HVER ÆTLAR AÐ STÖÐVA SPILAFÍKILINN VIÐ SUÐURGÖTU?

spilakassar 2.JPG

Á hádegi í dag (þá var þessi mynd tekin) hafði Háskóli Íslands ekki látið loka spilavítum sem hann rekur undir því tælandi heiti Háspenna. Önnur mun heita Spennistöðin.

Háskólahappdrættið vanvirðir þannig áskorun samtaka Áhugafólks um spilafíkn, Neytendasamtakanna, forseta ASÍ og formanns VR um að loka spilasölum og kössum á vegum happdrættisins tímabundið vegna COVID-19 veirunnar.
Sama gildir um aðra rekstraraðila sem standa að Íslandsspilum, það er Rauða krossinn, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og SÁÁ. Þessir aðilar fengu sams konar áskorun. Einhvers staðar mun hafa verið komið upp sprittbrúsum svo spilafíklar gætu úðað sig með spritti og fyrir vikið ótrauðir haldið áfram að láta ræna sig.

Það er dapurlegt að ánetjast spilafíkn. Það er hins vegar sjúkdómur sem enginn þarf að skammast sín fyrir. Öðru máli gegnir um hina tegundina af spilafíklum, þá sem seilast ofan í vasana hjá þessu veika fólki.

Þetta hlýtur að verða rætt í ríkisstjórn! Væri ekki ráð að menntamálaráðherra hringdi í rektor Háskólans, eða dugar ekkert annað en að lögreglustjóri taki það að sér? Ég legg til að byrjað verði á símtali frá sóttvarnarlækni. Einhver þarf að stöðva Háskóla Íslands, spilafíkilnn við Suðurgötu.  

Fréttabréf