Fara í efni

HINIR HÓGVÆRU OG MAÐURINN SEM ÞURFTI AÐ VERJA

Þessa dagana, frá því í gær og fram á miðvikudag í næstu viku, er ég staddur í Washingon, höfuðborg Bandaríkja Norður Ameríku. Þar var ég líka í nóvember síðastliðnum vegna rannsóknarverkefna sem kona mín sinnti og er nú að ljúka. 

Í nóvember þræddum við söfnin þegar færi gafst og dáðumst að því að þau voru almennt almenningi opin - gjaldfrjálst. Það er margt gott um BNA að segja. Ég hef stundum sagt að þar sé að finna það besta og það versta. https://www.ogmundur.is/is/greinar/margt-gott-i-ameriku

Við dveljumst í úthverfisborg Washington, Bethesta heitir hún. Þar er National Institutes of Health en einmitt þar sinnir kona mín verkum sínum. Og ég labba með, skil við hana við innganginn, og bíð hennar að afloknum vinnudegi.

Allt gengur þetta vel fyrir sig, kerfið svoldið svifaseint enda þykir þörf á mikilli öryggisvörlsu. Í dag keyrði um þverbak. Þegar ég nálgaðist afgirtar byggingarnar síðdegis hafði öllum götum verið lokað, tugir lögreglubíla á ferli, aragrúi vopnaðra lögreglumanna, gangandi fólk varð að bíða. 

Hvað hafði gerst? Hryðjuverk? Stórglæpamenn á ferð eða einhverjir með vafasöm áform og svarta samvisku? Hverja þurfti að verja fyrir almenningi eða var það öfugt, þurfti að verja almenning fyrir þeim?

Svarið kom síðar í ljós.

Donald Trump forseti var í kurteisisheimsókn í Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna.

Þannig að vangaveltur mínar voru ekki á rökum reistar.
Ekki alveg - eða hvað?

En þetta var semsagt um manninn sem þurfti að verja - eða verjast. En hvað með “hina hófsömu” sem vísað er til í fyrirsögn? “Hinir hófsömu” eru mjög á vörum stóru fréttastöðvanna hér vestanhafs í forkosningunum sem nú fara fram hjá Demókrataflokknum. Þetta eru milljarðamæringarnir sem berjast af aukinni heift gegn “sósíalistanum” ef þá ekki “kommúnistanum” Bernie Sanders. Þetta eru þeir núna helst Bloomberg og Biden. Báðir loðnir um lófana en sagðir fulltrúar hófseminnar: “The moderates.”

Það sem fréttamenn stóru fréttastöðvanna vilja vita er ekki einvörðungu hvort menn vilji heilbrigðisþjónustu fyrir alla, það hljóti margir að vilja en raunverulega spurningin hljóti engu að síður að vera sú hvort þetta sé yfirleitt hægt og hvort ekki sé vitlaust að velja frambjóðanda eins og Sanders sem sé eflaust velmeinandi en gæti farið með okkur öll fram af hengifluginu.

Með öðrum orðum, hvort barátta fyrir mannréttindum hljóti ekki að vera alveg út úr kortinu!???