna niður í vasann – okkar.

Þegar hagsmunir ráða en ekki vitsmunir

Hvernig í ósköpunum ríkisstjórnin hyggst réttlæta þessa milliliði er vandséð nema að stjórnmálamennirnir telji sig aldrei þurfa að standa skil gerða sinna. Allt á þetta jú að vera inn í næsta þarnæsta eða þar-þar- næsta kjörtímabil. Eins og er að gerast með Vaðlaheiðargöng sem sett voru framfyrir í framkvæmdaröð samgönguáætlunar vegna þess hve sjálfbær eða sjálfborgandi þau yrðu gagnvart ríkissjóði - einhvern tíma í framtíðinni. Það var hvorki að tillögu þáverandi samgöngunefndar Alþingis né þáverandi samgönguráðherra, reyndar þvert á þeirra ráð. Þar urðu aðrir hagsmunir yfirsterkari.     

Boðið upp í sama dansinn

Í dálkinum Frjálsir pennar hér á síðunni víkur Grímur að Vaðlaheiðargöngum. Þða minnir á að þar fór flest á annan veg en fram kom í upphafi, langt út yfir það sem skýra má með erfiðleikum af völdum náttúrlegra þátta. Fjölmiðlar hafa aldrei sýnt því minnsta áhuga að rýna í þetta mál að heitið getur og efni væru til. Þó var það gagnrýnt á Alþingi á sínum tíma að fjárhagslegar forsendur þessa verkefnis, eins og þær voru fram reiddar, væru mjög misvísandi.
Ástæða þess að rétt er að minna á þetta er að nú skuli boðið upp í sama polkann á ný. Ráðist skal í stórfelldar fjárfestingar með aðkomu fjárfesta sem ætla sér góðan hlut, gott “kött”, eins og sagt er í bisniss.

Vítin til að varast

Í ljósi þessa ætti að rannsaka áætlanir og síðan endanlegar niðurstöður við fjármögnun stórframkvæmda og þá einkum jarðganga á liðinni tíð og þá sérstaklega utanaðkomandi aðkomu í anda ný-samvinnustefnu Framsóknarflokksins. Nærtækust eru þá Vaðlaheiðargöng en svo mætti líta á Héðinsfjarðargöng og fleira. Þarna er margt að læra, mörg víti til að varast.

Gulu stráin í Nauthólsvík viðráðanlegri

Kannski þykir fjölmiðlum þetta stórir bitar. Það er nokkuð til í því. Þetta er vissulega stærra en dönsku stráin við Reykjavíkurbraggann góða.
Síðan eru hinar hliðarnar. Nú er fyrirsjáanlegt að útstreymi úr ríkissjóði verður gríðarlegt vegna samdráttarins. Þegar er það orðið mikið og á eftir að verða meira. Í samdrætti er það vissulega sannfærandi að rétt sé að spýta í og ekki ætla ég tala niður þær framkvæmdir sem ráðherrann “gefur” okkur hverja á fætur annarri.
En allt á sinn tíma. Eru ekki einhver takmörk fyrir því hvað gerlegt er? Og þarf ekki að ræða inn í hvaða geira, og þá hvenær, eigi að spýta fjármunum í tugmilljarðavís?

Að endurlifa hið liðna

Staðreyndin er sú að samgönguframkvæmdir eru ekki mannfrekar. Það eru hins vegar heilbrigðisstofnanir og elliheimili, svo augljósustu dæmin séu tekin. En þar eru náttúrlega engir verktakar að þrýsta á. Allt er þetta eins konar endurminning, Déjà vu, frá eftirhrunsárunum.

Fréttabréf